26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég á sæti í fjh.- og viðskn., en var því miður ekki viðstaddur þegar þetta mál var afgr. frá n. Ég er samþykkur afgreiðslu málsins og tel að það samkomulag, sem náðist í fjh.- og viðskn. Ed., sé með þeim hætti að það sé rétt að samþ. það. Eigi að síður langar mig til að segja örfá orð almennt um þetta mál vegna þess að hér hafa orðið miklar umr. um málið og komið fram mismunandi sjónarmið. Og vildi ég segja það fyrst, að ég er almennt fylgjandi þeirri stefnu, að verðjafna hitunarkostnað íbúðarhúsnæðis í landinu. Það er auðvitað gjörbreytt viðhorf sem skyndilega varð með olíukreppunni. Það hefur gerst að upphitunarkostnaður íbúðarhúsnæðis í landinu hefur orðið af atvikum, sem enginn getur við gert hér á landi, geysilega ójafn, þannig að þeir sem njóta hitaveitna jarðvarmans fá hitað húsnæði sitt upp með broti af kostnaði þeim sem aðrir verða að standa undir. Hér er því mikið vandamál á ferð. Og ég álít að það sé rétt stefna, sem Alþ. hefur þegar markað og gerði á seinasta þingi og er að staðfesta núna, og ég tel vera fyrsta stigið, ef svo mætti að orði komast, í því efni að koma á verðjöfnun upphitunarkostnaðar húsnæðis.

Það hefur verið upplýst hér hver munur er á í þessum efnum, og hann er hrikalegur í raun og veru. Það fer ekki hjá því, að ef ekkert yrði að gert í þessum málum, þá hlýtur þetta að hafa í för með sér, þegar tímar líða, verulega byggðaröskun í landinu. Menn hljóta að flytjast frá þeim svæðum þar sem menn verða að hita upp híbýli sín með margfalt meiri kostnaði, kannske þrefalt meiri kostnaði eða hver veit hvað. Það kann að vera að þessi munur eigi eftir að aukast enn, olíuverð fari hækkandi, og þetta hlýtur, ef ekki verður neitt að gert, að leiða til þess að menn flytjast yfir á þau svæði landsins, sem fá notið upphitunar með ódýrari hætti. Ég held því að það sé alveg hárrétt stefna hjá Alþ. að stíga fyrsta skrefið í þessum efnum, sem ég vildi kalla að verðjafna hitunarkostnaðinn, eins og gert er með samþ. þessa máls og lýst hefur verið af öðrum.

Við erum í miklum vanda varðandi þessi mál því að þarna togast á tvö sjónarmið. Annars vegar er það sjónarmið að nota það fé, sem fæst inn af einu söluskattsstigi í ríkissjóð, til þess að verðjafna að fullu og hægja þá á framkvæmdum sem miða að því að leggja hitaveitur sem víðast um landið og sem hljóta að minnka þann heildarvanda sem þjóðinni er á höndum varðandi þessi mál. Þeim mun fyrr sem hægt er að koma því við að leggja hitaveitur, þeim mun fyrr minnkar sá heildarmismunur sem er milli þeirra, sem ekki njóta hitaveituupphitunar, og hinna, sem verða að hita upp með olíu.

Hæstv. iðnrh. hefur upplýst að með nýrri tækni kunni að verða mögulegt að hita upp híbýli um 80% þjóðarinnar með jarðvarma, þegar búið er að nýta alla möguleika. Það er hugsanlegt að með aukinni tækni í þessum efnum verði hægt að vinna enn meira á í þessum málum og jafnvel enn fleiri geti, þegar tímar líða, notið upphitunar híbýla með jarðvarmanum. Þess vegna held ég að það sé skynsamlegt sjónarmið, vegna þess að menn hafa úr takmörkuðu fjármagni að spila til framkvæmda og þurfa að skipta því á milli nauðsynlegra framkvæmda í landinu, að nýta nokkuð af því fé, sem inn kemur af þessum tekjustofni, til þess að hraða framkvæmdum við lagningu hitaveitna. Það má sjálfsagt deila um það lengi hvað langt á að ganga í þessu efni, og ég get vel játað að ég vildi ganga lengra í þá áttina að verðjafna meira en gert er samkv. þessu frv., en felli mig við að sættast á þá leið sem hér hefur orðið ofan á. Ég held að það sé tímabært að undirbúa til framtíðar verðjöfnunarstefnu í þessum málum til þess að fólkið, sem býr á þeim svæðum þar sem sennilega verður aldrei kostur á að nýta jarðvarma til upphitunar, sannfærist um að verðjöfnunarstefna í auknum mæli verði tekin upp og sannfærist um að þjóðin telji þýðingarmikið að stuðla að því að þar verði búseta áfram. Það er hægt að nefna heila landsfjórðunga sem þarna koma til greina, eins og t.d. Austurland að nær öllu leyti og að mjög verulegu leyti Vestfirði. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er þjóðhagslega æskilegt að þessir landshlutar verði byggðir áfram og þess vegna þýðingarmikið að stuðla að því að búa fólki viðunandi búsetu í þessum landsfjórðungum og annars staðar þar sem eins stendur á. Það er því þjóðhagslega hagkvæmt að marka verðjöfnunarstefnu í þessum málum.

Það kann að vera að söluskatturinn sé gallaður gjaldstofn í þessu efni vegna þess að allir greiða hann, það væri eðlilegra að þeir, sem njóta ódýrari upphitunar, greiði verðjöfnunargjald. En ég vil leggja á það áherslu í fyrsta lagi að hér er um að ræða fyrsta stig verðjöfnunarstefnu í þessum málum. Næsta stig, sem raunar er unnið að jafnhliða, er að flýta hitaveituframkvæmdum um allt land til þess að minnka þann vanda sem fylgir olíukreppunni, e.t.v. í vaxandi mæli, um það veit raunar enginn. Og síðan í þriðja lagi að menn fari þegar að huga að því að marka framtíðarstefnu í þessum málum.

Ég sé ekki beinlínis ástæðu til þess að fara að rökræða við einstaka hv. þm. um sjónarmið þeirra, en ég get ekki stillt mig um að minnast aðeins á sjónarmið hv. þm. Ellerts B. Schram. Mér finnst það æðimikil þröngsýni að vilja ekki ljá máls á því að verðjafna að hluta til, eins og gert er ráð fyrir hér í þessu frv. og gera þeim, sem olíukreppan leggst þyngst á, léttara að lifa. Ég held að það sé ekki sanngjarnt, enda sem betur fer — (Gripið fram í: Þm. hefur ekki hlustað á ræðu mína.) Jú, ég þóttist skilja þetta þannig að hann væri á móti þessu máli, en var það misskilningur? (Gripið fram í.) Nú, ætlar hv. þm. þá að greiða atkv. með málinu? (Gripið fram í.) Já, annaðhvort er hv. þm. með málinu eða á móti málinu. Og ef hann er á móti málinu, sem mér skilst, og mun greiða atkv. á móti því, þó að hann rökstyðji það þannig að það sé vegna aðferðarinnar, þá vil ég átelja þessa afstöðu því að mér finnst hún fram úr hófi ósanngjörn vegna þess að hér er um að ræða gífurlega mikið vandamál fyrir þá sem olíukreppan skellur á. Það er margt fólk í landinu sem er í miklum vanda statt,vil ég segja, mjög miklum vanda statt. Þess vegna vil ég átelja þá afstöðu að vilja ekki greiða þessu máli atkv. þó að aðferðin kunni að vera eitthvað gölluð að mati hv. þm. Eigi að síður er hér um þó nokkuð verulega verðjöfnun að ræða, og ég ætla að vonast til þess að afgreiðsla þessa máls sé fyrsti liður í almennri verðjöfnunarstefnu í þessum málum. Það er kannske ekki sanngjarnt að ætlast til að það sé hægt að mæta þeirri gífurlegu breytingu, sem orkukreppan hafði í för með sér, á mjög stuttum tíma, menn þurfi dálítinn tíma til þess. En ég ætla að vonast til þess að þetta mál sé fyrsta stigið, fyrsta þrepið, í áttina að fullkominni verðjöfnun í þessum efnum.