25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

168. mál, flugvallagjald

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil gjarnan vekja athygli á því og undirstrika það, sem ég sagði í ræðu minni áðan, að við gerð fjárl. er gert ráð fyrir þessum tekjum til ríkissjóðs ómörkuðum, þannig að í því tilfelli, sem hér um ræðir, held ég að það sé ekki unnt að framkvæma þá hugmynd sem hv. þm. vék að í ræðu sinni áðan. Það er að sjálfsögðu hugmynd um það með hvaða hætti skuli nýttar þær tekjur sem skattborgararnir greiða, ef um er að ræða markaða tekjustofna í hverju einstöku tilfelli. Ég er andvígur því og tel að það sé ekki rétt stefna í sambandi við tekjustofna ríkissjóðs að þeir séu markaðir um of. Vel má vera að undir vissum kringumstæðum sé það réttlætanlegt, en regla held ég að ætti þar aldrei að koma til.