02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

178. mál, veiting prestakalla

Jónas Árnason:

Herra forseti. Mér þótti síðasta ræðumanni mælast vel. Ég er í stuttu máli sagt alveg sammála honum og lýsi yfir andstöðu minni við þær hugmyndir um ráðstöfun prestakalla sem hv. frsm. þessarar till. lýsti hér áðan.

Það mætti flytja langt mál um hlutverk prests í dreifbýli. Ég tek undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að þar er um að ræða ýmislegt fleira en að boða fagnaðarerindið. Góður dreifbýlisprestur er jafnframt forustumaður í félagslífi hvers konar og þeim mun betri prestur að okkar dómi úti í dreifbýlinu sem hann tekur meiri þátt í slíku, jafnvel þó það sé iðulega á kostnað þess tíma sem hann hefur til að boða fagnaðarerindið.

Ég tilheyri stjórnmálaflokki sem af ýmsum er talinn ekki mjög hlynntur prestum. En ég vil nota þetta tækifæri til að segja það hér, að dreifbýlisprestar, sem ég hef kynnst, eru að mínum dómi margir hverjir einhverjir nýtustu þegnar þessa þjóðfélags. Og þá er ég að tala einmitt um þá sem ekki veigra sér við að taka þátt í lífi fólksins, félagsstarfi hvers konar og ýmsu veraldarvafstri, líka með þátttöku í hreppsnefndum o.s.frv. (Gripið fram í: Vélaviðgerðum.) Vélaviðgerðum, já og fleiru. Slíkir prestar, eins og þeir sem mönnum koma nú í hug þegar þetta innskot kemur hér fram, þeir eru prestar bestir að okkar dómi margra.

Nú er þetta að sjálfsögðu ekki endilega mótbára gegn því að hafa þá skipan á sem hv. frsm. ræddi hér áðan. Þó held ég að gamla fyrirkomulagið tryggi okkur frekar presta af þessu tagi úti í dreifbýlinu. Ég álít að sá prestur, sem veigrar sér við að ganga út í þá hríð, ganga í þann slag sem prestkosningar eru, muni líka veigra sér við að sinna mörgum þeim störfum sem skapa góðan prest í dreifbýli. Ef ég mætti leyfa mér að nota orðið „pempíuskapur“ í þessu sambandi, þá er það einmitt það sem dreifbýlisprestur má ekki láta vefjast mikið fyrir sér. Hann má ekki láta pempíuskap ráða of miklu í sínum störfum. En eins og ég segi, þetta eru ekki endilega mótbárur gegn því sem hv. frsm. till. sagði hér áðan.

Hins vegar vil ég gera mjög ákveðna athugasemd við eitt af því sem hann sagði, og það var að prestkosningar væru „skrípamynd af lýðræði“. Hvers vegna skrípamynd af lýðræði? Það er, segir hann, í fyrsta lagi vegna þess að fólk er oft að kjósa menn sem það þekkir lítið sem ekki. Það er skrípamynd af lýðræði. Þá er það að sjálfsögðu líka skrípamynd af lýðræði, segjum t.d., ef kennari úr Reykholti er allt í einu kominn í framboð til þings í stóru kjördæmi eins og t.d. Vesturlandskjördæmi. Þar þekkja hann fáir náið, nema kannske reykdælir og nokkrir menn í uppsveitum Borgarfjarðar. Eins er um prest, t.d. vestan úr Saurbæ. Ef hann kemur í framboð á vegum stjórnmálaflokks, þá er hann Lítið þekktur fyrir utan Saurbæinn og Dalina, — óþekktur í afganginum af kjördæminu, álíka og hann mundi vera þegar hann væri að bjóða sig fram til prests. Þetta er þá hvort tveggja skrípamynd af lýðræði. Hv. frsm. talar um tengsl og vináttu, þetta á líka að valda því að prestkosningar séu skrípamynd af lýðræði. Ég held að þetta ráði einnig ansi miklu í sambandi við alþingiskosningar. Ef við eigum að viðurkenna að prestkosningar, eins og þeim hefur verið háttað undanfarið, séu skrípamynd af lýðræði, þá eru alþingiskosningar það líka.