26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

168. mál, flugvallagjald

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. varð n. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í n., þeir hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og Lúðvík Jósepsson, leggja til á þskj. 377 að 3. gr. frv. falli niður. Verði sú till. samþ. munu þeir flytja brtt. við aðrar greinar frv. til samræmis við þá afgreiðslu.

Sú 3. gr., sem lagt er til að falli niður, er um flugvallagjald innanlands, þ.e.a.s. fulltrúar stjórnarandstöðunnar í n. leggja til að flugvallagjald í innanlandsflugi verði fellt niður.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að höfuðborg landsins, Reykjavík er sameiginleg þjónustumiðstöð fyrir landið allt. Aðeins þar er hægt að fá ýmsa sérhæfða þjónustu, t.d. í sambandi við heilsugæslu og heilbrigðismál. Þar eru auk þess allar meiri háttar stjórnsýslu-, lána- og fyrirgreiðslustofnanir sem fólk þarf að eiga erindi við, svo og ýmis önnur fyrirtæki sem landsmenn allir þurfa að leita til. Af þessum sökum þarf fólk, sem býr úti á landsbyggðinni, oft að koma til Reykjavíkur til þess að sinna erindum sem hvergi annars staðar er hægt að reka en einmitt þar, Þá er það einnig alkunna að því fjær Reykjavík sem fólk býr, þeim mun meira verður það að notfæra sér þjónustu flugfélaga til og frá Reykjavík. Íbúar nágrannabyggðarlaga Reykjavíkur geta með auðveldum hætti farið landleiðis til þess að sækja sér þjónustu eða fyrirgreiðslu til Reykjavíkur, en hins vegar þurfa þeir, sem lengri leið eiga, yfirleitt að fara flugleiðis. Innheimta flugvallagjalds af farþegum í innanlandsflugi er því í raun og veru samgönguskattur á dreifbýlið því að gjaldið er aukakostnaður fyrir þá sem fjarri Reykjavík búa, en eiga þangað erindi, — aukakostnaður sem íbúar nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur þurfa ekki að greiða í sama skyni. Verkar flugvallargjaldið því sem einn aukakostnaðarliðurinn enn ofan á aðra umframkostnaðarliði íbúa dreifbýlisins, svo sem hærra vöruverð, hærri kyndingarkostnað og annað því um líkt. Þá samrýmist það ekki heldur að leggja slíkan skalt á íbúa mjög fjarri Reykjavík rétt eftir að það hefur gerst að hér á hinu háa Alþ. hafa verið felldar till. um veggjald, annað form samgönguskatts á þá íbúa sem eiga greiðasta akleið til Reykjavíkur og búa hér í grenndinni. Það fer að sjálfsögðu ekki saman að leggja samgönguskatt á íbúa dreifbýlis, sem búa fjarri Reykjavík, með flugvallagjaldi og fella niður samgönguskatt af íbúum t.d. Reykjaneskjördæmis og Suðurlandskjördæmis sem eiga yfirleitt greiða leið til Reykjavíkur, helstu þjónustumiðstöðvar landsins, landleiðis. Því er eðlilegt, að annaðhvort séu bæði ráðin höfð uppi, veggjald og flugvallaskattur, eða hvorugt.

Ég flutti fyrr í vetur á þskj. 40 frv. til l. um breyt. á l. um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum o.s.frv. Það frv. mitt var í því skyni að fella algjörlega niður flugvallaskattinn. Frv. þessu var á sínum tíma vísað til n., en hefur ekki komið þaðan aftur. Að vísu skal viðurkennt að nokkrar bætur hafa orðið í þeim till. sem eru í frv. til l. um flugvallagjald, þar sem flugvallaskatturinn er lækkaður úr 350 kr. niður í 200 kr. En engu að síður er hér enn um óréttláta gjaldtöku að ræða og því er lagt til af fulltrúum stjórnarandstöðunnar í fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. að flugvallaskatturinn á innanlandsflugi verði algjörlega afnuminn.