26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs eingöngu til þess að ræða hér brtt. hv. þm. Karvels Pálmasonar á þskj. 381. Ég vil að afstaða mín til þeirrar till. komi hér skýrt fram.

Í till. hans felst það að lagður verði sérstakur skattur á gjaldskrár hitaveitna, þ.e.a.s. sérstakur skattur sem skuli lagður á reykvíkinga og þéttbýlisbúa. Ég hlýt að segja það, að hér er um mjög vanhugsaða till. að ræða og andinn í henni er í algjörri andstöðu við þá yfirlýsingu hv. þm. að hann styðji brtt. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar að lífeyrisþegar skuli fá greiddan tvöfaldan styrk einstaklinga.

Ég hlýt að harma það að þeir þm., sem hér hafa talað og lýst yfir fylgi við báðar þessar till., skuli ekki hugsa rökréttara en þeir gera. Ég vil benda á að verðbólgan, sú mikla dýrtíð sem nú geisar í landinu, bitnar mjög harkalega á lágtekjufólki, lífeyrisþegum og öryrkjum í Reykjavík ekki síður en slíku fólki annars staðar á landinu. Hér er beinlínis verið að leggja til af þeim, sem telja sig jafnaðarmenn, svo að ég noti orð hv. þm. Garðars Sigurðssonar, að á þetta fólk í Reykjavík verði lagður skattur. Margt af þessu fólki býr í eigin íbúðum, líklegast flest af þessu fólki í Reykjavík býr í eigin íbúðum, og hitakostnaður er þessu fólki nú þegar ákaflega þungbær útgjaldaliður. Ég leyfi mér að fullyrða að eins og nú er ástatt í efnahagsmálum, þá mundi þetta fólk ekki risa undir því að sérstakur skattur yrði enn lagður á hitakostnað þess. Við vitum afskaplega vel, að ef slíkar álögur eru einu sinni komnar á, þá verða þær tæplega aftur teknar, og það, sent felst í þessu frv. um olíustyrkinn, er vissulega engin frambúðarlausn. Hér er um ráðstöfun að ræða sem er til komin vegna sérstakra aðstæðna. Það væri ákaflega mikið fljótræði ef hlaupið væri til að leggja 20% aukagjald á gjaldskrá hitaveitu í Reykjavík vegna sérstakra aðstæðna í orkumálum.

Ég vil vara Alþ. alvarlega við því að samþ. þessa till. Ég lýsi mig algjörlega andvíga henni og tel að þeim hv. þm., sem hér hafa talað af skammsýni, væri nær að finna aðra fjáröflunarleið en þá að auka enn skattheimtu á lágtekjufólk, öryrkja og lífeyrisþega í Reykjavík.