01.03.1976
Efri deild: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

161. mál, skipan sóknarnefnda og héraðsnefnda

Flm. (Ingiberg J. Hannesson):

Herra forseti. Frv. það til l., sem ég hef lagt hér fram á þskj. 542, um breyt. á l. nr. 26 16. nóv. 1907, um skipan sóknarnefnda o.fl., er flutt vegna þess að ýmissa breytinga er nú þörf á lögum þessum, enda eru þau komin fast að sjötugu. Það má í rauninni segja að aðalhluti laganna sé enn í fullu gildi og muni sennilega verða fyrst um sinn.

Í grg. með frv. þessu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lög um skipun sóknarnefnda eru frá 16. nóv. 1907, og er því augljóst, að sitthvað er þar, sem ekki stenst miðað við aðstæður og þarfir nútímans. Þó má segja að meginhluti laganna þjóni tilgangi sínum enn í dag, en nokkrar greinar nefndra laga þarfnast þó endurskoðunar.

Kirkjuþing hinnar íslensku þjóðkirkju hefur fjallað um þetta mál og er frv. það, sem nú er lagt fram, byggt á samþykkt kirkjuþings árið 1972.

Lagt er til í frv. þessu að eftirtaldar gr. laganna þarfnist endurskoðunar.“

Er þar fyrst og fremst um það að ræða að færa tilhögun og skipan mála í það horf er þjóni þörfum nútímans best og þeirri starfsemi sem um er að ræða og lögin kveða á um.

Eins og hv. þm. mun kunnugt, er starfssvið sóknanefnda fyrst og fremst fólgið í því að hafa umsjón með viðhaldi og rekstri kirkju í viðkomandi sókn, svo og að vera sóknarpresti til trausts og halds í starfi hans meðal safnaðarins, enn fremur að hafa umsjón með fjárhaldi kirkju og kirkjugarða og sjá um að starfslið sé fyrir hendi í kirkjunni, svo sem organisti, meðhjálpari og söngfólk. Þetta starf vinnur sóknarnefndin í samráði við sóknarprest og það starfsfólk annað sem er í tengslum við safnaðarstarfið hverju sinni. Því er mikilvægt að þau lagaákvæði er snerta störf og starfssvið sóknarnefnda svo og starfstíma þeirra, séu í samræmi við þær þarfir sem um er að ræða í þessu sambandi.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að fjórum gr. laganna verði breytt.

1. gr. frv. fjallar um breyt. á 2. gr. l. og er sú breyting aðallega fólgin í því að setja nánari ákvæði um það, hvenær sóknarnefndarfundur sé lögmætur, svo og ákvæði um það, að víðkomandi sóknarprestur og safnaðarfulltrúi skuli starfa með sóknarnefnd og sitja fundi hennar og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Er þarna kveðið nánar á um þetta atriði og lögð aukin áhersla á mikilvægi samstarfs prests og sóknarnefndar og safnaðarfulltrúa, en það er auðvitað afar mikilvægt eigi að vera um að ræða gott og farsælt starf í þágu safnaðarins.

2. gr. frv. fjallar um breyt. á 4. gr. l. Þar er um að ræða nánari viðbótarákvæði um fjölda sóknarnefndarmanna í hverri sókn miðað við íbúatölu. — Er þessi breyting nauðsynleg þar sem sóknir eru nú orðnar miklu fjölmennari en áður var.

3. gr. frv. lýtur að 6. gr. l. og er um styttingu kjörtímabils sóknarnefndarmanna úr 6 árum í 4 ár. Þessi breyting er gerð með hliðsjón af reynslu á öðrum sviðum þjóðfélagsins svo og þeirri staðreynd að 6 ár eru fulllangur tími með tilliti til þess, að starfsáhugi haldist og eðlileg endurnýjun eigi sér stað í n. Enn fremur er í gr. fjallað nánar um það hvernig kosningu í n. skuli hagað, og er ekki ástæða til að fjalla nánar um það, enda er þar um smávægilegar breytingar að ræða frá gildandi lögum.

4. gr. frv. fjallar svo um breytingu á 16. gr. l. og er um kjör safnaðarfulltrúa. Er kjörtímabil þeirra einnig stytt í 4 ár og nánar kveðið á um kjör þeirra og er þar um smávægilegar breytingar að ræða.

Í heild má segja að í frv. þessu sé ekki um að ræða neinar stórbreytingar. Hér er miklu fremur um það að tefla að gera nauðsynlegar breytingar miðað við breytt viðhorf frá því að gildandi lög voru samin. Því virðist mér, að hér geti ekki verið um neina ásteytingarsenu að ræða og legg því frv. fram til 1. umr.

Mörg lög þau og reglugerðir, er kirkjuna varða, eru komin til ára sinna og sum svo að um munar og er þar víða endurskoðunar þörf. N. skipuð af ráðh. hefur undanfarin ár unnið að endurskoðun þeirra og væri gleðilegt ef árangurs þess starfs færi að gæta sem fyrst. Hér er aðeins um að ræða smáræði sem lagfæra þarf, og vænti ég þess að hv. þm. skoði þetta með skilningi og velvilja.

Að svo mæltu legg ég til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og menntmn.