29.10.1975
Neðri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

2. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Forseti (Ragnhildur Helgadóttir) :

Nú stendur svo á að hv. 1. flm. þessa máls, hv. 9. þm. Reykv., hafði kvatt sér hljóðs, en hann er nú ekki lengur í húsinu, og allir flm. málsins hafa raunar óskað þess að umr. verði nú frestað, og ég sé mér ekki fært annað en verða við því. En vegna atbugasemda, sem fram hafa komið um að til þessa fundar hafi yfirleitt verið stofnað svona snemma á þessu þingi, vil ég taka það fram nú strax að ég hef í hyggju að haga vinnubrögðum svo sem forseti þessarar d. að ef umr. um einhver dagskrármál dragast úr hömlu, þá verði strax snemma á þingi gripið til þess að halda kvöldfundi og ljúka málum svo að þau komist til nefnda. Það hefur mikil gagnrýni verið uppi höfð á störf Alþ. á undanförnum árum að mál séu geymd þar til örskömmu fyrir þinghlé eða þinglok og vilji þá allt fara í hnút um vinnubrögð. Með þessum hætti mun ég reyna að stuðla að því að bæta vinnubrögð Alþ. að við reynum að ljúka málunum og vera við því búin að öðru hvoru verði haldnir kvöldfundir til að ljúka umr. sem dregst úr hömlu. Ég leyfi mér að vænta þess að hv. þdm. sýni þeirri viðleitni skilning og býst við góðu samstarfi af þeirra hálfu.