02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

178. mál, veiting prestakalla

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess að hefja langar rökræður um málið að þessu sinni. En ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á því að mér finnst hv. ræðumenn ýmsir hafa skotið nokkuð yfir markið með því að lita fram hjá þessari till., sem hér liggur fyrir, og fara þess í stað að ræða málið í heild á við og dreif. Það er náttúrlega ekki að spyrja að því með jafneinlæga áhugamenn eins og hv. 5. þm. Vesturl. og 5. þm. Norðurl. e., þótt þeir segi hér örfá orð í byrjun umr., þó að þeir láti nú í það skina að þeir séu fyllilega til viðræðu um að leggja allan prestskap og kristnihald niður, — kannske ekki hv. 5. þm. Vesturl. Hann er e.t.v. ögn mildari í þeirri afstöðu. Og hv. 7. landsk. þm., sem bæði hefur verið í sóknarnefnd og Ed., enda kom það fram af máli hans, taldi sig hafa ráð Ed.- manna í hendi sér nokkurn veginn. Og sjálfur hæstv. utanrrh. ýtir fleyi sínu á flot nú þegar í upphafi málsins og segir ágæta sögu af sterkum klerki. Það er svo sem ekkert um þetta að sakast. Þetta sýnir bara hvað menn eru knúðir áfram af brennandi áhuga á þessum málum.

Hér er þó ekki um annað að ræða en einfalda till. til þál. um að endurskoðuð séu 60 ára gömul lög. Þetta er atriði, sem Kirkjuþing hefur oft samþykkt. Það hafa komið áskoranir frá prestastefnum, héraðsfundum, sóknarnefndum hvaðanæva að af landinu. Ég tel, eins og hér hefur komið fram, að Alþ. geti ekki vikið sér undan því að ræða málið og taka afstöðu til þess, það sé ekki nóg að stinga það svefnþorni, eins og hv. Ed.menn gerðu síðast. Hér er sem sagt aðeins um það að ræða að 7 alþm. verði valdir til að skoða 60 ára gamla löggjöf samkv. eindregnum tilmælum og samþykktum viðkomandi aðila, og það verð ég að telja sjálfsagt.