01.03.1976
Efri deild: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

180. mál, meðferð opinberra mála

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh. hvað í því felst að hækka úr 3 þús. kr. í 7. þús. kr. sektarheimild lögreglumanna. Ég veit ekki til þess að lögreglumenn geti sektað menn á staðnum, þ.e.a.s. tekið greiðslu á staðnum við brot, umferðarbrot eða önnur, heldur gefa þeir út kvittanir og þessar kvittanir verður að greiða á skrifstofu lögreglustjóra. Ég sé því ekki ástæðu til að gefa lögreglumönnum heimild til að sekta á þann hátt sem ég skil — vonandi misskil það sem stendur í aths. við það frv. sem hér er til umr. Hitt er svo annað mál, að ég er persónulega á móti þessari aðferð. Ég tel að þetta sé sú aðferð sem kannske hvað síst er réttlætanleg. Lögreglustarf hér á Íslandi er komið út í það átakanlega starf annaðhvort að sekta eða setja upp skilti að þetta og hitt sé bannað, að öðrum kosti skuli menn þola fjártjón. Ég held að það sé röng leið.