26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2233 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef áður í þessum umr. sagt mest af því sem ég vildi sagt hafa í tengslum við þetta mál. En mér finnst rétt að gera örfáar aths. við það sem fram hefur komið í máli ræðumanna síðan.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hafði mikið að athuga við þetta frv. og sagðist vilja leggja til að söluskattsstigið yrði fellt niður, — það söluskattsstig sem gefur þær 1250 millj. sem notaðar hafa verið og nota skal til þess að jafna olíukostnað landsmanna. Hins vegar gat ég ekki heyrt í hennar máli að hún benti á nokkra aðra leið til þess að afla fjár í þessu skyni. Útkoman hlýtur þá að vera sú, að hún sé á móti þeirri jöfnun sem hefur átt sér stað. Ég hef hér við höndina skýrslu frá Þjóðhagsstofnun þar sem greinilega kemur fram hvílíkur jöfnuður er á ferðinni í þessum efnum ef ekki er greidd niður olían. Þar segir m.a. að kostnaður við að hita upp einn rúmmetra af vatni sé í hitaveitum 84.62 kr., með rafmagni 151.94 kr., en með olíu á verðinu 25.40 kr. 304 kr. rúmlega. Þetta segir það, að þeir, sem njóta þess að hafa hitaveitu, þurfa að greiða fyrir rúmmetran 84.60 kr., en hinir 304 kr. Hlutfallið þarna á milli er 3.6 — þrisvar komma sex sinnum dýrara að kynda þennan rúmmetra upp með olíu heldur en að fá hann úr hitaveitu. Þetta er jöfnuðurinn, og virtist mér koma greinilega fram í máli hv. 5. þm. Reykv., Ragnhildar Helgadóttur, að svona vildi hún hafa það. Ég get ekki skilið slíkt hugarfar eða málflutning sem veitist þannig að tilraunum til þess að leitast við að jafna olíukostnaðinn að nokkru.

Annað atriði, sem þessi hv. þm. hafði við frv. að athuga, sú aðferð sem notuð hefur verið til þess að greiða olíuna niður. Á sínum tíma, þegar þetta frv. kom fyrst fram, komu fram ýmsar hugmyndir um hvaða aðferð ætti að nota til þess að koma þessum fjárhagsstuðningi á framfæri. Það voru hugmyndir m.a. um að greiða olíuna beint niður. Ef það er gert, að greiða olíuna beint niður, þá er kostnaðurinn við þá niðurgreiðslu notaður í annað en það sem hún átti að fara í upphaflega, þ.e.a.s. að lækka kyndingarkostnað hjá fólki, því að olía er notuð til margs annars en að kynda hús einstaklinga.

Hv. þm. hafði einnig mikið við það að athuga að fólk fengi meira eftir sem fleira væri í heimili. Ég skal að vísu viðurkenna að það eru ýmsir gallar við þessa aðferð. En sú aðferð, sem hún bendir á, er síður en svo betri að mínu mati. Ætli það sé ekki svo, að þeir, sem hafa flest börnin á framfæri sínu og stærstu fjölskylduna, eigi að jafnaði minnst eftir til þess að bera hinn gífurlega þunga skatt sem felst í því að kynda með svo dýrri olíu.

Allt það tal hjá hv. þm., sem kom þar á eftir um Hitaveitu Reykjavíkur, skal ég alveg leiða hjá mér. En ég hef ekki orðið þess var hingað til að hún þurfi að reka sitt fyrirtæki með stórkostlegu tapi, enda kom fram í ágætri ræðu hæstv. viðskrh. að fjárhagsstaða þess fyrirtækis sýnist mér vera miklu betri en nokkurs annars fyrirtækis sem ég þekki til. þar sem eigið fé fyrirtækisins er upp undir 4/5 af því fé sem það hefur á milli handanna.

Mér finnst skylt að taka það fram, að ég var mjög ánægður með að heyra það af vörum hæstv. viðskh. að hann fellst á þá hugmynd sem kemur fram í till. hv. þm. Karvels Pálmasonar, þó að hann hafi ekki beinlínis lýst stuðningi við till. eins og hún er, heldur að þarna sé kannske um heppilega hugmynd að ræða, að leggja nokkurt gjald á hitaveitur til jöfnunar. Hins vegar er ég alveg sammála hæstv. ráðh. í því að annað form þyrfti að vera á slíkri till., hún þyrfti að vera nánar útfærð og það þyrfti að liggja betur fyrir hvernig að þessu skyldi unnið. En ég gat ekki heyrt betur en að hæstv. ráðh. gæti fellt sig við það að jafnað yrði með þessum eða líkum hætti.

Þegar hæstv. ráðh. Gunnar Thoroddsen flutti mál sitt hér sem iðnrh. um þetta orkumál, sem óneitanlega er hér á ferðinni í aðra röndina, voru aðeins 12 þm. hér í salnum og þar af aðeins tveir hv. þm. úr dreifbýlinu sem eru taldir fylgja meiri hl. sem styður ríkisstj. enn sem komið er. Þetta fannst mér bera vott um afar lítinn áhuga þessara hv. dreifbýlisþm. á svo mikilvægu máli sem þetta er fyrir fólkið úti á landi og það fólk yfirleitt sem þarf að kynda með ollu. Þetta er aðeins eitt dæmið um það í viðbót hvaða álit sumir þessara hv. þm., því miður margir úr stjórnarliðinu, — hvaða álit þeir hafa á lýðræði. Þegar fólkið úti um allt land hefur látið í sér heyra í sambandi við mikilvæg mál á hinu háa Alþ. og þau mál sem varða þjóðina mestu, t.d. eins og landhelgismálið o.fl., og samdóma álit allrar þjóðarinnar eða langstærsta hluta þjóðarinnar kemur fram, þá blása þeir hreinlega á það álit. Sýnir það að þeir eru ekki lýðræðissinnar í raun.

Hæstv. ráðh. Gunnar Thoroddsen talaði um, að það væri nauðsynlegt að hraða hitaveituframkvæmdum, og sagði, sem rétt var, að hluti þess fjár, sem tekinn var af þeim peningum sem komu út úr þessu söluskattsstigi, hefur verið notaður til þess að vinna að hví að koma hitaveitum í gang úti um land. Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. í þeim efnum, að það þarf að finna peninga til þess að hraða hitaveituframkvæmdum. Hæstv. ráðh. talaði um það að innan skamms gætu allt að 2/3 hlutar þjóðarinnar notið hítaveitu og áður en mjög langt líður væri hugsanlegt að um 80% þjóðarinnar gætu fengið slíka orku á þann hátt. En hvers eiga þá hinir að gjalda, þessi þriðjungur og síðar fimmtungur, sem aldrei fær hitaveitu? Þeir greiða sinn hluta af þessum söluskatti og þeir fá því miður allt of lítið af honum til baka til útjöfnunar á sínum olíukostnaði.

Ég gat ekki heyrt betur á hæsts-. ráðh. Gunnari Thoroddsen en að hann væri á móti auknum jöfnuði í þessum efnum, því að með þessu frv. eins og það liggur fyrir, svo að ég tali nú ekki um eins og það var áður en það var hækkað í 9500 kr., þá átti að auka ójöfnuðinn með hví að hafa sömu krónutölu, því að allir vita að krónan okkar fer síminnkandi. Það er hins vegar annað mál. Með því að gera þetta eru stöðugt lagðar þyngri byrðar á þá sem hafa þær þyngstar fyrir í þessum málum. Því verður ekki á móti mælt.

Ég er sem sagt sammála hæstv. ráðh. Gunnari Thoroddsen að það beri að hraða þessum framkvæmdum. Hins vegar greinir okkur mjög á um hvaða tekjustofna er hægt að nota. Okkar leið, þeirra sem standa að brtt. á þskj. 380, er leið til jöfnunar, til aukins jafnaðar. Leið hæstv. iðnrh. er ójafnaðarleið.

Hv. þm. Karvel Pálmason nefndi hér tölur um hvað það kostar í peningum að kynda hús með olíu. Það er auðvitað afar misjafnt, fer eftir aldri og gerð og stærð húsa og eftir því hvar þau eru á landinu, eftir veðurfari, en hann nefndi 20–25 þús. kr. á mánuði og það eru þá 240–300 þús. kr. á ári. Það er mikill skattur. Það fer ekkert á milli mála. Þess vegna ber að mínu mati að leita allra úrræða til þess að reyna að jafna þennan mismun. Á sama tíma og fólk borgar, svo að við segjum nú ekki meira en 15 þús. kr. til jafnaðar til þess að kynda hús sin eða íbúðir, þá borga menn með svipaðri tölu milli 3 og 4 þús. á mánuði í hitaveitukostnað í Reykjavík. Þetta er gífurlegt óréttlæti þar sem hér býr mestur hluti þjóðarinnar. Þess vegna finnst mér að hugmyndin, sem felst í till. hv. þm. Karvels Pálmasonar hljóti að vera rétt, að meiri hl. þjóðarinnar, sem býr við lítinn tilkostnað, fái að leggja nokkuð af mörkum til að létta undir með þeim sem búa við mikinn tilkostnað og leggja áreiðanlega hlutfallslega miklu meira til þjóðarbúsins en þeir sem búa á þessu svæði, og verður ekki um deilt, hvað sem hv. þm. úr Reykjavík og þéttbýlinu segja.

Ég vil enn einu sinni, þó að ég hafi gert það tvívegis áðan í mínu fyrra máli, minna hv. þm. dreifbýlisins á að þeir 78 þús. einstaklingar, sem kynda með olíu, greiða í söluskatt, þennan 1% söluskatt, 450 millj. kr. Þeir fá skv. þessu frv. til sín til að borga olíuna 741 millj. kr. Ég vil vekja athygli á að mismunur á þessum tveimur tölum er 291 millj. kr. Hver er olíustyrkurinn þá? Ef við reiknum þetta dæmi svona, þá sjáum við vel að ef við skiptum 291 millj. kr. milli 78 þús. einstaklinga, sem er einfalt deilingardæmi, þá er olíustyrkurinn í rann ekki 9500, þaðan af síður 13500, eins og við leyfum okkur að leggja til. heldur 3730 kr. (Gripið fram í.) Það er öll dýrðin. (Gripið fram í: Á hve löngum tíma?) Á ári. (Gripið fram í.) Upp í þær 250–300 þús. kr. sem kostar að kynda húsið.

Hér eru ekki nein gamanmál á ferðinni. Fólkið úti á landsbyggðinni, sem hefur kosið sína þm., það ekki aðeins skilur þetta, það finnur það og finnur því miður harkalega fyrir þessum skatti. Þess vegna hljóta þessir þm. ef þeir starfa hér skv. samvisku sinni, en ekki handjárnum sinna stjórnarflokka, að geta stutt þær till. sem eru fluttar hér í því skyni að stefna til meiri jafnaðar og sanngirni í þessu máli.