01.03.1976
Neðri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseli. A.m.k. var framsaga hæstv. menntmrh. heldur rýr varðandi það frv. sem hér er til umr. enda þótt margt annað athyglisvert kæmi fram í ræðu hans.

Honum láðist að geta þess hversu mikinn kostnaðarauka þetta frv. hefði í för með sér. Að vísu hét hann því að menntmn. mundi fá kostnaðaráætlun í hendur, en það er vitaskuld alls ófullnægjandi. Áætlun um kostnaðarauka ríkissjóðs hefði átt að liggja fyrir við 1. umr., því að í raun og veru er einn stærsti þáttur þessa frv. ríkisútgjöldin sem það hefur í för með sér.

Eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. er þetta í þriðja sinn sem frv. til laga um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi er lagt fram hér á Alþingi.

Í þessu frv. er annars vegar kveðið á um skipulag viðskiptamenntunar á framhaldsskólastigi og hins vegar er kveðið á um lögbundin fjárframlög til tveggja skóla í landinu, Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólans. Hér er gert ráð fyrir því að ríkið greiði að fullu rekstrarkostnað þessara tveggja skóla, 80% af rekstrarkostnaði heimavista og 80% af stofnkostnaði skólahúsnæðis og heimavistar. Hér er því, eins og ég áður sagði, um mjög umtalsverða þátttöku ríkisins að ræða í starfsemi þessara tveggja skóla.

Í grg. frv. kemur fram að miðað við starfsáætlanir skólanna fyrir árið 1973–74 er reiknað með að ríkisframlagið til rekstrar verði 12–15 millj. vegna Samvinnuskólans, en vegna Verslunarskólans 45–50 millj. Ég hygg að það megi örugglega hækka þessar upphæðir nú um 100%, ef ekki meira. En við höfum sem sagt ekkert fengið að vita um það hér við 1. umr. hvað þetta dæmi til með að kosta.

Enda þótt ég sé hlynnt því að samræmd sé uppbygging og námsskrá viðskiptamenntunar í landinu og sams konar menntun sé veitt í einkaskólum og almennum framhaldsskólum, þá hlýt ég að segja það, að ég varð meira en lítið undrandi þegar ég sá að þetta frv. var komið á borð þingmanna. Mín fyrsta hugsun var sú, svona skömmu eftir afgreiðslu fjárl.: Lumar hæstv. menntmrh. á einhverjum peningum sem verja má til menntamála, og ef svo er, er þetta þá að hans dómi brýnasta viðfangsefnið um þessar mundir? Er þá ekkert mikilvægara við þá peninga að gera?

Okkur þm. er afgreiðsla fjárl. enn í fersku minni. Framlög til skóla og menntamála voru skorin miskunnarlaust niður. Ég skal aðeins rifja upp nokkur dæmi. Í fjárveitingum til grunnskóla um land allt var við það miðað að enginn aðili, sem á fyrri fjárlögum hlaut fjárveitingar til undirbúnings bygginga, megi hefja framkvæmdir á þessu ári. Reykjavík fékk t.d. til skólamála aðeins um það bil helming þess sem borgin hafði vænst til að standa undir sinni framkvæmdaáætlun. Á s.l. sumri var tekin ákvörðun um fækkun kennslustunda í grunnskólum og er ekki enn séð hvaða afleiðingar það kemur til með að hafa fyrir starfsemi grunnskólanna. Og síðast, en ekki síst má minnast þess hvernig farið var með iðnskólana við afgreiðslu fjárlaga. Í því sambandi vil ég leggja áherslu á að verði þetta frv. að lögum mun Verslunarskólinn einn fá margfalt meira ríkisframlag en allir iðnskólar í landinu fengu til sinna framkvæmda á þessu ári. Hæstv. menntmrh. hefur þó lýst því yfir að hann telji það eitt brýnasta verkefnið í menntamálum að efla verkmenntun í landinu, og hann lofar því að vísu enn. En með ráðstöfun fjármuna af þessu tagi er þess ekki að vænta að sú uppbygging muni ganga mjög hratt.

Ég hlýt að segja það, að mér er af þessum ástæðum nánast óskiljanlegt að hæstv. menntmrh. skuli leggja áherslu á að fá þetta frv. samþykkt eins og nú er komið.

Til viðbótar þessum samanburði við iðnskólana má einnig benda á að til iðnskóla greiðir ríkið aðeins helming stofnkostnaðar. Með þessu frv. hyggst ríkið greiða 80% af stofnkostnaði Verslunarskólans og Samvinnuskólans. Af heildarrekstrarkostnaði til iðnskóla greiðir ríkið 85–90%, en samkv. frv. á ríkið að greiða allan rekstrarkostnað Verslunarskólans og Samvinnuskólans. Hér á að gera talsvert betur við þessa tvo skóla en iðnskólana. Ég gat ekki greint að fram kæmu hjá hæstv. ráðh. nein rök fyrir því hvers vegna þetta mál væri svona brýnt. Í rauninni horfir málið á hinn veginn fyrir mér.

Eins og ég hef getið um hér áður, þá hef ég á fyrri þingum ekki verið andvíg meginefni þessa frv. vegna þess að ég tel nauðsynlegt að samræma þessa menntun. En í bæði skiptin, sem þetta hefur verið til meðferðar hér á þingi, það mun raunar hafa verið í Nd. í fyrra og í Ed. árið áður, hef ég talið þetta frv. í veigamiklum atriðum svo meingallað að það væri engan veginn hægt að samþykkja það eins og það lægi fyrir, jafnvel þó menn vildu framgang þess á þingi.

Í fyrra hefði verið hægt að afgreiða þetta frv. Ég hygg að tímaskortur hafi ekki ráðið því að frv. náði ekki fram að ganga. En ég minnist þess að hæstv. menntmrh. lagði ekki sérstaka áherslu á að það yrði afgreitt, m.a. vegna þess að það fól í sér mikil fjárútlát fyrir ríkið. Ég er í rauninni sömu skoðunar nú og hæstv. menntmrh. var í fyrravor. Ég tel að forsendur fyrir samþykkt þessa frv. séu gjörbreyttar, og ég sé enga ástæðu til þess að afgreiða þetta mál á þessu þingi.

Þetta er fyrst og fremst spurning um forgang í mínum huga. Vegna efnahagsstefnu ríkisstj. býr skólakerfið á öllum stigum við fjárskort svo að horfir til stór vandræða. Og ég tel að hér sé engan veginn um að ræða það forgangsverkefni í menntamálum, að nauðsynlegt sé að knýja á um framkvæmd þessa máls.

Um einstök atriði frv. má kannske segja að ég þurfi ekki að fjalla, þar sem afstaða mín er þegar komin fram til afgreiðslu þess nú. En til viðbótar því tel ég samt rétt við 1. umr. að benda á að þrátt fyrir þau miklu ríkisútgjöld, sem þarna á að lögbinda, er ekki gert ráð fyrir því að eignarhluti ríkisins í Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólanum sé viðurkenndur né er gert ráð fyrir því að hið opinbera eigi nokkra hlutdeild í stjórnun skólanna. Í öllum lögum um skólastofnanir, sem ríkið á og stendur að með öðrum, t.d. sveitarfélögum, er skýrt kveðið á um að slík skólamannvirki skuli vera eign ríkis og sveitarfélaga í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur. Af þessu frv. er ekki annað að skilja en framlög ríkisins eigi að vera eign skólanna, og ég hygg að slíkt sé alveg fordæmalaust. Ég fæ ekki komið auga á nein þau rök er mæli með því að einkaaðilar njóti forréttinda umfram sveitarfélög að því er varðar eign og umráð yfir almannafé.

Það væri líka eðlilegt að hið opinbera hefði fulltrúa í skólanefndum, en ákvæði um skólanefndir við þessa tvo skóla vantar alveg í frv. Þar ætti auðvitað að vera skólanefnd, sem menntmrn. eða hið opinbera ætti fulltrúa í, og raunar óhjákvæmilegt að mínum dómi að hið opinbera hafi hönd í bagga með því hvernig því fé, sem veitt er til skólanna, er varið. Ég minnist þess, að þegar frv. var fyrst lagt fram og þá fyrir Ed., þá kom fram í ræðum manna að Samvinnuskólinn gat vel hugsað sér slíkt fyrirkomulag, en Verslunarskóli Íslands mun hafa verið því mótfallinn. Hér virðist mér það vera skylda þm. að gæta samræmis.

Hæstv. menntmrh. vék að endurskoðun á heildarskipulagi framhaldsmenntunar, og var ánægjulegt að heyra að það starf er vel á veg komið og tillagna er að vænta innan nokkurra vikna, eins og kom fram í ræðu hans. Hins vegar vantaði alveg rök fyrir því hvers vegna nauðsynlegt er talið að taka þennan eina þátt út úr í stað þess að bíða eftir tillögum um heildarskipulag. Ef það starf gengur vel og ekkert verður til að tefja það, þá virðist mér vel hugsanlegt að slík heildarlöggjöf yrði lögð fyrir næsta Alþ. Ég skildi mál hæstv. menntmrh. svo. Þess vegna er í rauninni verið að fara hér aftan að hlutunum með því að taka þennan þátt framhaldsmenntunar út úr.

Í fréttabréfi menntmrn. frá 31. des. 1975 er greint frá þessari n. í rn og þar er greint frá því að þessi framhaldsskólanefnd hafi haft til hliðsjónar ýmsar álitsgerðir og með m.a. þetta frv. Síðan segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

N. er nú langt komin með gerð tillagna um skipan námsbrauta á framhaldsskólastigi og vinnur jafnframt að undirbúningi framkvæmdaáætlunar og athugun á hvernig núv. stofnanir og skólahúsnæði falli að nýrri og samræmdri skipan.“

Hér virðist mér vera komið að kjarna málsin, að það séu eðlilegri vinnubrögð að hyggja fyrst að samræmingu og heildarskipulagi og sjá síðan hvernig hinir ólíku þættir falla inn í það. En með þeim vinnubrögðum að afgreiða einstaka þætti fyrst er hætt við að ýmislegt muni raskast, sem ella hefði fallið inn í heildarlöggjöfina, og þá sé ekki fyrir hendi sá sveigjanleiki í mótun heildarskipulagsins sem þurft hefði að vera.

Þetta hefði ég talið eðlilegri vinnubrögð, bæði fyrir skólamálin í heild og eins fyrir alþm. Það hefði verið traustari grundvöllur fyrir þá til þess að móta afstöðu til þessa máls og annarra.

Herra forseti. Ég orðlengi þetta ekki frekar, en ég ítreka óánægju mína með að það skuli ekki hafa legið kostnaðaráætlun fyrir hér strax við 1. umr. Og ég endurtek það sem ég sagði, að ég tel óeðlilegt að veita svona mikið ríkisfjármagn til tveggja skóla í landinu þegar skornar hafa verið niður fjárveitingar til skóla á öllum stigum skólakerfisins.