25.02.1976
Neðri deild: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

Umræður utan dagskrár

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Að nokkru leyti kvaddi ég mér hljóðs til þess að spyrja þeirrar spurningar sem hv. þm. Karvel Pálmason beindi til hæstv. utanrrh. áðan, og nú hefur komið svar við því, þannig að það er óþarfi að fara mörgum orðum um það. En ég ætla ekki að eyða ákaflega löngum tíma í að ræða þetta mál sem hér hefur verið til umr. utan dagskrár. Ég tók eflir þeim orðum hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar hér í dag að hann taldi mikla nauðsyn á því að fá sem breiðasta samstöðu í landhelgismálinu. Ég held ég muni það rétt að hann hafi orðað það á þann hátt. Og ég vil auðvitað taka mjög undir þessi orð hv. þm., því að allir hljóta að vera sammála um að það, sem okkur ríður hvað mest á, er að fá breiða og trausta samstöðu í landhelgismálinu. Ég held að allir hljóti að vera sammála um það. Enda hefur það ævinlega verið svo í öll þessi mörgu ár sem við höfum staðið í landhelgisdeilum við breta og raunar margar fleiri þjóðir, þá höfum við ævinlega reynt að leggja áherslu á að hafa sem víðtækasta þjóðarsamstöðu í landhelgismálinu. Við eigum hér í mjög harðri baráttu út á við og þess vegna er alveg augljóst mál að samstaða inn á við er nauðsyn. Og ég vil nú vegna þessara orða hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar minna á það, að stjórnarandstaðan getur ráðið ákaflega miklu um hvernig fer um þessa samstöðu. Og þó að ég ætli ekki að fara fram á það að stjórnarandstaðan hv. virði ríkisstj. í hverri grein, þá hygg ég þó að það sé mjög mikils virði að stjórnarandstaðan virði forustu ríkisstj. í þessu máli. En það segir sig auðvitað sjálft að ríkisstj. hefur sínar skyldur einnig gagnvart stjórnarandstöðunni í þessu máli og sjálfsagt að taka fullt tillit til skoðana hennar.

Hér hafa menn verið að veita fyrir sér þeirri spurningu hvað hægt sé að gera nú og hvað eigi að gera nú. Ég held að það sé ekki nema eitt í rauninni sem við getum gert eins og er. Það er aðeins eitt sem við getum gert og það er það, að við eigum eins og við erum nú að gera, við eigum að verjast þeirri ásókn, sem bretar sýna okkur m.a. með herskipainnrás. Við verðum að verjast þeirri ásókn með þeim tækjum sem við höfum. Við verðum að beita landhelgisgæslunni eins og hægt er, fyrst og fremst með því að beita þeim skipum, sem við þegar höfum og auk þess hljótum við að vinna að því að efla landhelgisgæsluna eftir því sem frekast er hægt og m.a. með því að afla nýrra skipa, eins og ýmsir hafa bent á. Í því sambandi kemur manni til hugar að það væri e.t.v. eðlilegast að leita til vina okkar og nágranna norðmanna í því efni og ræða það efni við þá.

En einmitt vegna þess sem ég er að segja nú, að ég tel að það sé aðeins eitt fyrir okkur að gera, að verjast innrásinni með þeim tækjum sem við höfum, þá vil ég líka bæta því við, að ég tel að tími samninga við breta sé með öllu liðinn. Við höfum að mínum dómi réttilega leitast við að finna lausn á þessu með samningaviðræðum. Ég tel að ríkisstj. hafi þar í engu hegðað sér óeðlilega, heldur fullkominn eðlilega, og menn munu sjá það, þó kannske síðar verði, og allir munu um síðir viðurkenna það, hygg ég. En ég held líka að nú sé tími samningaviðræðna við breta algjörlega liðinn, því að bretar hafa sýnt að þeir hafa ekki annað að bjóða í þessu en fullkomna óbilgirni.

Menn hafa rætt um ýmsar pólitískar aðgerðir í þessu máli og það hefur raunar komið ein stór pólitísk ákvörðun til framkvæmda, og hún er sú að slita stjórnmálasambandi við breta. Það er ekki lítið að gert. Ég er ekkert á móti því að við ræðum það að grípa til annarra utanríkispólitískra aðgerða í þessu máli. Og ég tei að það komi fyllilega til greina, að við beitum okkur gagnvart NATO enn á ný, að við beitum okkur enn þá gagnvart NATO t.d. með því að kalla heim sendiherrann sem situr í Brüssel. Mér finnst að það komi vel til greina ef það ætla að sýna sig að meðalganga Atlantshafsbandalagsins dugir í engu. Og ég tel líka, að við getum ekki varist því, hvort sem við viljum það eða viljum það ekki, þá getum við ekki varist því að menn fari að hugsa eitthvað upp á nýtt um veru okkar í þessu bandalagi. Ég hygg þess vegna að við hljótum að ræða það hvort ekki sé kominn tími til að tilkynna NATO um að við viljum endurskoðun á tengslunum við NATO. Mér finnst þetta komi mjög til greina. Við hljótum að fara að spyrja okkur þeirrar spurningar, eins og nú er komið, hvort það sé ekki einhver ágalli á þeim samningi sem við höfum gert við NATO um varnir landsins, um þátttöku í varnarsamstarfi, m.a. og fyrst og fremst um varnir Íslands.

Þetta vil ég að komi fram. Hér er ég auðvitað að lýsa persónulegri skoðun minni, en ég vona hins vegar að ég tali ekki á „skjön“ við þau viðhorf sem framsóknarmenn hafa almennt í þessum málum. En því fer fjarri að ég telji að við eigum að krefjast slíkrar endurskoðunar algjörlega vanhugsað. Ég tel það í rauninni hálfgerðan — ja, ég vil nú ekki nota sterk orð, en ég tel að það sé mjög óeðlilegt af okkur að ræða ekki sambandið við NATO í grundvallaratriðum eins og nú háttar samskiptum við bandalagið.

Ég vil svo endurtaka það sem ég sagði áðan, í upphafi míns máls, og var eiginlega að nokkru leyti tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs. Af því að ég tók vel eftir þeim orðum hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar þar sem hann talaði um breiða samstöðu um aðgerðir eða um afstöðu í landhelgismálinu, þá hlýt ég að taka undir það og ég vil beina því til stjórnarandstöðunnar í heild að það veltur ekki lítið á hvernig hún tekur á þessu máli og hvaða samstarf hún vill hafa við ríkisstj. um þessi mál.