01.03.1976
Efri deild: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

144. mál, flokkun og mat á gærum

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég vil, áður en 2. umr. um þetta mál lýkur í hv. d., fara um það örfáum orðum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, ásamt því frv., sem hv. d. hefur nú fyrir stuttri stundu afgr. til 3. umr., miða bæði að því að setja reglur sem miða að bættri meðferð á hráefni sem okkur öllum er verðmætt. Verðmæti þessa hráefnis liggur ekki hvað síst í því, að úrvinnsla þess hvort sem um er að ræða ull eða skinn, krefst mikillar vinnu og fullunnin verðmæti úr þessum vörum standa yfirleitt í háu verði.

Ullariðnaður okkar er kominn vel á veg og skinnaiðnaður að vísu líka. En þó er það enn svo að ýmsar þær vörur, sem unnar eru úr ull og skinnum, eru fluttar út litt unnar. Mig langar að segja frá því hér, að ég rakst nýlega á auglýsingu um fatnað úr íslenskum gærum í dönsku tímariti, þar sem flíkurnar voru auglýstar með verði, og kom í ljós að verð í Danmörku var um það bil helmingi hærra en verð á sambærilegum flíkum hér ef miðað er við gengi íslensku krónunnar.

Þetta bendir mjög eindregið til þess að ef við gætum framleitt þessar vörur, fullunnið þessar vörur til sölu á erlendum mörkuðum, þá gætum við aukið mjög stórlega gjaldeyrisöflun í sambandi við þessi hráefni. Það bendir líka til þess og minnir á það, að það er mjög nauðsynlegt að gera stórátak til þess að kynna iðnaðarvörur okkar á erlendum mörkuðum. Ef til vill er eitt stærsta vandamálið í sambandi við aukinn iðnað úr innlendu hráefni að vinna þessum vörum markað og finna leiðir til þess að ná þessum mörkuðum erlendis.

Ég gerði það að gamni mínu að slá á það hvað íslensk lambskinn mundu færa okkur mikinn gjaldeyri ef við gætum flutt þau út fullunnin með því verði, sem auglýst var í umræddri auglýsingu, og ef við fengjum helming í okkar hlut af útsöluverði, sem er sennilega nokkuð hátt, af fullunninni vöru og þá mundi það vera einhvers staðar á milli 6 og 8 milljarðar kr. E.t.v. er ekki sérlega skynsamlegt að setja dæmið upp á þennan veg og er það aðeins gert til þess að sýna fram á að jafnvel þótt ekki væri um svona hátt verð að ræða, þá er þarna mjög verðmætt hráefni, sem vissulega væri hægt að skapa mikinn gjaldeyri úr ef fullunnin væru.

Svipaða sögu má segja um ullina. Þó erum við miklu lengra komnir í því að fullvinna ullina heldur en gærurnar og mjög mikill hluti af þeim gærum, sem við seljum úr landi, er ýmist selt óunnið eða hálfunnið og mjög lítið magn selt sem fullunnin vara, þannig að búið sé að breyta hráefninu í fatnað eða aðra þá vöru sem neytendur nota án frekari vinnslu erlendis.

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir þeim undirtektum, sem umrædd frv. hafa fengið í d., og vonast til að verði þau að lögum, þá verði þau til framdráttar fyrir íslenskan landbúnað og íslenskan iðnað.

Eitt vil ég þó enn nefna, áður en ég fer héðan úr ræðustól. og taka undir orð hv. þm. Steingríms Hermannssonar að til þess að nýting ullarinnar megi verða nægilega góð álit ég alveg nauðsynlegt að hækka verð hennar til framleiðenda. Ýmsar breyttar þjóðfélagsástæður valda því að það kostar mikið að ná ullinni af fénu á hinum gamla, hefðbundna rúningstíma, og annað hvort hlýtur að verða, að féð verði vetrarrúið meira en verið hefur eða verðlagsákvæði verði þannig að menn telji svara kostnaði að leggja á sig mikið erfiði til þess að ná ullinni á sæmilega heppilegum tíma að vorinu. Meginhlutinn af þeirri ull, sem nú er flutt óunnin úr landi, er ull sem er orðin svo léleg vegna þess að hún er tekin af fénu á röngum tíma eða hefur ekki hlotið nægilega góða meðferð, að hún er ekki eftirsótt af íslenskum verksmiðjum. Þess vegna er það hvort tveggja í dag, að hluti ullarinnar nýtist alls ekki vegna þess að framleiðendum þykir ekki svara kostnaði að ná henni af fénu á heppilegum tíma og nokkuð af þeirri ull, sem næst, hefur þegar spillst, svo að hún er ekki verðmætt hráefni til þeirrar framleiðslu sem við höfum með höndum hér.

Þetta þarf að breytast og það breytist varla svo að fullnægjandi sé nema á þann hátt, sem hér hefur verið nefndur, að verðhlutföllum verði breytt þannig að ullin verði meiri hluti af heildartekjum af sauðfénu en nú er í dag.