25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

Umræður utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt, þótt ekki væri nema til þess að sýna að ég er alveg fullkomlega rólegur á taugum, eins og hv. þm. Ellert B. Schram var að víkja að hér áðan.

Ég vil aðeins leiðrétta það sem hv. þm. Guðlaugur Gíslason sagði áðan, að ég væri að leggja til að við færum að kaupa okkur herskip. Ég geri mér grein fyrir því að við ráðum ekkert við það. Hins vegar var ég að benda á það að við leituðum eftir því að fá slík skip lánuð eða leigð, og það er alls ekki ritilokaður möguleiki.

En aðalerindi mitt hingað upp var að segja örfá orð við siðabótamanninn Sighvat Björgvinsson, hv. þm., sem mátti varla vatni halda af hneykslun yfir því að ég hefði verið með minn málflutning á allt of lágu plani. Ég hefði getað tekið því með mestu rósemi, ef einhver annar þm. af þeim 40 í Nd. hefði sagt þetta, og ekki séð ástæðu til að standa upp þess vegna. En fyrst það var þessi hv. þm. sem kom með þessi orð, að ég hefði verið hér með gamanmál, — ég tel það ekkert gamanmál þegar ég var að segja að við þyrftum að sýna bretum hörku. Það er ekkert gamanmál að í Bretlandi skuli sitja slík fasistastjórn, samansett af misheppnuðum krötum. Það er síður en svo gamanmál. Ég átti svo sem von á því að þessi hv. þm. tæki upp hanskann fyrir þessa bresku mafíu. Krötunum rennur blóðið til skyldunnar hvar sem þeir eru staddir, þótt þeir séu hér blessunarlega fáir og fari vonandi enn fækkandi, þó að það sé varla mögulegt.

Þessi hv. þm., Sighvatur Björgvinsson, hefur nefnilega vakið á sér sérstaka athygli hér í sölum þingsins með óskaplegum ræðum sem ég nenni ekki að útskýra frekar. Hann flutti hér einu sinni eina dómadagsræðu þar sem flest orðin voru skammaryrði, gífuryrði, upphrópanir og svo sagnirnar að hausa og skera og blæða út og ég veit ekki hvað það var allt saman. En ég vil ekki þessum ágæta þm. að öðru leyti svo illt að mér detti í hug að fara að lesa upp úr þingtíðindum þessa ræðu. Sú ræða verður lengi í minnum höfð vissulega. Hún er til á prenti og til hennar má vitna hvenær sem er. Sú ræða var þessum hv. þm. til mikillar skammar og hún verður ekki af honum tekin. En ef einhver vill vanda um við mig eða aðra hv. þm. hér, ef þeir taka sterkt til orða og vilja kveða fast að þegar þeim er mikið niðri fyrir og þegar mikið er í húfi, þá ætla ég að leyfa mér að benda þessum hv. þm. á að gera það ekki aftur því að hann er svo sannarlega og vitanlega síðasti þm. í þessari hv. d. sem hefur efni á því.