01.03.1976
Neðri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

43. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á lögum nr. 85 frá 1936, um meðferð einkamála í héraði, hefur verið til meðferðar í allshn. Frv. felur í sér þá breyt. að aðalefni til að heimilt sé að nota hljóðritanir við meðferð dómsmála.

Þetta frv. var til meðferðar hér í hv. d. á s.l. vetri, en fékk ekki afgreiðslu. Það kom þá til meðferðar allshn., og voru nokkrar efasemdir þá uppi í n. um það hvort rétt væri að stiga þetta skref. Þar komu m.a. fram þau sjónarmið að ef slík heimild væri fyrir hendi í lögum, þá mundi verða minna úr varðveislu skráðra gagna og sögulegt gildi um gang mála yrði ekki nægilega traust. Þess vegna var þessu frv. á s.l. vetri vísað til aðila eins og Sögufélagsins, þjóðskjalavarðar og Háskólans, en umsagnir frá þessum aðilum bárust ekki, svo að þessir aðilar virðast ekki líta svo á að þetta hafi teljandi áhrif á starfsemi viðkomandi aðila.

Fyrir hendi er nú þegar heimild í lögum til þess að nota segulbönd og hljóðritanir við dómsmál eða á dómþingum, en sú heimild er í lögum um meðferð opinberra mála. Sú heimild hefur verið mjög lítið notuð. Fyrir nokkrum árum, eða nánar til tekið 1972, hófst hljóðritun á dómþingum í Bæjarþingi Reykjavíkur eða Borgardómi Reykjavíkur, en þær hljóðritanir voru notaðar af fáum dómurum og í tiltölulega sérstæðum málum. En af þeirri reynslu, sem fengist hefur við meðferð hljóðritana, þykir nú ástæða til að setja lagaákvæði um þessa aðferð og þá hvernig með skuli farið.

Borgardómarar hafa lagt til að hljóðritanir séu látnar koma að öllu leyti í stað bókana í sumum þinghöldum, en réttarfarsnefnd, sem hefur útbúið þetta frv., hefur talið rétt að stiga þetta skref aðeins skemmra og tekur fram að jafnan skuli færð tiltekin atríði til bókar þegar ástæður þykja til. en þessu megi þó breyta síðar meir.

Enginn vafi er á því að með þessari breytingu má hraða málsmeðferð mjög. Það dregur úr því að mál gangi of seint fyrir sig, sem hefur nú loðað við dómstóla hér á landi þeim til tjóns og réttarörygginu sömuleiðis. það er því án efa til bóta fyrir málsaðila, bæði þá, sem vinna að málum, lögmenn og dómara, svo og aðila mála, að þessi breyting sé gerð, þannig að hraða megi gangi mála. Réttaröryggi ætti að vera hið sama þrátt fyrir breytinguna. Tiltrú almennings ætti að aukast með því að mál gangi hraðar og úrskurður sé kveðinn fyrr upp en nú er raun á.

Þetta er aðalefni frv., og allshn. hefur mælt með því, að frv. verði samþ. Eina breyt. leggur n. til, en hún er sú að við frv. bætist ný gr., svo hljóðandi: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Þetta virðist hafa fallið niður og vill allshn. bæta hér úr. Að öðru leyti er sem sagt lagt til að frv. verði samþ. óbreytt.