01.03.1976
Neðri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi. Samhljóða frv. var lagt fyrir 94. og 96. löggjafarþing, en varð ekki útrætt. Það er undirbúið af n. sem fyrrv. menntmrh. skipaði 29. apríl 1971. Nál. og umsagnir voru prentaðar með frv. við fyrri flutning og eru ekki endurprentaðar hér.

Meginstefna þessa frv. er sú að nemendur, sem lokið hafa skyldunámi, eigi þess kost að afla sér sérmenntunar til undirbúnings fyrir störf í viðskiptalífinu um leið og þeir treysta almennt þekkingargrundvöll sinn, eins og gengur og gerist. Með vísun til ítarlegra athugasemda, sem þessu frv. fylgja, svo og til ræðu, er ég flutti við 1. umr. hér í hv. d. í fyrra og prentuð er í 5. hefti Alþingistíðinda 1974, þá mun ég ekki eyða tíma hv. d. í að rekja einstök efnisatriði málsins að þessu sinni.

Þörf traustrar menntunar á viðskiptasviðinu hefur vaxið hröðum skrefum með auknum umsvifum á þjóðarbúinu og æ fjölþættari atvinnu- og viðskiptaháttum. Ríki og sveitarfélög hafa haft forustu um útfærslu og eflingu menntakerfisins í flestum greinum. Um viðskiptafræðsluna er hins vegar þá sögu að segja, að þungi hennar hefur hvílt á samtökum verslunarinnar sem rekið hafa tvo einkaskóla: Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólann í Bifröst, með verulegum styrkjum úr ríkissjóði. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að þessir skólar haldi áfram að starfa á vegum samtakanna, en með auknum stuðningi ríkisvaldsins. Jafnframt er ætlast til að námið verði þáttur í meira eða minna samræmdri menntun á framhaldsskólastiginu almennt og geti t.d. farið fram í fjölbrautaskólum, þegar þeir koma til skjalanna, og svo í sérstökum verslunarskólum eftir því sem sérhæfing námsins gerir kröfur til.

Starfs- og rekstraraðstaða Verslunarskólans og Samvinnuskólans er orðin mjög erfið. Fráleitt er, held ég sé óhætt að segja, að gera ráð fyrir rekstri þessara skóla til langframa á svipuðum grundvelli og nú á sér stað. Ég hygg að það verði ekki undan því vikist að ríkið taki vaxandi þátt í rekstri þeirra eins og annarra skóla á framhaldsskólastiginu. Hvenær og að hve miklu leyti, það er kannske álitamál, en ég vona að Alþ. það, er nú situr, geri það dæmi upp áður en þingi lýkur í vor.

Eins og áður segir er frv. flutt óbreytt frá fyrra formi. Er þá t.d. gert ráð fyrir því, að aukin þátttaka ríkissjóðs í rekstri einkaskólanna falli á í einum áfanga. Þetta tel ég að þurfi sérstakrar skoðunar við, eins og nú er ástatt um fjármál ríkissjóðs, og vænti góðrar samvinnu við hv. menntmn. og hv. þdm. yfir höfuð um meðferð þessa máls.

Ég mun láta menntmn. þessarar hv. d. í té endurskoðaða áætlun um kostnaðarauka ríkissjóðs af framkvæmd þessa frv. ef það yrði að lögum.

Á útmánuðum 1974 afgreiddi Alþ. lög um grunnskóla. Þetta var umfangsmikil löggjöf sem inniheldur mörg nýmæli, enda er beinlínis gert ráð fyrir því í löggjöfinni sjálfri að það taki allt að 10 ár að koma þeim öllum í framkvæmd. Unnið er að reglugerðum og öðrum nauðsynlegum undirbúningi og einstökum þáttum hefur raunar þegar verið hrundið í framkvæmd. Í beinu framhaldi af þessari lagasetningu og í raun að nokkru samhliða henni hefur farið fram og fer fram endurskoðun á framhaldsskólastiginu, einstökum þáttum þess í heild. Frv. um viðskiptafræðslu á að geta fallið inn í þá heildarendurskoðun í megindráttum, að ég ætla.

Mér þykir rétt að rifja hér upp með örfáum orðum hvað líður þessari endurskoðun, af því að það tengist vissulega því frv. sem hér er til umr. og einnig vegna þess að það er mjög oft spurt um þetta.

Ég vil þá fyrst taka fram að það er sammæli þeirra, sem um þessi mál fjalla í menntmrn., að meginmarkmið endurskoðunar framhaldsskólastigsins sé að auka fjölbreytni í framboði námsefnis, þannig að sem allra flestir fái nám við sitt hæfi, og gera námið hagnýtt og þroskandi, flétta saman bóknám og verknám, tengja sem best verkmenntun skólanna og lifandi atvinnu og athafnalíf í landinu, eyða blindgötum sem nú ber mikið á í menntakerfinu og greiða leið milli mismunandi námsbrauta, þannig að nemendur geti flutt sig til þegar það þykir henta og komist inn í nám að nýju þótt þeir hætti um stund.

Það fer svo ekki á milli mála að óhjákvæmilegt er að samræma kostnaðarþátttöku ríkis og sveitarfélaga á hinum ýmsu sviðum framhaldsskólastigsins, en þar er mjög mikið ósamræmi eins og nú standa sakir, eins og menn vita, sbr. að menntaskólar eru kostaðir að fullu af ríkissjóði, iðuskólar 50% af ríkissjóði, fjölbrautaskólar 50% af ríkissjóði o.s.frv. Þetta verður að samræma fyrr en síðar.

Langmest forvinna hefur farið fram á verkmenntasviðinu. Verk- og tæknimenntanefnd starfaði eitt ár og skilaði ítarlegu nál. 1971. 15. febr. 1973 var skipuð n. til að endurskoða lög um iðnfræðslu. Hún skilaði áliti 19. des. 1975 sem meiri hl. n. stóð að, en sérálit bárust frá tveim nm. og athugasemdir frá þeim þriðja. Fleiri álitsgerðir liggja fyrir sem snerta með einum eða öðrum hætti verkmenntaþáttinn og einstaka afmarkaða liði hans.

Þá má enn geta þess, að hafin er umfangsmikil vinna við gerð nýrrar námsskrár fyrir iðnfræðslustigið.

Fleiri einstakir þættir framhaldsskólastigsins hafa verið teknir til sérstakrar skoðunar, sbr. það frv. sem hér liggur fyrir o.s.frv. Þá er þess að geta að 25. nóv. 1974 var skipuð n. til þess að endurskoða skólaskipan framhaldsskólastigsins í heild. N. þessa skipa nokkrir deildarstjórar menntmrn. og er Hörður Lárusson formaður hennar. Er gert ráð fyrir að þessi n. geti lokið störfum innan fárra vikna og ég er raunar að vona að það geti orðið í þessum mánuði.

Nýlega gerði einn nm. nokkra grein fyrir þeim viðhorfum sem einkum eru uppi í þessari nefnd. Ég vil leyfa mér að rifja upp ummæli hans, en hann sagði á þessa leið:

„Starf framhaldsskólanefndar hefur einkum beinst að eftirtöldum fjórum meginþáttum: 1) Skipulagi framhaldsskólastigsins. 2) Námsefni skólanna. 3) Nýtingin kennslustofnana sem til eru í landinu. 4) Fjármagnsþörf framhaldsskólastigsins.

Framhaldsskólanefnd telur að stefna beri að því að leggja fram á Alþ. till. að heildarlöggjöf um allt framhaldsskólastigið. N. hefur því í tillögugerð sinni gert till. um samræmdan framhaldsskóla sem í megindráttum greinist í 8 námsbrautir sem hver fyrir sig taki til ákveðins hluta framhaldsskólans og með ákveðnu yfirfærslugildi á aðrar námsbrautir sem ákvarðast af námsefni samkv. námsskrá. Kosti þessa skipulags telur n. vera einkum þá, að allar námsbrautir hafa jafnt vægi í framhaldsskólunum, blindgötur verða ekki og allir nemendur, sem hafa löngun og getu, eiga þess kost að búa sig undir háskólanám, burt séð frá því af hvaða braut þeir koma. En námsmagn það, sem til boða stendur, getur verið mismunandi mikið. Nýting kennsluefnis á að aukast og námseftirlit að verða auðveldara. Með þessari námsskipan á að vera unnt að fullnýta allar menntastofnanir, sem til eru í landinu núna, og fá þeim sérstök verkefni að vinna, eins og þær hafa í kerfinu nú. Fjölga mætti námsþáttum skóla frá því sem nú er án þess að tilkostnaður aukist, en það nýttist betur mörgum stöðum á landinu sem hafa upp á mjög fábreytt námsval að bjóða.“

Þegar þessi framhaldsskólanefnd hefur skilað till. sínum til rn., en eins og áður segir er þess að vænta innan mjög fárra vikna, þá verður rækilega um þær fjallað á hinum ýmsu skólastigum og af sem allra flestum þeim sem láta sig þessi mál varða og þá með umr. og athugunum, hliðstætt því sem gert var við setningu grunnskólalaganna, eða þá á annan hátt.

Ég mun sérstaklega hlutast til um að menntmn. hv. Alþ. verði strax gerð grein fyrir niðurstöðum þessarar n. þegar þær liggja fyrir, því að líklegt má telja að heppilegt þyki að gefa þeim niðurstöðum auga um leið og fjallað er um frv. eins og t.d. þetta frv. sem ég er nú að mæla fyrir.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Mér fannst ástæða til að víkja að þessu í sambandi við einmitt þetta frv. Setning löggjafar um framhaldsskóla er vissulega ákaflega vandasamt verk og umfangsmikið. Það ríður áreiðanlega á mjög miklu að gott samstarf takist um framkvæmd þess með skólamönnum, með forsvarsmönnum atvinnulífsins og forustumönnum í stéttasamtökum, í sveitarstjórnarmálum, í landsmálum og öðrum þeim sem einkum láta sig þessi mál varða og um þau fjalla.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. menntmn.