26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2230 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu alveg rétt hjá hæstv. ráðh., sem talaði hér áðan, að þær ráðstafanir, sem hér er verið að fjalla um, eru gerðar í því skyni að reyna að jafna aðstöðu manna. Það er einnig að mínu viti alveg rétt ábending hjá honum, að þessar aðgerðir nægja hvergi nærri til þess að jafna þann mikla aðstöðumun sem er milli þeirra annars vegar sem búa hér á Reykjavíkursvæðinu og njóta hitaveitu, og hinna hins vegar, sem búa utan þess svæðis og þurfa að notast við olíukyndingu. Þá finnst mér það líka í þriðja lagi rétt, sem bent hefur verið á hér, að að undanförnu, bæði með þessari breyt. og breyt., sem gerð hefur verið áður, hefur verið að draga úr þessari jöfnun smátt og smátt, þannig að hækkun olíuverðs hefur ekki verið fylgt eftir með hækkun olíustyrks og auknum jöfnuði.

En það er ekki aðeins það sem deilt er um. Það er einnig mjög veruleg óánægja með hvernig reglurnar um greiðslu niðurgreiðslnanna eru. Þar er t.d. lítið sem ekkert tillit tekið til raunverulegs kyndingarkostnaðar sem getur verið mismunandi ekki aðeins eftir stærð íbúða, heldur einnig eftir aldri íbúða. Því mun þannig vera farið á flestum olíukyndisvæðunum að þar eru hús að meðaltali miklum mun eldri heldur en á hitaveitusvæðunum, sérstaklega í Reykjavík, og þar með dýrari í kyndingu. Sá munur á aðstöðu, sem þarna er, verður til þess að auka enn á misréttið í húshitunarmálum. Þá hefur heldur ekkert tillit verið tekið til fjárhagsaðstæðna fólks í sambandi við niðurgreiðslu á olíu. T.d. er það nokkuð algengt úti á landi að aldrað fólk býr eitt sér í tiltölulega stórum timburhúsum, gömlum húsum, sem er óhemjulega dýrt að kynda. Ég kom inn á eitt slíkt heimili fátækra aldraðra hjóna fyrir nokkrum mánuðum. Þetta voru hjón sem aðeins höfðu fyrir sig að leggja lífeyri frá almannatryggingum og tekjutryggingu og það stóð nokkurn veginn á endum af þeim reikningum, sem þetta aldraða fólk sýndi mér fyrir framfærslukostnað sinn, að helmingurinn af tekjum þess fór í það eitt að greiða olíukostnað vegna upphitunar íbúðarhúsnæðis. Og það segir sig auðvitað sjálft hversu gífurleg áhrif þetta hlýtur að hafa á aðstæður fólks, hversu mikil áhrif þetta hlýtur að hafa á þá ákvörðun sem fólk tekur um það hvar það vill vera búselt á landinu. Þetta aldraða fólk, sem vildi eyða sínum síðustu ævidögum í sínum gamla heimabæ, talaði um það í fullri alvöru að það væri nauðbeygt til þess að selja ofan af sér húsið, segja skilið við börn sín og barnabörn og reyna að koma sér fyrir á elliheimili eða gamalmennahæli hér í Reykjavík, einfaldlega vegna þess að það hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að framfleyta sér þar eð helmingurinn af tekjum þess færi í það eitt að halda á sér hita.

Þá er einnig ljóst að þær ráðstafanir, sem gerðar eru með þessu niðurgreiðslukerfi eins og það er framkvæmt, eru til algjörra bráðabirgða og voru frá upphafi hugsaðar sem bráðabirgðaráðstafanir. Hins vegar eru þessar bráðabirgðalausnir nú farnar að standa nokkuð lengi. Það er þegar orðið ljóst að olíuverðhækkanirnar miklu, sem orðið hafa undanfarin fá ár, hafa ekki verið verðsveifla sem á eftir að fjara út. Það virðist mega treysta nokkuð örugglega á að það olíuverð, sem nú er á heimsmarkaði, muni haldast nokkuð óbreytt, það muni hækka með auknum hækkunum á öðrum hráefnisvörum. Við verðum því að horfast í augu við það að til nokkuð langrar framtíðar þurfum við að borga það olíuverð sem við greiðum nú, þ.e.a.s. við getum ekki gengið lengur að því gruflandi að bráðabirgðaráðstafanir til þess að leysa þetta vandamál duga ekki.

Hvaða ráð eru það þá, sem til greina koma?

Í fyrsta lagi ber að sjálfsögðu brýna nauðsyn til þess að auka virkjanir og hagnýtingu íslenskra orkulinda, fyrst og fremst jarðhita og einnig raforku að nokkru leyti. Það er alveg hárrétt, sem kom fram hjá hæstv. iðnrh. áðan, að það hefur á örfáum árum, jafnvel örfáum mánuðum, orðið um miklar breytingar að ræða í því hvað talið hefur verið hægt að virkja, hvar á landinu og hvað. Til dæmis að nefna lærði ég og mín kynslóð í skóla að það væri með öllu útilokað að gera sér nokkrar vonir um að það væri hægt að fá heitt vatn til virkjana í nokkrum mæli á Vestfjörðum. Samkvæmt síðustu upplýsingum, sem ég hef, munu vera taldar líkur á því að hægt sé að finna jarðhita í nágrenni allra kaupstaða og kauptúna á Vestfjörðum og möguleikar séu á því að innan fárra ára verði hægt að virkja slíkar orkulindir til húshitunar í öllum kauptúnum og kaupstöðum þar vestra. Þessi tíðindi hafa borist á örfáum undanförnum mánuðum. Að sjálfsögðu ber okkur að leggja áherslu á að leita frekar að slíkum virkjunarsvæðum, hraða rannsóknum og virkjunarframkvæmdum.

Í öðru lagi kemur fyllilega til greina, eins og ég hef raunar áður bent á í sambandi við þetta mál, þegar það var til meðferðar fyrr á Alþ., þú kemur fyllilega til greina að taka upp jöfnuð, hreinan jöfnuð í kyndikostnaði yfir landið allt, þannig að þeim, sem til frambúðar verða að horfast í augu við það að kynda hús sin með olíu og greiða upp í fimmfalt hærra verð fyrir húshitun heldur en þeir íbúar landsins sem njóta jarðvarma, þeim verði bættur sá skaði með því að taka upp jöfnun á kyndikostnaði um land allt. Þetta er alls ekki fráleit lausn. Og ég vil í því sambandi minna á að hér á Alþ. hefur verið samþ. þáltill. um jöfnun flutningsgjalda. Hér hefur verið rætt mjög mikið um jöfnun símagjalda. Allar þessar ráðstafanir eru gerðar í því skyni að það skipti ekki máli fyrir afkomu manna hvar á landinu þeir kjósa að hafa búsetu. Hitunarkostnaðurinn skiptir miklu meira máli fyrir fólk nú orðið heldur en nokkurn tíma flutningskostnaður eða sími. Sé talin ástæða til þess að jafna aðstöðu hvað varðar flutningskostnað og síma, þá er að sjálfsögðu, eins og nú standa sakir, enn meiri ástæða til þess að jafna aðstöðu fólks hvað varðar kyndikostnað.

Í þriðja lagi þurfum við svo að sjálfsögðu að leita nýrra aðferða í sambandi við upphitun húsnæðis. Við þurfum t.d. að athuga mjög vendilega hagkvæmnina við að reisa kyndistöðvar á stöðum þar sem ekki kemur til greina eða ekki þykir líklegt að hægt sé að virkja jarðhita. Mér er kunnugt um að nokkrir útreikningar á slíku hafa verið gerðir fyrir einstaka staði á landinu og þar hefur komið í ljós að þessar kyndistöðvar, jafnvel kyndistöðvar kyntar á stöðum þar sem ekki kemur til greina kvæmari að sögn heldur en kyndistöðvar sem ganga fyrir rafmagni og gætu lækkað kyndikostnað mjög verulega. Þá er mér einnig kunnugt um að fundin hefur verið upp hér á landi ný tegund af miðstöðvarkatli sem hlotið hefur heitið „Nýtill“. Hagkvæmni þessa miðstöðvarketils er nú í athugun hjá iðnrn. og hefur verið þar til athugunar um nokkurt skeið. Þær rannsóknir, sem gerðar voru á þessum katli áður, bentu til þess, að hann mundi geta sparað um 10% í olíu. Þessi nýi ketill, sem íslenskur uppfinningamaður hefur fundið upp, er þannig gerður að hann getur notað jöfnum höndum raforku og olíu. Hann er búinn sjálfvirkum búnaði, þannig að hann getur t.d. notað olíu á daginn þegar álag á rafveitur er mikið, skipt svo með sjálfvirkum hætti yfir á rafhitun á nóttunni þegar álagið á raforkuverum minnkar og mikil umframorka er í framboði, þannig að með þessu móti væri hægt að nýta afgangsorku ýmissa raforkuvera yfir næturtímann til húshitunar með mjög ódýrum hætti. Þær frumathuganir, sem gerðar hafa verið á þessari nýju uppfinningu, benda til þess að það gæti sparað í venjulegu íbúðarhúsnæði milli 4 og 5 þús. kr. í kyndikostnað á mánuði. Það eru svona nýjar aðferðir sem við að sjálfsögðu verðum að gaumgæfa og full ástæða til þess að iðnrn. hraði athugun sinni á hagkvæmni þessarar nýju uppfinningar, en allverulega hefur dregist að þeirri athugun rn. sé lokið. Fyrir liggur einkaleyfisumsókn þess aðila sem hefur þessa uppfinningu með höndum, þar sem hann sækir um einkaleyfi á þessum miðstöðvarkatli. Hann hefur enn fremur lagt fram ákveðnar till. um það, ef niðurstöður iðnrn. á hagkvæmnisathugunum yrðu eins og hans athuganir hafa bent til að yrðu, hvernig hið opinbera gæti þá stuðlað að því að slík tæki gætu komist í notkun á þeim svæðum þar sem fyrirsjáanlegt er að nota verður olíu til frambúðar.

Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta mál. Ég vil aðeins ítreka það, að sá jöfnuður, sem hér er verið að gera till. um, er bráðabirgðaráðstöfun sem búin er að standa of lengi og tímabært er að ljúki þannig að einhver önnur og raunhæfari lausn finnist. Þá vil ég einnig ítreka þá skoðun mína að það sé ekki lengur við það unað að dregið sé eins mikið úr þessum niðurgreiðslum og gert er ráð fyrir í frv. Mun ég því að sjálfsögðu fylgja till. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar. Þá tel ég einnig að till. hv. þm. Karvels Pálmasonar boði ákveðna stefnu í þessum málum, þannig að ég get fyrir mitt leyti greitt atkv. með henni nú eins og ég gerði síðast þegar hún var upp borin, ekki endilega vegna þess að ég sé samþykkur till. í öllum atriðum, heldur vegna hins að með því að greiða henni atkv. vil ég láta í ljós skoðun mína á því hvernig beri að marka stefnu í þessum húshitunar- og orkuvinnslumálum, en ég tel að till. hans sé fyrst og fremst flutt í slíku skyni.