01.03.1976
Efri deild: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2266 í B-deild Alþingistíðinda. (1863)

143. mál, flokkun og mat ullar

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. til l. um flokkun og mat ullar hefur verið til athugunar hjá landbn. þessarar hv. d. og hefur n. orðið sammála um að mæla með því að frv. verði samþ. óbreytt. Ég þarf að sjálfsögðu ekki að hafa mörg orð um afgreiðslu frv. eða efni þess. Hæstv. landbrh. skýrði efni þess gaumgæfilega við 1. umr. málsins og vil ég vísa til þeirrar ræðu um efnisþætti að mestu leyti.

Það eru þó örfá atriði, sem ég vil minna á í þessu sambandi, og þá fyrst það, að landbn. sendi ekki að þessu sinni frv. til umsagnar Búnaðarþings eins og jafnan hefur verið gert um hliðstæð málefni. Er það fyrir þá sök að Búnaðarþing hafði áður fjallað um frv. og vilji þess því kominn fram og vitaður.

Annað vil ég taka fram líka í sambandi við afgreiðslu málsins, að það lá ekki fyrir hver kostnaðarauki yrði af því fyrirkomulagi sem nú er tekið upp við mat ullar frá því sem áður hafði verið, og óskuðum við eftir að fá upplýsingar um það. N. fékk í einu lagi áætlun um árlegan kostnað vegna þeirra tveggja frv. sem hér eru samferða í gegnum d., um ullarmat og gærumat. Það mat, sem fram hefur farið á þessum framleiðsluvörum, hefur verið ákaflega takmarkað og haft lítið gildi, enda kostnaður við það verið sáralítill, eitthvað á annað hundrað þús. kr. á ári. Með þeirri skipan, sem hér er tekin upp, má ætla að kostnaður verði árlega vegna framkvæmdar þessara laga hvorra tveggja um 3.4 millj. kr.

Ég vil taka fram að það fyrirkomulag, sem hér er ætlað að koma á, er mjög í samræmi við það sem gerist við mat á kjötvörum. Þessi kostnaður er sem sagt að mínum dómi hverfandi litill miðað við verðmæti þeirra vöruflokka sem hér er fjallað um, og vænta má að hið nýja mat og matsaðferðir muni stuðla mjög að auknum verðmætum í því sambandi.

Ég vil geta þess t.d. í sambandi við ullina, að árið 1975 var útflutningur ullarvara, bandlopi, teppi og ýmsar prjónavörur, 1 milljarður 361 millj. kr., en óunnin ull er flutt út fyrir 59.6 millj. Það fer ekki á milli mála að ef betur væri vönduð öll meðferð á ullinni, þá mundi einnig þessi óunna ull geta orðið mjög verðmætur efniviður í iðnaðarvörur og aukið útflutningsverðmæti fengist með því móti. Auk þess vil ég minna á það, sem hæstv. landbrh. tók fram við 1. umr. málsins, að nú vantar á að öll ull komi til innleggs, sennilega um 260 tonn, sem vænta má að standi í beinu sambandi við það að ekki fer fram eðlilegt mat á ullinni þegar hún kemur til meðferðar.

Ég tel ekki þörf á því að hafa fleiri orð um þetta frv., en endurtek að n. varð sammála um að mæla með því að frv. verði samþ. óbreytt, en þess ber að geta að Jón Árm. Héðinsson og Axel Jónsson voru fjarverandi þegar málið var afgreitt.