25.02.1976
Neðri deild: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2201 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð til þess að fyrirbyggja misskilning, sem fram hefur komið vegna fyrri ræðu minnar í þessum umr.

Það er í fyrsta lagi vegna fyrirspurna og ummæla hv. 5. þm. Vestf. um það hver afstaða mín væri til samninga. Ég lýsti því mjög skilmerkilega fyrr í dag að ég líti svo á að samningaviðræður við breta kæmu ekki til greina frekar. Hins vegar gat ég þess, að ef fram kæmi einhver till. eða möguleiki á því að samkomulag væri um veiðar þeirra, um ákveðið aflamagn sem væri langt fyrir neðan það sem við höfum talað um hingað til í viðræðum við þá, þá væri það til athugunar fyrir okkur hvort ekki væri rétt að samþ. slíkt. Við skulum t.d. segja að bretar, hvort sem það væri fyrir milligöngu einhvers aðila eða hvort þeir tækju það upp hjá sjálfum sér að bjóðast til þess að fækka hér skipum sínum á Íslandsmiðum og veiða t.d. 10–15 þús. tonn af þorski, þá teldi ég það vitaskuld koma til greina og koma til álita fyrir okkur að heimila þeim slíka veiði. (Gripið fram í.) Þetta er það sem ég átti við og vona að það misskiljist ekki frekar.

Þá hafði hv. 2. þm. Austurl. þau orð eftir mér að ég hefði talið það slæman kost að vera í bandalaginu, þ. e. a. s. Atlantshafsbandalaginu. Ég held ég muni það rétt, að ég sagði orðrétt í minni fyrri ræðu að ég teldi það illan kost að vera í bandalaginu með bretum, og þá er það illur kostur vegna bretanna, en ekki endilega vegna bandalagsins. Hvernig sem menn vilja túlka það, þá hef ég auðvitað eins og allir sæmilega ábyrgir íslendingar velt fyrir mér þeim aðgerðum og þeim viðbrögðum, sem hugsanleg væru af okkar hálfu í þessu máli, og þ. á m. hef ég auðvitað velt fyrir mér hvort það kemur til greina að hafa í frammi einhverjar aðgerðir gagnvart Atlantshafsbandalaginu upp á það, að við næðum meiri árangri í fiskveiðideilu okkar við breta. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki skynsamlegt vegna fiskveiðideilunnar að hóta því að segja sig úr Atlantshafshandalaginu. Ég lít svo á að það sé rétt að reyna til þrautar að koma okkar máli á framfæri og ná einhverjum árangri á vettvangi NATO nú á næstu vikum og mánuðum, gera það með þeim tiltækum ráðum sem þar eru möguleg. Síðan verðum við að loknum þeim tilraunum og að lokinni þessari deilu að gera það upp við okkur, þegar þar að kemur, hvort við teljum áfram gagn vera að því fyrir íslendinga að vera í þessu bandalagi eða ekki. Ég gat þess líka í minni ræðu að ég teldi m.a. koma til greina að við íslendingar óskuðum endurskoðunar á samningnum á þann veg að þátttaka okkar byggðist á því, að ef til slíkra árekstra kemur eins og nú hafa orðið milli okkur og breta, ef kemur til árekstra á milli sem sagt bandalagsþjóða, þá séum við í þeirri aðstöðu sem vopnlaus þjóð að geta óskað eftir aðstoð með einu eða öðru móti af bandalaginu. Þetta þýðir auðvitað ekki að ég vill segja mig úr bandalaginn eða sé á þessu stigi málsins að velta því fyrir mér að við eigum að ganga úr því.

Ef ég tek á leigu íbúð í húsi þar sem önnur íbúð er líka á leigu til annars aðila og hinn leigutakinn gerir eitthvað á minn hlut, þá hefur það takmarkaðan tilgang gagnvart honum að ég hóti því gagnvart húseiganda að ég segi upp leigunni og fari úr húsinu. Það hefur litla þýðingu gagnvart hinum sem áreitti mig. Við verðum að beina spjótum okkar að þeim sem við erum í stríði við og eru að áreita okkur, þ.e.a.s. bretum í þessu tilviki. Við eigum ekki að beina spjótum okkar að bandalaginu eða hafa í frammi hótanir gagnvart því, því að ég tel að með hliðsjón af þeirri reynslu sem hafðist af stjórnmálaslitunum, þá sé vafasamur árangur af slíkum hótunum.

Hv. 2. þm. Austurl. gerði nokkurt gys að því hvernig viðbrögð manna yrðu ef við legðum fram till. hjá NATO um að bretum yrði vísað úr bandalaginu. Hann sagði að menn mundu sjálfsagt taka því með samúð og þættust hafa skilning á því, en síðan mundi enginn greiða slíkri till. atkv., þannig að við stæðum áfram í okkar deilu án þess að slík till. skilaði nokkru af sér. Með sama hætti held ég að hægt sé líka að gera gys að hótunum um það að við gengjum úr bandalaginu, því að ef við gerðum alvöru úr þeim hótunum, þá gæti svo farið að við stæðum uppi án þess að vera í NATO og áfram með bretana á okkar miðum og þeirra herskip. Þetta verðum við að meta mjög kaldrifjað og af fullri skynsemi og raunsæi. Og við megum undir engum kringumstæðum missa sjónar á aðalatriði þessa máls, þ.e.a.s. að við erum að reyna að tryggja okkur yfirráð yfir 200 mílunum. Við erum að reyna að vernda fiskstofnana vegna framtíðarinnar. Þess vegna má ekki blanda saman þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og þeirri deilu sem við eigum í við breta um þessar mundir.