26.02.1976
Sameinað þing: 57. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2204 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

135. mál, fiskileit og tilraunaveiðar

Flm. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um fiskileit og tilraunaveiðar á þskj. 295, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hún beiti sér fyrir því að skipulögð leit verði gerð að kolmanna og spærlingi á þessu ári. Veiðiskip verði tekið á leigu í þessu skyni og hefji það jafnframt tilraunaveiðar. Enn fremur verði hert á leit og tilraunaveiðum á loðnu síðari hluta sumars og næsta haust.“

Miklar umr. hafa farið fram um það undanfarið, hver afrakstur íslenskra fiskistofna og annarra sjávardýra hér við landið er, hvaða fisktegundir eru fullnýttar eða ofveiddar svo og hvaða fisktegundir það eru sem ekki eru fullnýttar. Þær fisktegundir, sem eru fullnýttar eða ofveiddar, eru fyrst og fremst þorskurinn, ýsan, ufsi, langa, keila, steinbítur, lúða, grálúða, skarkoli og síldin, enn fremur humar og rækja á grunnmiðum og hörpudiskur og e.t.v. karfi eða einhverjar tegundir af karfa, en það eru fleiri en ein tegund, eins og kunnugt er, sem hafa verið veiddar.

Þær fisktegundir, sem hins vegar eru ekki fullnýttar, eru loðna, spærlingur, kolmunni, úthafsrækja — og kem ég nánar að því siðar — og svo nokkrir djúpfiskar, eins og t.d. langhali, snarpalanghali, og það mætti nefna sandsíli einnig í þessu sambandi.

Það er ástæða til að geta þess að Rannsóknaráð ríkisins hefur beitt sér fyrir athugun á stöðu íslensks sjávarútvegs og fiskiðnaðar og spáð um þau efni fram til ársins 1980. Sérstakur starfshópur vann að skýrslu um þessi málefni sem nú hefur komið út, eins og kunnugt er, og heitir Þróun sjávarútvegs, yfirlit yfir stöðu íslensks sjávarútvegs og fiskiðnaðar og spá um þróun fram til 1980. Í inngangi þessarar skýrslu kemur fram að íslendingar hafa varið 0.35–0.50% af brúttóþjóðarframleiðslu á ári hverju til rannsókna og tækniþróunarmála. En hjá flestum öðrum þjóðum, sem búa í nágrenni við okkur og við keppum við um markaði, framleiðslu og almenn lífskjör, er þessi tala um 1–11/2% og jafnvel upp í 21/2 % af þjóðarframleiðslunni. Þetta er vissulega íhugunarefni fyrir Alþ. þegar það í framtíðinni markar stefnu í þessum efnum.

Það er réttilega bent á það í þessari skýrslu að íslendingar hafa lítið á Íslandsmið sem ein fengsælustu fiskimið heimsins, og það hefur að sjálfsögðu mótað viðhorf okkar til sjávarútvegsins fram til þessa dags. Nú hafa menn hins vegar gert sér það ljóst, og er það vonum seinna, að flestar helstu fisktegundir, sem íslendingarbyggja sinn sjávarútveg á, eru ofveiddar í verulegum mæli. Það eru aðeins örfáar, eins og ég nefndi hér áður, sem ekki eru taldar fullnýttar. Við erum því staddir á tímamótum í þessum efnum. Við höfum skyndilega gert okkur glögga grein fyrir því að við stöndum andspænis nýjum viðhorfum í þessum málum, — viðhorfum sem krefjast nýrra úrræða og aðferða í okkar sjávarútvegsmálum.

Það er skylt að geta þess að þegar á árinu 1972 mun Hafrannsóknastofnunin hafa sent sjútvrn. viðvörun um ástand íslenskra fiskstofna. Þegar þetta var upplýst vakti það mikla athygli vegna þess að svo virðist sem þessari aðvörun hafi ekki verið verulega sinnt, og væri ástæða til fyrir þá, sem hana fengu, að gera þjóðinni grein fyrir því af hverju þessari aðvörun virðist hafa verið stungið undir stól að verulegu leyti og henni ekki sinnt. Ég sé að hv. 2. þm. Austurl. er ekki hér í salnum, en hann var sjútvrh. á þessum tíma, og ég hefði áhuga á því að heyra hann skýra frá því hvaða afdrif þetta mál fékk á sínum tíma, hvort t.d. málið var tekið upp í ríkisstj. þá og hvort það var rætt, hvort þetta mál var tekið inn í viðræður við útlendinga á árunum 1973 og 1974 um heimildir þeim til handa til fiskveiða í íslenskri fiskveiðilögsögu o.s.frv. Ég er ekki nægilega kunnugur þessu til þess að geta um það sagt, en hefði hins vegar áhuga á því að vita nánar um það.

Forseti Íslands, dr. Kristján Eldjárn, vék að fiskveiðimálum í nýársboðskap sínum til þjóðarinnar á nýársdag. Hann minnti á það m.a., að í Aldamótaljóðum Hannesar Hafsteins segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Auðlindarsjávar ótæmandi bruna.“ Og hann ræddi talsvert um þetta mál í sínum boðskap og komst svo að orði m.a , að það hefði fyrst verið komið fram undir aldarkvöld þegar íslendingar sáu nakinn sannleikann í þessu efni og gerðu sér ljóst að það yrði að snúast við þessum háska með snarræði og einurð ef ekki ætti allt að verða um seinan.

Það þarf í sjálfu sér ekki að lá neinum sem ekki sá það fyrir um aldamótin að ástand fiskstofna hér á Íslandsmiðum yrði með þeim hætti sem nú er raunin á. En hins vegar er ástæða til að finna að því hve seint menn tóku við sér í þessum efnum hér á landi og alveg sérstök ástæða til þess að gera að umræðuefni þá viðvörun sem ég minntist á áðan frá Hafrannsóknastofnuninni til sjútvrn. á árinu 1972, hvaða viðtökur hún fékk og hvaða meðferð hún fékk, því að það er fyrsta aðvörunin sem ég veit um varðandi þorskstofninn alveg sérstaklega sem var geysilega alvarleg, þar sem ráðlagt var að minnka sóknina í þorskstofninn um allt að helming í þeirri viðvörun.

Þá vildi ég víkja nokkru nánar sérstaklega að loðnunni.

Fyrir nokkrum áratugum, allt frá 1920, var loðna nýtt til beitu á vertíðum á Hornafirði. Löngu síðar eða eftir miðjan fjórða áratuginn var almennt farið að nota hana til beitu á Suðurnesjum. Í raun og veru voru loðnuveiðar fyrst og fremst takmarkaðar við beituþarfir línubáta allt fram til ársins 1964. En árið 1965 verða straumhvörf í þessum efnum því að loðna er þá veidd í fyrsta sinn í stórum stíl til bræðslu. Það ár munu hafa verið veiddar tæpar 50 þús. lestir af loðnu. Næstu árin var loðnuaflinn um 100 þús. tonn á hverju ári. Fyrstu árin var veiðitímabilið frá því um miðjan febr. til marsloka og veiðisvæðið algerlega takmarkað við suðaustur- og suðurströndina og svo vesturströndina. Það var raunar ekki fyrr en skipulögð loðnuleit hófst sem veiðarnar jukust til mikilla muna. S.l. þrjú ár hefur loðnuaflinn verið um 450 þús. smálestir á ári. Veiðitímabilið hefur verið frá jan. og fram í seinni part aprílmánaðar. Það hefur því lengst verulega frá byrjunarárunum.

Það er talið að loðnustofninn þoli a.m.k. 600–800 þús. tonna afla á ári, þannig að langt er í land að stofninn sé fullnýttur, sem betur fer. Á Alþ. árið 1968–69 flutti ég till. til þál. um rannsóknir á loðnugöngum sem fjallaði einfaldlega um það að Alþ. ályktaði að láta rannsaka og fylgjast með loðnugöngum að landinu og með ströndum fram. Núv. hæstv. menntmrh. flutti viðbótartill. við þessa till. mína á þá leið að ríkisstj. væri heimilt að leigja á því ári skip til rannsókna, leitar og tilraunastarfa í allt að 6 mánuði til viðbótar þeirri fiskileit sem þegar hefði verið veitt fé til. Ýmsir þm. fleiri fluttu svipuð mál á þessum árum. En þessi þáltill. var samþ. á sínum tíma og af þessu má raunar sjá hversu afar stutt er síðan íslendingar gerðu sér grein fyrir því að nauðsynlegt væri að halda uppi öflugu rannsóknastarfi og skipulagðri leit að þessum fiskstofnum og fylgja fiskgöngunum eftir í þeim tilgangi að auðvelda auknar veiðar. Það var raunverulega ekki fyrr en 1960 að hafist var handa um skipulegar heildarrannsóknir á íslensku loðnunni, en menn höfðu áður verið uppteknir við síldina sem eðlilegt var.

Til þessa hafa loðnuveiðar eingöngu verið stundaðar á tímabilinu jan. til apríl eða skömmu fyrir og um sjálfan hrygningartímann. Seinustu þrjú árin hefur aflinn verið um það bil 450 þús. tonn á ári, eins og ég gat um áður, og takmarkast fyrst og fremst af afkastagetu síldarverksmiðjanna, auk þess sem veður og veðurfar hefur nokkur áhrif á aflabrögð. Frá árinu 1969 hefur verið fylgst með göngum og hegðun loðnunnar frá því í ársbyrjun og þar til vertíð lýkur. Rannsókna- og leitarskip hafa leiðbeint fiskiflotanum um göngur loðnunnar og ný veiðisvæði. Sú upplýsingamiðlun, sem rannsókna- og leitarskipin hafa veitt, er ómetanleg fyrir veiðiflotann og raunar fyrir efnahagslíf þjóðarinnar, auk þess sem hún hefur þýðingu við rannsókn á líffræði loðnunnar. Og það er ástæða til þess að veita þessari starfsemi fulla viðurkenningu, og má rannar segja að hún hafi þegar hlotið fulla viðurkenningu almennings. Hins vegar má alltaf gera betur og eflaust ástæða til þess að efla loðnuleit og enn fremur aðstöðu til þess að fylgjast með loðnugöngunum á sjálfri vertíðinni.

Eins og kunnugt er nær loðnan ekki háum aldri, yfirleitt ekki meira en sem svarar 3–4 árum. Með hliðsjón af þessu og svo hinn, að miklar sveiflur eru í stærð einstakra árganga, er ákaflega nauðsynlegt að fylgja eftir öflugu rannsóknarstarfi á ungloðnunni og loðnugöngunum til þess að menn geti gert sér sem gleggsta grein fyrir því hvers er að vænta um stofnstærðir og mögulegar veiðar á næstu árum.

Hafrannsóknastofnunin gerir árlega sérstaka áætlun um notkun skipa stofnunarinnar. Ég hygg að um þessar mundir séu tvö skip í loðnurannsóknum og loðnuleit, þ.e.a.s. Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson. Þau svæði, sem lögð er áhersla á, eru fyrst og fremst loðnuleitin, möguleikar til veiða og merkingar á loðnu við Norðausturlandið og þar norður og austur af landinu, þá veiðimöguleikar við austur- og suðausturmiðin. Síðan er leitað að loðnu við Suður-og Suðausturlandið og jafnframt athugaðar hrygningar. Þegar kemur fram í marsmánuð snúa rannsóknaskipin sér að rannsóknum á magni og útbreiðslu á ungloðnu við Vesturlandið og á Austurdjúpinu. Í jan. og febr. mun einnig vera leitað á Vestfjarðamiðum. Þegar svo kemur lengra fram á er einnig leitað út af Vestfjörðum og á Breiðafirði og Faxaflóa. Á sumrin og alveg fram á haust er loðna rannsökuð á djúpmiðum norðanlands og norðvestanlands. Það hefur oft fundist mikið loðnumagn út af Strandagrunni, við Kolbeinsey, norður af Melrakkasléttu og jafnvel austur að Jan Mayen, og stundum gengur loðna vestur fyrir Vestfirði á sumrin. Síðan mun vera gert ráð fyrir loðnuleit fyrir veiðiflota á djúpmiðunum norðan- og norðvestanlands. Hygg ég að meiningin sé að bæði Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson verði í þessum rannsóknum og loðnuleit á komandi sumri.

Þessi þáltill. gerir ráð fyrir því að tekið verði á leigu veiðiskip til leitar og tilraunaveiða. Á ég þar alveg sérstaklega við það að unnt verði að fá úrvalsskip og áhöfn til þess að taka að sér þetta verkefni. Það mætti nefna einstök skip, eins og t.d. Eldborgu, Sigurð, Börk og efalaust fleiri, en ég nefni þessi aðeins sem dæmi. Ég held að það sé fullkomlega tímabært að gera alvarlega tilrann til þess að fá úrvalsveiðiskip til þessara tilraunaveiða til að ganga úr skugga um hvort ekki sé virkilega mögulegt að tengja úthaldstímann á loðnuveiðum síðari hluta sumars og fram á haustið án þess að nokkur hætta sé á því að loðnustofninn verði ofnýttur. Raunar þyrftu fleiri skip að koma til við slíkar veiðitilraunir.

Um kostnað af þessum tilraunum er það að segja, að m.a. þyrfti að setja lágmarkstryggingu fyrir tilraunaveiðiskipin. Færi þá kostnaðurinn eftir því hve mikið fiskaðist. Rannar væri ástæða til sérstakrar fjáröflunar — ja, ég vil segja bæði til eflingar landhelgisgæslunnar, eins konar landhelgisskatts á þjóðina eins og nú er ástatt, og einnig raunar til að standa straum af kostnaði við tilraunaveiðar, því að hér er verið að renna fleiri stoðum undir efnahag þjóðarinnar. Og þetta mál er allt saman í raun og veru sama málið, ef svo mætti að orði komast, því að hér er um að ræða að vernda fiskstofna og viðhalda þeim og jafnframt að gera okkur íslendingum sjálfum kleift að stjórna veiðum hér við landið.

Þáltill. gerir ráð fyrir aukinni starfsemi á þessum vettvangi til viðbótar við þá talsverðu starfsemi sem nú fer fram á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Er raunar sérstök áhersla lögð á veiðitilraunir. Fiskifræðingar telja mjög æskilegt að halda áfram leit eftir að vertíð er lokið. Það mun vera tveggja til þriggja ára loðna sem fylgir hinni eldri eða þriggja til fjögurra ára loðnunni eftir í kraftgöngunum upp að landinu. Ungloðnan verður svo eftir út af Norðaustur- og Austurlandi og fer að síga norður á bóginn aftur í aprílmánuði. Hana þarf að elta og athuga hvernig hún hagar sér og gera veiðitilraunir. Það hefur verið reynt að veiða loðnu norður- og norðvestur af landinu á sumrin.

Næst vildi ég víkja að kolmunnanum. Í grg. fyrir þáltill. segir svo um kolmunnann: „Kolmunninn er þorskfiskur á stærð við síld og einn stærsti fiskstofn í Norður-Atlantshafi. Hrygningarstöðvar kolmunnans eru einkum við djúpkantinn vestur af Íslands- og Skotlandsströndum. Þó er talið hugsanlegt að hluti stofnsins hrygni nær Íslandi og þá sennilega út af suðaustur- og suðurströndinni. Veiðar þessa fisks hafa farið vaxandi á seinni árum og er þegar hafin vélflökun á kolmunna og framleiddur úr honum frystur marningur. Íslendingar hafa veitt svolítinn kolmunna, en alls ekki leitað nægilega að honum né gert nægar tilraunir til veiða. Talið er líklegt að bjóða megi stofninum hér í grennd við landið a.m.k. 100 þús. tonna veiðar á ári. Þó vita menn hvergi nærri nóg um þennan fisk. Svo er raunar um fleiri fiska.“

Kolmunninn mun sennilega halda sig meira í hlýjum sjó. Þó varð vart við geysilega mikið magn af kolmunna á venjulegum síldarmiðum við Austurland seinni hluta sumars 1960.

Gunnar Hermannsson skipstjóri á Eldborgu, þjóðkunnur afla- og dugnaðarmaður, skrifaði grein í tímarit Fiskifélags Íslands. Legi, 1973 um tilraunaveiðar Eldborgar árið 1972. Þar segir á einum stað, með leyfi hæstv. forseta:

„Mergð kolmunnans í hafinu milli Íslands og Noregs er flestum hlutaðeigandi kunn, enda setti hann a.m.k. einu sinni endahnút á síldarvertíð alllöngu áður en henni hefði að öllu jöfnu verið lokið. Þá var oft að sumarlagi vandratað milli kolmunna- og síldartorfa austanlands, jafnvel eftir að leitartækni hafði náð þeirri fullkomnun er siðar varð og alkunna er.

S.l. vor tilkynntu norðmenn, að þeir hefðu fundið 10 millj. lesta af hrygnandi kolmunna á tiltölulega takmörkuðu svæði skammt norðvestan Bretlandseyja, og ályktuðu að nokkurn afla hlyti að mega fá úr slíkum fiskstofni. Ekki þótti íslendingum stofnstærðin tiltökumál og miðuðu þá við fyrri reynslu sina í Noregshafi sem þegar hefur verið drepið á. Hins vegar voru íslendingar almennt sammála norðmönnum í því að álitlegt væri að reyna kolmunnaveiðar og þar með nýtingu nýs fiskstofns.“

Þetta sagði Gunnar Hermannsson í sinni Ægisgrein.

Jakob Jakobsson fiskifræðingur skrifaði grein um bræðslufiska í Ægi 1969 og segir þar að kolmunninn hafi stundum leitað inn að kjarna hins kalda Austur-Íslandsstraums á hafsvæðinu milli Íslands og Jan Mayen. Síðan 1960 hefur hans svo orðið vart í mismunandi magni austur og norðaustur af landinu. Það verður að segja það eins og er, að þrátt fyrir mikið magn, einkum á djúpmiðum austanlands, hefur orðið heldur lítill árangur leitar og veiðitilrauna fram að þessu. Í júlímánuði sumarið 1975 kom í ljós talsvert magn af kolmunna á tiltölulega gruntau vatni, t.d. út af Héraðsflóa og raunar víðar við Austfirði. Vegna veðurs var erfitt að athuga þetta mjög náið eða gera miklar veiðitilraunir. Þó var ljóst að unnt reyndist að veiða 10 tonn af kolmunna í 15 mínútna tilraunatogi á því sumri.

Sveinn Sveinbjörnsson fiskifræðingur segir í bók Þjóðhagsstofnunarinnar, Þjóðarbúskapnum, að hrygningartíminn vestan og norðvestan Bretlandseyja sé í mars- og maímánuði og hrygni kolmunninn þar á 400–500 m dýpi. Norðmenn, færeyingar, bretar og rússar hafa rekið þar tilraunaveiðar um 2–3 ára skeið með flotvörpu og með talsverðum árangri. Sveinn Sveinbjörnsson telur ekki útilokað, að kolmunni hrygni við suðurströnd Íslands, og mögulegt að allstór stofn hrygni við landgrunnsbrúnina suðaustanlands. Þá vita menn að rússar veiddu verulegt magn í flotvörpu í utanverðu Reyðarfjarðar- og Norðfjarðardýpi á árunum 1970 og 1971. Eldborgin fékk röskar 600 lestir af kolmunna í nót á þessum slóðum í júnímánuði 1972 og meðalafli í kasti var þá um 20 lestir.

Mér er kunnugt um að í ráði er að Árni Friðriksson verði sendur til kolmunnaleitar og veiðitilrauna á austur- og suðausturmið í maí og júnímánuði n.k. Gunnar Hermannsson skipstjóri segir í áður tilvitnaðri grein í Ægi 1973 um tilrannaveiðar Eldborgar, með leyfi hæstv. forseta, svo hljóðandi:

„Til þess að marktækur árangur náist, hvort heldur jákvæður eða neikvæður, þarf þó meira til en 1–2 veiðirannsóknaskip í 3 víkur eða mánuð af og til. Það er áreiðanlega engin ástæða til að gefast upp að svo stöddu, enda mættu menn hafa í huga að markaðsmál geta breyst til hins betra með litlum fyrirvara. Ef almenn neysla kolmunna ykist skyndilega yrði sannarlega annað uppi á teningnum með verðlag afurðanna og 600–1000 tonna mánaðarafli varla lítinn hornauga. Þá er enn fremur ósvarað þeirri spurningu, hvort kolmunninn er veiðanlegur í júlí og ágúst eða á þeim tíma sem hann var að eyðileggja veiðarfærin fyrir okkur hér á árunum, eins og drepið var á í upphafi.“

Þetta segir Gunnar Hermannsson, sem hefur manna mest fengist við tilraunaveiðar á kolmunna hér við landið.

Hafrannsóknastofnunin mun, eins og áður segir, ætla Árna Friðrikssyni að stunda kolmunnaleit og veiðitilraunir á austur- og suðausturmiðum í mánaðartíma í maí og júní þessa árs.

Efni þáltill. minnar er m.a. að veiðiskip verði tekið á leigu til að leita að kolmunna og hefja tilrannaveiðar. Mér er það vel ljóst, enda í samræmi við niðurstöður Gunnars Hermannssonar skipstjóra, að það þyrfti meira en eitt skip til viðbótar til að leita að og gera tilrannaveiðar á kolmunna. Ég vil leyfa mér að vekja athygli þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, á þessu og jafnframt er e.t.v. ástæða til þess að á hennar vegum fari fram athugun á því hvort ekki sé unnt að gera meira en gert er ráð fyrir í þessari þáltill. En það hafsvæði, sem kolmunninn gengur á, er gífurlega viðáttumikið og miklu víðáttumeira en svo að eitt veiðiskip geti komist yfir það með sínar tilraunaveiðar. Þeirri hugmynd hefur verið skotið að mér af manni, sem hefur tekið þátt í ýmsum veiðitilraunum og fiskileit á undanförnum árum, hvort ekki væri hægt að koma við leit að kolmunna úr þyrlu og haga því þannig að renna niður fiskleitartæki og komast á þann hátt yfir miklu stærra svæði heldur en nokkur fiskiskip geta og hreyfa sig til eða hoppa á milli svæða eftir því sem fréttir kunna að berast um möguleika á að finna kolmunna. En eitt er vist, að við fáum sjálfsagt aldrei fulla vitneskju um göngur kolmunnans öðruvísi en að leggja í það talsverða vinnu og fé. Ég skal þó ekki dæma um hvort það er raunhæf hugmynd að leita í þyrlu, en hún er kannske þess verð að kanna hana.

Ég hef átt nokkrar viðræður við Björn Dagbjartsson forstjóra Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins um hagnýtingu kolmunna og spærlings. Sennilega mundi kolmunni, ef hann veiddist í stórum stíl, fara að mestu í mjölvinnslu. Hann er talinn betri til bræðslu en loðna seinni hluta vertíðar. Þá er vitað um a.m.k. framleiðanda í í Noregi sem vélflaka kolmunna og framleiðir úr honum frystan varning. Vélasamstæða til flökunar kom hingað til lands í septembermánuði s.l. til tilrannavinnslu, en Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Meitillinn hf. í Þorlákshöfn stóðu saman að tilraunum með vinnslu á kolmunna til manneldis. Vélasamstæðan var sett niður í Þorlákshöfn hjá Meitlinum hf., en hún hausar og slógdregur, og þá tekur hún innan úr og getur einnig flakað kolmunna. Vélavinnsla kolmunnans gekk nokkuð vel og betri nýting náðist en bæði bretar og norðmenn hafa fengið. Vélin er það fljótvirk að hún getur unnið úr 12–15 tonnum af hráefni á dag, en það samsvarar um 5–6 tonnum af marningi.

Kolmunnamarningur er talinn standa ufsamarningi á sporði að gæðum til, en þorsk- og ýsumarningur er auðvitað miklu betri vara og verð á honum tekur líklega á 20–25 centum á Bandaríkjamarkaði, en ufsamarningur mun þó ekki vera langt undir 20 centum. Marningur hefur verið frystur og einnig kolmunnaflök, sem afhent hafa verið Sölumiðstöð hraðfrystiiðnaðarins til prófunar og markaðsleitar. Þá hafa verið gerðar tilraunir með að vinna kolmunna sem skreið, og tilraunasending hefur þegar farið til Nígeríu á vegum Samlags skreiðarframleiðenda.

Spærlingurinn, sem er þriðji fiskstofninn, sem minnst er á í þessari þáltill., er eins og kunnugt er lítill fiskur af þorskætt og verður kynþroska tveggja vetra og yfirleitt ekki eldri en þriggja vetra. Þó getur Bjarni Sæmundsson, sem rannsakaði þessa fisktegund, fjögurra vetra spærlings. Jakob Jakobsson fiskifræðingur segir í grein í Ægi frá 1969 um spærlinginn, með leyfi hæstv. forseta „að heimkynni spærlings séu í norðanverðu Atlantshafi, einkum við vesturströnd Bretlandseyja, í Norðursjó og þaðan allt inn í dönsku sundin, við vesturströnd Noregs sunnanverða og svo við Færeyjar og Ísland.“

Gunnar Jónsson fiskifræðingur segir um spærlinginn í Þjóðarbúskapnum, með leyfi hæstv. forseta:

„Mest er af honum hér við land á svæðinu frá Háadjúpi að Eldeyjarbanka.“ Ég held, að Háadjúp sé skammt austan við Vestmannaeyjar. „En hann hefur einnig fundist frá Papagrunni vestur og norður á Strandagrunn. Spærlingsveiðar byrjuðu hér við land 1969 og hefur verið haldið áfram síðan. Aflinn hefur verið sem hér segir: 1969 886 lestir, 1970 2890 lestir, 1971 3030 lestir, 1972 40 þús. lestir, 1973 8464 lestir og 1974 um 10 þús. lestir. Seinni árin hafa verið um 6–9 bátar sem hafa stundað þessar veiðar. Veiðarnar hafa einkum verið stundaðar á tímabilinu frá maí til nóv. í Háadjúpi og á Selvogsbanka og aflinn oft blandaður smáum kolmunna, einkum s.l. sumar.“

Um framtíð spærlingsveiða er erfitt að segja. Meðan spærlingur er aðeins veiddur til bræðslu hlýtur áhugi á veiðum hans að fara mikið eftir mjölverði, og ástand annarra fiskstofna hefur einnig sín áhrif. Líkur eru þó á að spærlingsveiðar eigi eftir að aukast enn til muna á næstu árum. Um stofnstærð er lítið vitað enn sem komið er, en veiðiþol spærlingsstofnsins er til bráðabirgða áætlað 50–100 þús. lestir. Spærlingurinn er fyrst og fremst veiddur í botnvörpu og því hætta á að þorsk- og ýsuseiði kunni að slæðast með. Þess vegna verður að hafa strangt eftirlit með veiðunum ef þær aukast verulega.

Spærlingurinn fer yfirleitt allur í mjölvinnslu. Hins vegar hafa framleiðendur boðið flökunarvélar fyrir spærling, en hann er mjög smár fiskur, stærstur um 20 cm. á lengd. Eins og ég gat um áðan, hafa Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Meitillinn hf. staðið saman að vinnslu á kolmunna til manneldis, en sá fiskur var veiddur skammt suður af Þorlákshöfn. Ísaðan kolmunna má geyma með sæmilegu móti í a.m.k. 6 sólarhringa, en spærlingurinn er orðinn lélegt hráefni eftir 4 sólarhringa. Þá er eflaust erfiðara að vélvinna spærlinginn. Tilraunir, sem hafa verið gerðar með lagmetisvinnslu úr spærlingi, lofa fremur góðu. Þótt talsverðir möguleikar séu á vinnslu afurða til manneldis úr kolmunna og spærlingi verður samanburður á veiðum og vinnslu ekki sambærilegur við verð hráefnis og afurða á okkar helstu nytjafiskum.

Ég minntist áður á það að úthafsrækjan, sem ég nefndi svo, væri ein af þeim fisktegundum sem ekki væri ofveiddar hér við landið. Að vísu er nú talið að úthafsrækjan sé raunar sami stofninn og rækjan sem veiðist á grunnmiðum og mikið er veidd, eins og kunnugt er. En það er ástæða til þess að ætla að það megi veiða talsvert magn af úthafsrækju án þess að ganga á stofninn. Þetta er lítið kannað mál hér við land, en þó er ljóst að ýmsir fiskar nærast á rækjunni, þ. á m. þorskurinn, grálúða og sjálfsagt fleiri fiskar. Helst er álitið að hún mundi veiðast í djúpkantinum við Norður- og Austurland og í Kolluál og eflaust víðar í kringum landið.

Norskt blað, Fiskaren, sem er málgagn norskra fiskimanna og útgerðarmanna, segir 1. des. s.l. frá því, að 65 togarar af ýmsu þjóðerni veiði á árinu 1975 70 þús. tonn af úthafsrækju í djúpkantinum við Grænland. Verðmæti þessa afla er talið nema 850 millj. norskra kr. eða 26 milljörðum 350 millj. ísl. kr. Fiskifræðingar telja þetta fjórum sinnum meira magn en þessi stofn muni þola við Grænland. Í sama blaði frá 6. nóv. 1975 segir frá norskum skuttogara, 148 feta löngum, sem fékk 213 tonn af rækju við Grænland í 61/2 viku veiðiferð. Meðalaflahlutur háseta varð 30–40 þús. n. kr. eða 900–1200 þús. kr. á 11/2 mánuði. Þá hef ég fengið fréttir af því að færeyskur bátur, 34 m langur, — ég veit ekki hvað það er stórt skip, það er kannske 200–250 tonna skip, gæti ég trúað, — hafi á tímabilinu frá 6. jan. til 1. des. 1915 veitt rækju við Grænland fyrir 13 millj. danskra kr. eða nálægt 390 millj. ísl. kr. Íslenskir útgerðarmenn hafa nokkrir mikinn áhuga á þessu máli, og það væri vissulega þess vert, þó að það sé ekki nefnt í þessari þáltill., að það væri gert verulegt átak í því að ganga úr skugga um möguleika á veiðum á úthafsrækju hér við Ísland. Enginn vafi er á því að möguleikar eru á verulegri veiði án þess að ganga um of á sjálfan stofninn.

Það munu vera 100–120 skip sem taka þátt í loðnuveiðum í vetur. Þau hafa að vísu lítið verið úti um þessar mundir, en mér hefur verið sagt þetta. loðnuvertíð lýkur seinast í aprílmánuði. Hugsanlegt væri, ef rannsóknir og kraftmiklar veiðitilraunir gæfu góðan árangur, að hægt væri að beita þessum skipakosti á kolmunna- og spærlingsveiðar á sumrum svo og loðnuveiðar norður af landinu síðari hluta sumars og fram á haust og ljúka svo árinu með sívaxandi síldveiðum við suðurströndina. Eins og komið hefur fram mætti auka loðnuveiðina um 150–350 þús. tonn án þess að ofveiða stofninn. E.t.v. mætti veiða 100 þús. tonn af kolmunna á ári. Meiri þekking á þessum stærsta fiskstofni í Norður-Atlantshafi kynni að leiða í ljós að óhætt væri að veiða miklu meira af þessum fiski án þess að ofveiða stofninn. Þá mætti auka spærlingsveiðar um 40–90 þú s. tonn á ári. Hér virðist því vera möguleikar á að veiða allt að 540 þús. tonnum af loðnu, kolmunna og spærlingi án þess að ofveiða stofnana og e.t.v. mætti veiða meira magn án þess að skaði yrði af.

Sú hugsun, sem raunverulega býr að baki flutningi þessarar þáltill., er að vinna að því að skapa skilyrði fyrir hluta af okkar skipastóli til veiða allt árið um kring. Ég hef áður vikið að úthafsrækjunni og þeim möguleikum sem kunna að vera til verulegra veiða á henni. Ég er því þeirrar skoðunar að áður en við íslendingar grípum til þess ráðs að leggja hluta af okkar fiskiflota eigum við að grandskoða alla möguleika til veiða á fiskstofnum sem ekki eru ofveiddir, en jafnframt stefna ákveðið að því að tryggja framtíð okkar helstu nytjafiska.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að þessari þáltill. verði vísað til hv. allshn.