02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2294 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

178. mál, veiting prestakalla

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir það sem sagt hefur verið um hlutverk presta í dreifbýlinu. Svo langt sem ég veit af lestri Íslandssögu og síðan af persónulegum kynnum, þá treysti ég mér til að staðhæfa að þar hafa margir góðir þegnar unnið merkilegt starf, sumir gerst sveitarhöfðingjar, miklir uppfræðarar, og engan veit ég, sem hefur staðið sig verr en það að vera þá a.m.k. athyglisverður karl.

Við breytta tíma hefur hlutverk prestsins í samfélaginu úti í hinum dreifðu byggðum breyst og það meira að segja svo mjög að ég væri til viðtals um að leggja prestsembættið niður. Einhvern veginn hefur æxlast svo til, að ég hef aldrei tekið þátt í prestkosningum, en ýmsir góðir kunningjar mínir og vinir hafa orðið að taka þátt í prestkosningum sem frambjóðendur.

Ég tel, að í þáltill. þeirri, sem hér er lögð fram, sé stefnt að því að ýmsum ágætismönnum, sem finna hjá sér köllun til prestskapar, verði gert kleift að komast í embættið einhverja aðra leið en að vera dregnir þangað eftir göturæsinu og mér finnst það æskilegt. Ég hygg að sá munur sé þrátt fyrir allt, ef nánar er að gáð, á starfi prests og alþm., að við ættum að geta unnt prestunum okkar þess að komast þurrfættir í stólinn að þessu leyti. Og ég get ekki skilið hví dreifbýlisprestar geti ekki tekið hressilegt starf í lífi fólksins þó að þeir verði kosnir eftir þeirri leið sem að er stefnt í þessari þáltill.