25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil undirstrika það mjög sterklega, sem hér hefur komið fram, að þau tíðindi, sem nú berast af hafinu fyrir austan landið, eru mjög alvarleg. Þegar farið er að tala um það hér að fram undan sé orrusta á hafinu úti fyrir Austurlandi, þá vona ég að menn geri sér allir ljóst hvað það þýðir og hvaða aðstöðu sjómenn okkar, sem þar eru, hafa, miðað við þá sem á móti þeim standa. Það eru auðvitað geigvænleg tíðindi ef bresku skipstjórarnir, sem voru nógu slæmir fyrir, hafa fengið skipanir um að ganga harðar fram en þeir hafa þó gert hingað til. Svo virðist þó eftir fréttum, og er það vafalaust af því að varðskipunum hefur undanfarna daga tekist að skera aftan úr allmörgum togurum.

Við höfum nokkrum sinnum í þessu þorskastríði heyrt frásagnir viðfrægra blaða erlendra sem sum hver, eins og Times í London, njóta heimsvirðingar fyrir það að vera áreiðanleg fréttablöð og gæta fyllstu óhlutdrægni og alvöru í fréttum sínum, og við getum ekki betur séð en að frásagnir í slíkum blöðum séu þveröfugar við það sem hefur gerst. Nú hefur þetta komið fyrir aftur, og verð ég að segja að það hefur snúist til hins verra eftir að okkur hafði tekist að sækja á í þessu fréttastríði. Ég tel að það sé mjög mikilvægt, ekki síst ef búast má við jafnvel alvarlegri árekstrum á næstunni, að við slökum ekki á því að koma á framfæri sem skjótustum og réttustum upplýsingum einhvern veginn. Við verðum þá að fara fram hjá bresku pressunni ef búið er að sjá svo um að hún segi fréttirnar ekki á sannan hátt, heldur á breskan hátt og láta sér nægja að prenta það sem talsmenn flotamálaráðuneytisins í London segja þessum blöðum.

Það er augljóst af fréttum í morgun að bretar hafa það fram yfir okkur að það eru ljósmyndarar í skipum þeirra og þeir hafa tæki til að senda myndirnar þráðlaust frá skipunum til lands. Hér er ekki um að ræða mjög fyrirferðarmiklar eða dýrarfréttaframkvæmdir,hvorki ljósmyndarana né þessi tæki. En aðstaða okkar er sú að myndir af þessum árekstrum eru ekki einu sinni komnar til Reykjavíkur enn þá. Ég vil beina því til hæstv. ríkisstj. að það verði haldið áfram að fylgja mjög eftir á þessu sviði ekki síður en sviði hinna raunverulegu aðgerða landhelgisgæslunnar, því að verði áframhald á árekstrum og komi fyrir enn alvarlegri árekstrar en hingað til hafa orðið, þá er mikilvægara en nokkru sinni að okkur takist að koma á framfæri erlendis sannleikanum um það hvernig þessir árekstrar hafa gerst.