25.02.1976
Neðri deild: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2197 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. er um framlengingu laga um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o.fl. Þau lög, sem nú eru í gildi um þetta efni, renna út nú um mánaðamótin og þess vegna er verið að fara fram á að hv. þdm. sýni þann velvilja að afgr. þetta frv. fljótt, enda hygg ég að nm. í fjh.- og viðskn. Nd. hafi unnið að málinu ásamt með n. í Ed., a.m.k. að einhverju leyti.

Þegar þetta frv. var lagt fyrir þingið var það lagt fram óbreytt samkv. lögunum. En í Ed. hefur verið gerð breyting á einni gr., og hún er á þá leið að í staðinn fyrir að gert var ráð fyrir styrk eins og er í lögunum, 82'00 kr. ef ég man rétt á hvern íbúa, þá er það hækkað upp í 9500 kr. Það er, að ég hygg, eina breyt. sem gerð var á frv. í hv. Ed. Þar af leiðir auðvitað að það verður minna eftir afgangs til þeirra þarfa sem gert var ráð fyrir eftir frv. þegar það var lagt fyrir.

Þetta mál er annars vel þekkt meðal þm. af því að það hefur verið samþ. tvisvar sinnum, og ég held að það sé alveg óþarfi að ég fari að ræða um málið hér. Menn þekkja allir þá þörf, sem hér er fyrir hendi, og ástæðurnar, sem lágu til þess að þetta söluskattsstig var lagt á á sínum tíma. Það er sem sagt þetta söluskattsstig sem fellur niður nú um mánaðamótin, það þarf .að framlengja það til þess að lögin geti haldið áfram að gilda.

Ég sé nú ekki, herra forseti, af því að ég fer fram á að málinu sé hraðað, ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en leyfi mér að óska eftir því að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til fjh.- og viðskn.