29.10.1975
Neðri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Jón Skaftason:

Virðulegi forseti. Það frv. til l. um breyt. á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins, sem hér er til 1. umr., er ekki í sjálfu sér efnismikið út af fyrir sig skoðað. En það er að mínu viti borið fram á þeim tíma í þjóðarsögunni sem gerir efni þess athyglisvert og umræðuvert hér á hv. Alþ. Ég lít svo til að við, sem lifum í dag í þessu landi, stöndum nú frammi fyrir og séum raunar komnir fyrir nokkru inn í einhverja þá mestu efnahagskreppu sem íslendingar hafa lifað síðan þeir stofnuðu til lýðveldis í landi hér og tóku stjórn eigin mála í sínar hendur.

Ég ætla ekki að fara að rekja ástæðurnar fyrir því að svo er komið högum okkar í þessu landi. Þær eru margar og flóknar og samslungnar. Ég vil aðeins segja í þessu sambandi að verulega ástæðu fyrir því, hvað erfiðlega gengur hjá okkur í dag, má finna í því að okkur hefur ekki tekist að stjórna málum, m.a. héðan úr þessu húsi, eins og nauðsynlegt hefði verið til þess að komast hjá efnahagskreppu eins og þeirri sem við nú stöndum í.

Ég lít því á þetta frv. sem frv. um stefnumál sem okkur ber skylda til hér á hv. Alþ. að ræða af fyllstu hreinskilni og málefnalega.

Eitt af því, sem ég tel að sé mjög erfitt og þurfi að bæta úr í sambandi við stjórn efnahagsmála á Íslandi, er að reyna að koma á, eftir því sem föng eru á, meira trúnaðartrausti á milli stjórnvalda og þá ekki síst Alþ. og ríkisstj. annars vegar og almennings í landinu. Ég hygg að það geti fleiri en ég tekið undir það, að það trúnaðartraust, sem nú ríkir á milli þessara aðila, sé í lágmarki og það þurfi að bæta — og að þetta sé svo mikilvægt að raunar sé nokkuð borin von um að við getum lagað ýmislegt það í okkar þjóðfélagi, sem laga þarf, ef við getum ekki bætt úr þessum grundvallarveikleika í þjóðlífinu. Til þess að svo geti orðið er m.a. nauðsynlegt að hér sé til í landinu einhver sú stofnun sem gefur upplýsingar um efnahagsástand eða gefur út leiðbeiningar um þær línur er fylgja beri í efnahagsmálum landsins og almenningur treystir og vill leggja eyrun við og taka nokkurt tillit til. En ég hygg að ég fari nokkuð nærri sannleikanum þegar ég segi að nú sé ástandið þannig í okkar landi að það er næstum því sama hvaða stofnun gefur út einhverjar tölur um staðreyndir í efnahagsmálum landsmanna, að þá eru þær af stórum hluta landsfólksins tortryggðar og að litlu hafðar. Þar af leiðir að við fáum iðulega ekki þann stuðning í heilbrigðu almenningsáliti sem frjálsu löggjafarþingi eins og okkar er nauðsynlegt að hafa.

Þegar vinstri stjórnin var hér mynduð á árinu 1971 var það yfirlýst stefna þeirrar stjórnar að hún ætlaði að taka upp skipulegan áætlunarbúskap á Íslandi í auknum mæli frá því sem verið hafði. Út af fyrir sig var ég því algjörlega samþykkur og algjörlega því að rekinn sé heilbrigður og grundvallaður áætlunarbúskapur í okkar þjóðfélagi. Um það þarf ekki að deila hér. Flest þjóðfélög reka í meiri eða minni mæli áætlunarbúskap, og ýmis stórfyrirtæki viða um heim reka strangan áætlunarbúskap í sambandi við starfsemi sína. Var því ekki neitt vandamál fyrir mig sem stuðningsmann vinstri stjórnarinnar að samþ. aukinn áætlunarbúskap.

En svo kom að því, að til þess að aðstoða hæstv. þáv. ríkisstj. um framkvæmd slíks búskapar var þessi stofnun, Framkvæmdastofnun ríkisins, sett á laggirnar. Henni var með lögum fengið meira vald en ég hygg að nokkur stofnun — nema kannske fjárhagsráð, ég þori ekki að segja um það, hafði á sínum tíma um efnahagsmál — um það hvernig að stjórnun efnahagsmála skyldi staðið. Þessi stofnun átti m.a. að vinna að því að horfið yrði frá því, — ég hygg að það hafi verið nefnt í ræðum sem fluttar voru hér á hv. Alþ. í nóv. og des. 1971, — að horfið skyldi frá því handahófi sem uppbygging íslensks atvinnulífs hefði allt of mikið einkennst af á undanförnum árum. Lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins bera það með sér að hér var gífurlega mikið vald fengið einni stofnun í hendur, og það fór ekki milli mála að það skipti að sjálfsögðu höfuðmáli að þeir, sem slíkri stofnun stjórnuðu, tækju hlutverk sitt alvarlega, störfuðu á grundvelli almennra reglna og létu þá persónulegu fyrirgreiðslupólitík, sem því miður hefur einkennt okkar þjóðfélag um marga áratugi, koma helst ekki fyrr en í þriðju röð.

Það var mér því afar mikill þyrnir í augum, — ég hygg að ég muni það rétt, — þegar ég sá í frv. ákvæðin um framkvæmdaráðið svokallaða, að það skyldi vera í stofnuninni, þá fannst mér að þar væri um hluti að tala sem þyrfti að athuga betur. Mér fannst þetta bera keim af þeirri áráttu íslenskra stjórnmálamanna um margra áratuga skeið að hugsa fyrst og fremst — eða kannske ekki fyrst og fremst, en í of miklum mæli um það hvernig þeir gætu tryggt fylgi við sína flokka eða við sig sjálfa með alls konar fyrirgreiðslupólitík sem þegar allt er skoðað ofan í kjölinn hlýtur að koma niður á almennum hagsmunum allra landsmanna. Ég varaði því við því í þingflokki okkar 1971 að þetta framkvæmdaráð yrði sett á laggirnar, vildi að það yrði tekið út úr frv. því að þótt til kynnu að veljast ágætir menn til þess að sitja í stólum þessara framkvæmdaráðsmanna, þá þóttist ég sjá í hendi mér, og miðað við reynslu undangenginna ára, að freistingarnar og tækifærin til þess að reka hreppapólitík kynnu að verða svo sterk, að við það yrði ekki ráðið.

Ég ætla að reyna að finna þessum orðum stað í ræðu minni síðar, og ég bið hv. þm. og sérstaklega þá frsm., — það er víst ekki nema einn sem hefur skipað þetta á undanförnum árum, — að skoða þessi orð mín á engan hátt sem persónulega árás á sig eða neina þá einstaklinga sem framkvæmdaráðið hafa skipað. Ég býst við því að þeir hafi hvorki verið betri né verri en hverjir aðrir sem settir hefðu verið í þá stöðu sem þeir hafa verið settir í og miðað við þær kröfur, sem þeir flokkar sem stóðu og standa að ríkisstj. á hverjum tíma og vilja nota sér þetta kerfi, gera til slíkra manna.

Áætlanagerð er nokkuð stórt orð, og eins og ég sagði áðan er ekki um það deilt, held ég, í neinu þjóðfélagi út af fyrir síg að áætlanagerð sé nauðsynleg. En það er eðli áætlanagerðar, ekki síst í þjóðfélögum sem eru nýbúin að fá sitt frelsi og eru að rísa á legg og byggja upp hjá sér, að áætlanagerð — hagkvæm áætlanagerð, jákvæð áætlanagerð um þróun þjóðarbúskaparins — verður ekki hrist fram úr erminni eins og kanína úr hatti töframanns á einni stundu. Hún þarf að þróast á löngum tíma. Hún þarf að læra af reynslunni og hún þarf umfram allt að vera hlutlaus og miða við almennar reglur. Það kom því dálítið á óvart, að mér fannst, ákvæðið um framkvæmdaráðið sem gerir ráð fyrir, að framkvæmdastjórarnir séu æðstu menn þessarar valdamiklu stofnunar. Þeir áttu að ráðast til stutts tíma eða jafnlangs tíma og viðkomandi ríkisstj. situr. í 4. gr. laga um Framkvæmdastofnun ríkisins segir: „Ríkisstj. skipar þriggja manna framkvæmdaráð er annast daglega stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins. Framkvæmdaráð má leysa frá störfum með mánaðar fyrirvara, og eiga þá framkvæmdaráðsmenn rétt til óskertra launa í þrjá mánuði. Stjórn Framkvæmdastofnunarinnar tekur ákvörðun fyrir hönd stofnunarinnar um launakjör framkvæmdaráðs, forstöðumanna deilda og annarra starfsmanna.“ í lögunum er sem sagt ákveðið að æðstu menn þessarar valdamiklu stofnunar skuli ráðnir lausri ráðningu og þeir skuli fara jafnskjótt og stjórnarskipti verða, ef ekki tekur við ný stjórn sem hefur einhver svipuð sjónarmið eða treystir svipuðum mönnum til þess að skipa þessa stjórn og sú ríkisstj. sem á undan var. Mér fannst þetta stangast á við tilgang áætlanagerða, sem er langtímaáætlun og þarf að vera í viss stöðugleiki ef vel á að vera.

Framkvæmdaráðið hafði, eins og ég sagði, geysimikil völd. Verkefni þess eru skilgreind í 5. gr. laganna. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkefni framkvæmdaráðs eru m. a.

1. að láta gera áætlanir á vegum stofnunarinnar og leggja þær fyrir stjórn hennar;

2. að gera till. til stjórnarinnar um rekstraráætlanir og starfsáætlanir fyrir stofnunina;

3. að gera till. um árlega heildaráætlun fyrir Framkvæmdasjóð og Byggðasjóð svo og um einstakar lánveitingar úr þeim;

4. að ráða stofnuninni starfsfólk innan ramma fjárhagsáætlunarinnar, að fengnum till. forstöðumanna deilda, sbr. þó 3. gr. 1. tl.“

Ljóst er af þessu að það eru engin smávöld, sem þessum framkvæmdaráðsmönnum hafa verið fengin með lögunum. Og nú langar mig til þess næst að víkja að því hvernig mér sýnist að reynslan hafi verið, eftir því sem hún blasir við mér, af störfum þessarar stofnunar og framkvæmdaráðsmeðlimanna þá ekki síst. Það kann að vera að eitthvað í því sé ekki byggt á albestu heimildum, en það verður þá væntanlega leiðrétt. En um sumt hef ég glöggar upplýsingar sem ég hygg að verði ekki hraktar.

Það er þá í fyrsta lagi, að fljótlega komust menn að því að þetta mikla vald hjá einni stofnun var ekki á allan máta hagkvæmt. Því gerðist það að nokkuð snemma var ákveðið að taka eina af þremur deildum Framkvæmdastofnunarinnar, þ.e.a.s. hagrannsóknadeild, undan henni og gera hana alveg sjálfstæða, losa hana algjörlega frá þessari miklu valdastofnun. Ég leit á það á vissan hátt sem jákvæðan þátt af því það hafði sýnt sig að hagrannsóknadeildin naut ekki þess sjálfstæðis sem nauðsynlegt var að starfsmenn hennar hefðu, þó að hún væri ekki í fullkomnu sambýli við Framkvæmdastofnunina og stjórn hennar sem slík, því að hún heyrði aldrei undir framkvæmdaráðið, heldur heyrði hún undir ríkisstj. í heild. Var því horfið að því 1. ágúst 1974 að stofnuð var Þjóðhagsstofnun sem ég tel að sinni afar þýðingarmiklu verkefni í okkar þjóðarbúskap. Og ég vil sérstaklega að það komi fram hér frá mér, af því að ég veit að þar mæli ég rétt og mæli fyrir munn margra annarra, að sá maður, sem valist hefur til forstöðu í hagrannsóknadeildinni og síðar Þjóðhagsstofnuninni, Jón Sigurðsson, er að flestra ef ekki allra dómi hinn ágætasti í alla staði.

Annað eða kannske jafnvel veigamesta verkefni Framkvæmdastofnunarinnar var gerð áætlana um þróun þjóðarbúskaparins og þar fram eftir götunum. Það getur verið að mönnum sýnist sitt hvað um hvernig starf þeirrar deildar hefur gengið, en til þess að ég sé ekki sjálfur að leggja neinn sérstakan dóm á hvernig því starfi hefur miðað, þá langar mig til þess að lesa upp — með leyfi hæstv. forseta — úr skýrslu stjórnar stofnunarinnar fyrir árið 1974 um hvernig sjálft starfsfólkið, sem stjórnað hefur þessari deild, eða þeir, sem ábyrgð bera á þessari skýrslu, og það eru væntanlega starfsmenn áætlanadeildar, — hvernig þeir telja að starfsskilyrði þeirra hafi verið til að sinna þessu veigamikla verkefni í okkar þjóðarbúi, en í inngangsorðum að skýrslu um starfsemi áætlunardeildar 1974 segir m. a. þetta:

„Áætlunargerðinni hefur helst staðið fyrir þrifum vöntun á heildstæðum ramma um samanburð og mat á gildi framkvæmda og atvinnurekstrar, og ekki hefur síður skort á beint og lifandi samband við töku ákvarðana í þessum efnum. Á þetta ekki síður við um opinberar framkvæmdir og starfsgreinar en þær sem eru á vegum einkaaðila. Er mjög tilviljunum háð hvaða framkvæmdir koma til skipulegs mats eftir árangri eða arðsemi. Á það takmarkaða mat, sem lagt er á framkvæmdir, skortir alla samræmingu og samanburð, ekki aðeins milli framkvæmdagreina, heldur einnig innan sömu greina, sem þó lúta sameiginlegri yfirstjórn rn. eða annarrar hliðstæðrar stofnunar.

Við þessi skilyrði stefnumótunar og ákvarðanatöku er í reynd mjög treyst á atfylgi og þrýsting atvinnugreina, landshluta og annarra hagsmunaaðila til að fá málum sínum framgengt, einkum fyrir atbeina þm. og annarra áhrifaaðila. Með því móti er að sjálfsögðu engin trygging fyrir að hagstæðustu framkvæmdirnar gangi fyrir. Kraftar stjórnkerfisins fara í langdregin fundahöld til að vega og meta styrk þess atfylgis, sem hvert mál nýtur, og vandséð hvenær og hvernig niðurstaða er fengin. Margt í þessum starfsaðferðum er beinlínis andstæða allrar áætlanagerðar, svo sem þegar margar framkvæmdir til sömu nota eru í undirbúningi til framkvæmdar samtímis eða þegar stórfelldar framkvæmdir eða tækjakaup einkaaðila koma til afgreiðslu pólitískra yfirvalda án skipulegs mats á væntanlegum árangri fjárfestingarinnar af hálfu stofnlánasjóðs eða annarra faglegra aðila.

Afleiðingar þessara starfsaðferða eru á margan hátt óæskilegar. Algengast er að árlegar framkvæmdaáætlanir séu rifnar upp til endurskoðunar og niðurskurðar jafnharðan og þær hafa verið afgreiddar. Er þá niðurskurðurinn handahófskennt flýtisverk og niðurstaða flókinnar togstreitu áhrifaaðila. Bið eftir síðbúnum áætlunum og síðan niðurskurði þeirra spillir undirbúningi framkvæmda stórlega, svo að í reynd verða skuldbindandi aðgerðir að hefjast áður en endanleg niðurstaða er fengin. Það hefur aftur á móti í för með sér að ekki reynist unnt að fresta framkvæmdum eða skera niður nema valda með því verulegu tjóni eða kostnaðarauka, enda verður reyndin gjarnan sú að tilætlaður niðurskurður sé óframkvæmanlegur, svo að reynt er að liðka til fyrir einstökum framkvæmda-og lánaflokkum þegar á árið líður. Hliðstæðir örðugleikar reynast vera á því að halda sér við árlega áfanga áætlana til langs tíma, t. d. til 4 eða 5 ára áætlana. Fjárhagsörðugleikar og rýrnun framkvæmdafjár af völdum verðbólgu eru þá látin bitna á fyrri framkvæmdaáætlunum, enda þótt aðrar nýjar séu samtímis að ryðja sér til rúms og látnar hafa forgang.“

Þetta er ekki fallegur lestur sem ég var að lesa upp um reynsluna hjá þeim sem vinna beint að þessu verki í sjálfri Framkvæmdastofnun ríkisins. Ég hygg að hv. þm. mættu gjarnan leiða orðið meira hugann að því hvort það sé ekki virkilega á okkar eigin færi að koma í veg fyrir fleiri efnahagsleg óhöpp í okkar þjóðfélagi sem verða vegna svona starfsaðferða.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um áætlanagerðina. Ég sé, að framkvæmdaráðsmaðurinn hefur horfið úr salnum meðan ég er að tala, og mér þykir það leitt, en væntanlega getur hann fengið skýrsluna í stofnuninni og lesið þennan kafla sjálfur og þannig staðreynt að ég hef lesið rétt upp það sem þeir segja sjálfir sem að þessari skýrslu standa.

Þá kem ég að öðrum þætti í starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins sem hér hefur mikið verið lofaður og prísaður af mörgum. Ég skil þá mörgu hv. þm. sem hér hafa verið að tala og lofa hvað einstaklega mikið þarfaþing starfsemi Byggðasjóðs hafi verið fyrir þetta land, hvað hann hafi staðið að miklum og góðum framförum, — víðast um landið, að mér skilst, og hv. síðasti ræðumaður, Tómas Árnason, spurði held ég a. m. k. 10 sinnum áðan: Er það spilling að lána til þess að byggja skip? Er það spilling að lána til þess að byggja fiskiðjuver? — og svo fram eftir götunum, rétt eins og þessir peningar hefðu ekki verið til í þjóðfélaginu og gengið til útlána þótt þeir færu ekki í þennan sérstaka sjóð. Framkvæmdastofnunin sem slík hefur enga nýja peninga skapað fyrir þjóðfélagsþegnana. Þeir voru og eru annars staðar fengnir og ekki skapaðir af þeim, þannig að út af fyrir sig er það ekkert til að hrósa sér sérstaklega af þó að lánaðir hafi verið peningar úr þeim sjóðum sem við m. a. hér á Alþ. höfum reynt að styrkja með ríflegum fjárframlögum.

En það eru ekki allir þm. í þessu landi sem hafa svipaða sögu að segja af starfsemi Byggðasjóðsins. Ég er einn í hópi þeirra sem geta ekki farið í þennan stól og lofað og prísað örlæti stjórnar Byggðasjóðsins til lánveitinga í mínu kjördæmi. Ég hef áður vikið að þessu atriði á hv. Alþ. nokkur undanfarin ár og skal ekki endurtaka það mikið. Ég verð þó að segja að það er meira en vafasöm skynsemi í því að neita að lána, eins og gert var um tíma, fé til skipakaupa eða viðgerðar á skipum á svæði eins og Suðurnesjum, gömlu útvegssvæði sem ár eftir ár var eitt aðalútgerðarsvæði landsins, með þeim afleiðingum að skipaflotinn þar var orðinn sá elsti og ófullkomnasti á landinu.

Ég er ekki að segja að það sé þessu einu að kenna, en eitt með öðru á það sök á þessu. En ég ætla að gefa yfirlit um lánveitingar Byggðasjóðs miðað við kjördæmi í aðeins örfáum orðum með því að lesa niðurstöður skýrslu sem Framkvæmdastofnunin hefur sjálf gefið út, þ. e. a. s. ársskýrslu 1974, þar sem er að finna yfirlit yfir skiptingu samþykktra lánveitinga og styrkja Byggðasjóðs árið 1974 eftir atvinnugreinum o. fl. og þeim er skipt eftir landshlutum eða öllu heldur eftir kjördæmum. Þetta eru ekki neinar smáræðisfjárhæðir. Það eru samtals 661 millj. 799 þús. kr. sem hafa verið veittar til þessara lána og styrkja, og það hefur verið lánað til fiskiskipa, til viðgerðar á fiskiskipum, til fiskvinnslu, til niðursuðu, til fiskmjölsverksmiðja, til framleiðsluiðnaðar, til þjónustuiðnaðar, til landbúnaðar, til sveitarfélaga, vélgrafna og annarra vinnuvéla, vaxta, styrkja vegna raflínulána sveitarbýla og til annars. Og niðurstaðan af þessu eftir kjördæmum er þessi:

Vesturland hefur fengið 79 lán upp á 139 millj. 242 þús.

Vestfirðir hafa fengið 82 lán samtals að fjárhæð 115 millj. 92 þús.

Norðurland vestra hefur fengið 48 lán upp á 76 millj. 57 þús.

Norðurland eystra hefur fengið 89 lán upp á 123 millj. 858 þús.

Austurland hefur fengið 97 lán upp á 125 millj. 223 þús.

Suðurland hefur fengið 42 lán upp á 58 millj. 417 þús.

Og svo komum við að vonda fólkinu. Reykjanes hefur fengið 3 lán upp á 22 millj. 910 þús. og Reykjavík hefur fengið 1 lán upp á slétta eina millj.

Þetta er niðurstaðan af lánveitingum og styrkjum Byggðasjóðs á árinu 1974, og ég reikna með því, að sumir hv. þm., sem eru í þessum sal, geti skilið það að þeim, sem eru fulltrúar fyrir þau hin afskiptu svæði hjá þessum sjóði, verði nokkuð heitt í hamsi þegar svona staðreyndir eru lagðar á borðið.

Það kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, Tómasar Árnasonar, að fólksfjölgun úti á landinu á árinu 1974 hafi orðið meiri en hér á höfuðborgarsvæðinu. Hann sagði líka að verkefni Byggðasjóðs væri fyrst og fremst að koma í veg fyrir fækkun íbúa eða flótta fólks af vissum svæðum hingað til suðvesturhornsins. En einmitt á þessu ári sem ég var að lesa tölurnar upp, 1974, er það staðreynd að fólksfjölgun hefur orðið meiri utan höfuðborgarsvæðisins en á því.

Ég skal ekki lesa upp meira úr skýrslum sjálfrar Framkvæmdastofnunarinnar. Ég tel að það, sem ég hef lesið, renni stoðum undir það sem ég hef hér verið að segja, — styrkum stoðum, að það sé rétt sem ég hef hér verið að segja. En almennt talað tel ég að því miður hafi reynslan af starfi Framkvæmdastofnunar ríkisins ekki orðið sú sem ýmsir væntu af starfsemi hennar í byrjun. Það er staðreynd að þótt hverfa hafi átt frá handahófskenndri uppbyggingu atvinnulífs í landinu eftir að hún komst á fót og hverfa til skipulegra starfshátta, þá hefur hér í landinn verið grasserandi verðbólga allan tímann, m. a. fyrir það að lítil sem engin stjórn hefur verið á framkvæmdum í landinu undanfarin ár. Við höfum ráðist á undanförnum árum í miklu meira en við höfum getað ráðið við, með þeim afleiðingum að hér hefur orðið grasserandi verðbólga, Evrópumet í verðbólgu. Og skoðun mín er sú að fyrsta og aðalástæðan fyrir því að vinstri stjórnin gafst upp eftir 21/2 ár, síðasta vinstri stjórn, hafi verið fyrst og fremst sú, að það tókst ekki að reka efnahagspólitík hér í landinu sem tryggði að hún gæti lifað lengur og það m. a. vegna þess að sú skipuleggjandi stofnun, sem átti að sjá um skipulega uppbyggingu atvinnuveganna, brást að verulegu leyti.

Hæstv. forseti hefur tilkynnt mér að hann vilji fresta fundi þangað til í kvöld og ég hef ekki alveg lokið ræðu minni. (Forseti: Ætlunin var að fresta nú eftir korter, þannig að ef hv. þm. á smástund eftir af ræðu sinni, þá er óhætt að halda áfram lengur nú. Hafi hann hins vegar ekki lokið ræðunni kl, korter yfir fjögur, þá mun fundinum verða frestað til 9 í kvöld.)

Við stöndum e. t. v. á þröskuldi nýs þorskastríðs við breta. Við stöndum frammi fyrir þeirri óþægilegu staðreynd að fiskimiðin við Ísland hafa verið rányrkt í mörg ár. Það hefur komið fram, m. a. í sjónvarpi hjá einum kunnasta fiskifræðingi okkar, að jafnvel þó að okkur tækist að reka allan útlendan veiðiflota héðan af miðunum út fyrir 50 mílurnar, þá væri viturlegt af okkur að draga verulega úr okkar eigin sókn í fiskimiðin. Fiskifræðingarnir hafa varað sterklega við því að ef ekkert verði gert í þessum efnum, þá standi Íslendingar frammi fyrir því eftir 2–3 ár að hrygningarstofn helstu nytjafiska hér við landið verði orðinn það lítill, að veiði mun hrapa á Íslandsmiðum með afleiðingum fyrir þjóðina sem ekki þarf að rökstyðja eða fara nánar út í hér.

Hv. þm. Tómas Árnason sagði áðan að þegar þeir togarar væru komnir til landsins, sem væru í pöntun, ætti eftir að skila, þá væri togarafloti okkar orðinn 80 skip. Það má renna, þó að ég ætli ekki að gera það núna, fyllilega handbærum stoðum undir það að hagkvæmni fiskveiðiflota okkar sé miklu lakari en þyrfti að vera fyrir það að skipin eru of mörg. Ég er sammála þeim sem segja að við eigum að stunda fiskveiðar, raunar eins og alla aðra starfsemi í landinu, á afkastamestu skipunum. En ef hætta er á því að þau verði of mörg, þá á að kaupa þau eldri út, svo að við höfum mannskap á skipin, svo að við getum nýtt fiskimiðin á sem hagkvæmastan hátt. En þetta höfum við ekki gert. Og þá komum við m. a. óbeint inn á athafnasemi og starfssvið Framkvæmdastofnunarinnar.

Hvernig stendur á því að þróunin í þessu sambandi hefur orðið þessi, að við höfum e. t. v. í dag of stóran flota? Ég veit ekki hvað menn gera sér háar hugmyndir um að við getum rekið næstu tvö árin öll útlend skip úr okkar fiskveiðilandhelgi. En það er alveg augljóst að ef við getum það ekki, sem því miður verður að teljast sennilegt, þá erum við í hreinum vanda með okkar eigin flota og verðum að leggja einhverjum hluta hans.

Þá er síðasta atriðið sem mig langar til að koma að í sambandi við reynsluna af starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar. Það er að mínu viti afar mikið atriði að stofnun sem Framkvæmdastofnunin njóti trausts landsmanna. Ekki síst er nauðsynlegt að hún njóti trausts svokallaðra aðila vinnumarkaðarins, ef vel á að fara. Það þarf að koma þar á góðu samstarfi. Ég dreg afskaplega mikið í efa að Framkvæmdastofnunin hafi gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Ég dreg það afar mikið í efa að þeir sjái í henni þá stofnun sem þeir telja að sinni sínu verkefni eins og þyrfti að gera og því sé nokkur brotalöm á þessu svo lífsnauðsynlega samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Þetta er stærra atriði en menn e. t. v. halda þegar þeir líta á þetta fyrst.

Við íslendingar, eins og ég sagði áðan, stöndum nú frammi fyrir einni mestu kreppu sem yfir okkur hefur gengið um marga áratugi. Við höfum verið einstaklega fundvísir á það að mínu viti að stjórna efnahagsmálum okkar eftir leiðum sem — ef ég mætti segja það — e. t. v. þekkjast ekki annars staðar í löndum hér fyrir vestan okkur og austan sem við vildum kalla að stjórnuðu á menningarlegan hátt. Það er talað um að það sé hægt að stýra efnahagsmálum þjóða eftir tveimur meginleiðum: Það er svokölluð frjálshyggjuleið eða þá að kalla það frelsisleið, þar sem athafnir manna, fjárfesting manna og þar fram eftir götunum stjórnast af því að m. a. gildi peninganna er stöðugt. Menn hugsa sig tvisvar um áður en þeir ráðstafa fjármunum í einhverja fjárfestingu, af því að þeir vita að þeir þurfa að borga lánaðar krónur með jafnverðmiklum krónum þegar að skuldadögum kemur. Hér á Íslandi hefur þessi leið verið gjörsamlega óvirk um mörg ár vegna verðbólgu. Hér hefur aðalatriðið í efnahagsstarfsemi mikils hluta þjóðarinnar verið í því fólgið að reyna að ná í eins stór lán og til eins langs tíma og mögulegt er til þess að fjárfesta í næstum hverju sem væri. Hin leiðin er leið skipulagshyggjunnar, sem menn hafa kallað svo og margir hafa skrifað um fallegar greinar og sagt mörg fögur orð um. Hún er á Íslandi eyðilögð eins og hin með því sem ég hef hér verið að lýsa, með svokölluðu kommissarakerfi sem hefur stjórnast meira af hreppapólitík og einstökum flokkahagsmunum þeirra, sem ráða í ríkisstj. á hverjum tíma, heldur en almennum hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Það er hart að þurfa að segja þetta, en þetta er að verulegu leyti satt. Ef sá tími, sem við lifum núna, sú efnahagskreppa, sem við erum að sigla inn í og erum ekki komin út úr enn, kemur engum manni til þess að hugsa um hvort við höfum gengið götuna til góðs fram eftir veg í stjórnun efnahagsmála, þá blasir ekki nema eitt við hér og það er þjóðargjaldþrot. Það er hreint þjóðargjaldþrot, sem ekki verður aftur tekið þegar það er orðið.

Ég viðurkenni að það er erfitt að ráða við hlutina í þessu þjóðfélagi eins og nú er komið. Það er ekki auðvelt að draga úr skriði dýrtíðarskrúfunnar eftir að hún er einu sinni komin á það skrið sem hún er í dag, og það verður ekki hægt ef þjóðin ætlar lengur og við hér á hv. Alþ. ætlum að leyfa okkur þann munað að feta troðnar slóðir í sambandi við stjórn efnahagsmálanna. Þá lendum við á skeri. — [Fundarhlé.]