25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2187 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Mér er ljóst að það er ekki tími hér til langra umr. og allra síst fyrir mig sem er nú að tala hér í þriðja sinn. En það eru nokkur atriði, sem hafa komið fram í þessum umr., sem ég tel ástæðu til að víkja að með örfáum orðum vegna þess að hér er verið að ræða mjög alvarlegt mál. Það er verið að ræða um það til hvaða aðgerða við eigum að grípa í miklum vanda sem við stöndum nú í í okkar landhelgisgæslu við breta.

Ég setti fram í minni fyrri ræðu hugmyndir um hvað ég teldi að við ættum m.a. að gera. Þessar hugmyndir mínar hafa fengið misjafnar undirtektir. En ég verð að segja það, að mér finnst viðbrögð þeirra hv. þm., sem ekki hafa getað fallist á mínar hugmyndir, vera býsna furðuleg.

Á það hefur verið bent að ég og mínir flokksbræður hefðum bent á það áður að landhelgisdeila okkar við breta væri annað mál en spurningin um aðild að NATO eða spurningin um það hvort við ættum að hafa erlenda herstöð í okkar landi. Þetta liggur alveg ljóst fyrir og eru engar deilur eða þrætur um það. En hitt hefur líka margsinnis komið fram hjá mér og mínum flokksbræðrum, að vitanlega verðum við að taka afstöðu til hinna einstöku mála eftir því hvernig þau ber að. Það er staðreynd út af fyrir sig að við erum í NATO. Vegna hvers erum við í NATO? Þetta á að vera varnarbandalag til þess að tryggja varnir okkar lands, er sagt. Og í þeim sáttmála, sem þar var gerður, segir að árás á eina þjóð bandalagsins beri að skoða sem árás á þær allar. Hér koma menn með þá þekktu speki og segja: Ja, það segir ekkert um það í samningum að ef einhver ein bandalagsþjóð ræðst á aðra þá þurfi bandalagið ekki neitt að gera. Það stendur heldur ekkert í þessum samningi um það að bandalagið eigi að verja okkur ef einhver og einhver annar ræðst á okkur, t.d. Kínverjar. Þá væri hægt að segja: Það stendur ekkert um þetta í samningnum, það er best að láta Ísland eiga sig, einverjar taka Ísland af því að það stendur ekkert um það. (Gripið fram í: Kínverjar eru ekki í NATO). Kannske færi það nú svo? En það geta verið einhver önnur lönd sem þá kæmu til. — Auðvitað er hér um hártogun að ræða og hreina fjarstæðu. Bandalagið tók þessar skyldur á sig með þeim sáttmála sem gerður var, og spurningin er hvort á að halda þessari ábyrgð að bandalaginu eða ekki.

Nú er auðvitað augljóst mál að til þess getur komið að eimhver af bandalagsþjóðum NATO ráðist á okkur eða einhverja aðra þjóð í bandalaginu, ekki bara vegna fiskveiðideilu, heldur af einhverjum öðrum ástæðum. Og þegar það gerist að bretar senda sinn herskipaflota inn á íslenskt lögsögusvæði, ráðast á okkur, brjóta jafnvel reglur í óumdeilanlegri íslenskri landhelgi, þá kemur spurningin: Getum við verið í því bandalagi sem bretar eru í, án þess að gera nokkurn skapaðan hlut? Jafnvel hæstv. ríkisstj., sem virðist vera býsna viðkvæm fyrir NATO-aðildinni, hefur lítið þannig á að það bæri að kæra þetta fyrir NATO. Hún hefur litið þannig á að þetta mál ætti að takast upp við NATO. Þetta var ekki NATO óviðkomandi að dómi ríkisstj.

En þegar það fór þannig að NATO gerði ekkert í málinu, nema sagði að þeir vildu athuga málið, þá kemur eðlilega hin spurningin upp: Eigum við þá að láta mótmælin ein duga og halda áfram að vera í þessu bandalagi og sitja fundi með árásarþjóðinni eins og ekkert hafi í skorist. Það gefur auga leið að allar þjóðir, sem svona staða kæmi upp hjá, mundu auðvitað byrja á því að slíta stjórnmálasambandi við árásarþjóðina, það þætti auðvitað sjálfsagt. En menn mundu líka fylgja eftir mótmælum sínum og kærum við hernaðarbandalagið, sem menn voru aðilar að, með því, ef það gerði ekki neitt, að hætta ákveðnu samstarfi við bandalagið, t.d. með því að kalla sendiherra sinn heim frá bandalaginu. Í till. minni reyndi ég, af því að ég vissi um viðkvæmni manna í sambandi við NATO og alla þá endileysu sem menn eru búnir að flækja sig í í sambandi við þetta hernaðarbandalag, þá minntist ég aldrei á það í ábendingum mínum nú að við skyldum segja okkur úr NATO. Því miður er málið þannig að það þarf eflaust að gerast miklu meira af einhverju NATO-ríkinu gagnvart okkur íslendingum áður en menn virðast vilja taka það á dagskrá. En ég talaði um það í mínu máli að við skyldum slíta samstarfi okkar við þá á meðan eitt af bandalagsríkjunum hefði her í okkar landi eða væri með herskip sín á íslensku lögsögusvæði, kalla sendiherrann heim í mótmælaskyni auðvitað og neita samstarfi við bandalagið, sem þarna bregst skyldum sínum, og síðan segja við þetta bandalag: Við getum ekki látið ykkur hafa sérstaka aðstöðu í okkar landi undir þessum kringumstæðum. Við lokum fyrir þá aðstöðu. — Auðvitað er þetta það eina rökrétta. Þetta mundu allar þjóðir gera sem standa raunverulega uppréttar, ef þær mættu svona aðstöðu, — allar.

Sannleikurinn er auðvitað sá hér hjá okkur, að ef hæstv. ríkisstj. heldur ekki á málinu á þennan hátt, að fylgja eftir kæru sinni og mótmælum, þegar ekkert er að gert hjá NATO, með því að kalla sendiherrann hjá NATO heim og með því að hætta samstarfi við bandalagið og með því að loka fyrir aðstöðu þess hér á landi, — ef hæstv. ríkisstj. gerir þetta ekki þá vitum við að þá gera landsmenn það fyrir ríkisstj. Mér er sagt að það sé nýlega búið að grípa til þess í annað sinn að loka fyrir vegarsambandið upp að NATO-stöðinni við Grindavík, það hafi verið gert nú í dag. Það kemur mér ekkert á óvart. En ríkisstj. getur auðvitað valið sér þann kost að sitja aðgerðalaus, stara á málið, gera raunverulega ekki neitt og segja, eins og hæstv. forsrh. sagði hér, að málið yrði tekið upp í NATO-ráðinu aftur, eða þá að leika sér að slíku, eins og hér hefur komið fram hjá einstökum hv. þm., að segja að við íslendingar ættum að leggja fram till. í NATO um að bretar yrðu reknir. Jú, það er út af fyrir sig ágæt till., og ég held að ríkisstj. ætti að beita sér fyrir því að leggja hana fram strax. En hvað ætlar hún að gera þegar allir í þessu bandalagi hlæja að till., enginn vill samþykkja hana, í mesta lagi einhverjir örfáir menn segja: Við höfum samúð með ykkur íslendingum fyrir að flytja þessa till.? Spurningin er þá hvað við ætlum að gera áfram.

Ég verð að segja, eins og ég hef sagt hér áður, að það furðulegasta í þessu máli er einmitt að þeir, sem mest hafa prédikað hér gildi þess fyrir íslendinga að vera í NATO, gildi þess að hafa hér erlenda herstöð í landinu, þeir skuli lyppast niður á þann hátt sem menn gera nú þegar eitt af þessum bandalagsríkjum ræðst á okkur með sínu hervaldi. Það er alveg furðulegt. Það er auðvitað í áttina þegar einstakir þm., sem standa með aðildinni að NATO, segja hér, eins og hv. þm. Ellert B Schram, að það sé vissulega slæmur kostur, það sé vondur kostur að þurfa að vera í þessu bandalagi. Hv. þm. finnur það. Og þegar hann athugar það betur, þá finnur hann að það er meira en slæmur kostur, það er í rauninni alveg ómögulegt að vera í slíku bandalagi áfram.

Ég vil fyrir mitt leyti taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni um að við þurfum að útvega okkur hraðskreitt skip sem gæti gengið meira en bresku freigáturnar gera. Þannig gætum við torveldað veiðar breta og jafnvel komið í veg fyrir veiðar af því tagi sem bretar treysta sér til þess að halda hér áfram. Ég tek undir þetta. Ég hef margsinnis bent á þetta áður, og ég álít að við eigum að hafa hraðar hendur í þessum efnum. En þó að við gætum með áframhaldandi klippingum og aðgerðum okkar á fiskimiðunum gert veiðar breta ómögulegar, þá breytir það ekki því, ef við viljum halda reisn okkar, þá getum við ekki þolað það að eitt af handalagsríkjum okkar í NATO sendi herskipaflota hingað til lands til þess að hlutast um okkar innri mál. Það er alveg sérstakt mál sem á að gera upp.

Ég vil svara því sem kom fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Hann spyr í miklum vandræðum, því að hann spurði fyrst og fremst, en lagði ekki til neitt sjálfur, hvað ætti að gera. Hann spyr: Já, en ef ekkert gerist í landhelgismálinu við það að við köllum sendiherrann heim, hvað gerum við þá? Ef ekkert gerist í landhelgisdeilunni við það að við förum úr NATO og ef ekkert gerist í landhelgisdeilunni við það að við lokum herstöðinni hér við Keflavík, hvað gerum við þá? Mér hefur aldrei komið annað til hugar, ef þetta lokaðist allt fyrir okkur og það kæmi ekkert út úr þessu, en við mundum halda okkar stríði áfram, fá þetta hraðskreiða skip sem hv. þm. Guðlaugur Gíslason hefur bent hér á og ég hef gert nokkrum sinnum áður. Mér hefur aldrei komið annað til hugar. (Gripið fram í: Hvað er unnið við að ganga úr bandalaginu?) Vegna þess, sem ég hef verið að segja og hv. þm. hlýtur að skilja, að við verðum að krefjast þess af því bandalagi, sem við erum í, að það standi við sína samninga við okkur. Við getum ekki þolað það að vera í hernaðarbandalagi með þjóðum sem brjóta á okkur samninga. Það er að lítillækka sjálfan sig að láta bjóða sér slíkt.

Ég vil segja það, sem ég hef sagt hér áður, að það er auðvitað höfuðnauðsyn í þessu máli, eins og sakir standa nú, að það komi viðbrögð frá okkar hálfu strax við því sem hefur verið að gerast, að menn séu ekki að bíða, því að slík bið býður hættunni heim. Af því segi ég: Ríkisstj. á að kalla saman fund í utanrmn. og landhelgisnefnd, og hún á að taka þetta mál upp við stjórnarandstöðuna og reyna að fá sem breiðasta samstöðu um aðgerðir, — aðgerðir sem væru líklegar í málinu. Það getur ýmislegt komið til. Ég hef bent á nokkur atriði sem mér finnst vera sjálfsögð. En dráttur og allar yfirlýsingar í þá átt að við megum ekki hóta neinu gagnvart NATO, — allar slíkar yfirlýsingar auka raunverulega á hættuástandið hér hjá okkur. Þær eru að mínum dómi stórhættulegar. Ég vænti nú þess, enda hef ég ekki ástæðu til annars, miðað við þær undirtektir sem fram hafa komið hjá ríkisstj., en hún taki þetta mál nú til athugunar og í fullu samráði við stjórnarandstöðuna, hvað á að gera og hvað er hægt að gera strax í málinu.