02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

178. mál, veiting prestakalla

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég hygg nú að hv. flm., séra Ingiberg J. Hannessyni, megi vera það nokkur hvatning að þessi till. hans og þeirra, sem hana flytja með honum, hefur vakið mikinn áhuga hér í þingsölum. Það sannar raunar það, sem við vitum öll, að prestar og prestastétt hefur löngum verið virt hér á okkar landi, enda hafa prestar löngum gegnt þýðingarmiklu hlutverki. Meðal þeirra hafa verið skörungar miklir, mannbótamenn. M.a. hér í sölum Alþ. hefur sérstaklega fyrr á tímum kveðið mikið að þeim, og okkur er alls ekki sama hvernig um mál kirkjunnar og mál presta er fjallað.

Ég hlýt að taka undir orð þeirra hv. þm. sem benda á að að sjálfsögðu erum við ekki hér með afstöðu okkar til þessarar till. að taka neina ákvörðun um framtíðarskipan í þessum málum, heldur einfaldlega um að það verði rýnt olían í málið og Alþ. sjái sóma sinn í að taka afstöðu til þess.

Ég vil eindregið taka undir orð hv. 1. þm. Norðurl. e., sem benti á að mörg mál. sem ekki beint snerta peningamál, efnahagsmál, varnarmál eða þessi mál sem við erum að þvarga um sí og æ, — þau eru afgreidd hér eða alls ekki afgreidd raunar, það er fjallað um þau sem nokkurs konar feimnismál sem engum kemur í raun og veru við. Þ. á m. vil ég nefna áfengismálin sem ýmist eru svæfð eða hreinlega stungið undir stól. Þess vegna get ég heils hugar mælt með því að þessi till. fái jákvæða þinglega meðferð og það verði tekin afstaða til hennar. Og ég get lýst fylgi mínu við hana óhikað, till sem slíka, að hún verði samþykkt hér á þingi. Ég er hins vegar ekki búin að gera upp við mig fullkomlega það atriði, sem umr. hafa snúist um hér aðallega, og ég tel í rauninni ekkert óeðlilegt þó að í þessum umr. sé farið út fyrir efni till. af því að það er vitað hvað liggur að baki, þ.e.a.s. breytt skipan prestkosninga.

Það er alveg rétt að prestkosningar hafa í framkvæmd oft verið með allt öðrum hætti en við teldum æskilegt. Ég held að fulldjúpt sé kannske tekið í árinni með því að kalla þær skrípamynd lýðræðisins, eins og einn eða jafnvel fleiri hafa komist að orði. En þar hefur verið beitt aðferðum sem þeim, er voru að ljósa prestinn, geðjaðist síður en svo að. Ég held að þarna sé ekki fyrst og fremst og kannske alls ekki prestana sjálfa um að saka, heldur er það fólkið sem á bak við stendur, alls konar klíkur sem myndast í sambandi við slíkar kosningar. Og ég er sannfærð um að það hefur oft verið viðkomandi umsækjendum, viðkomandi prestum til sárrar raunar hvernig prestkosningar hafa í raun oft og tíðum orðið. Og mér dettur nú í hug hvort einmitt prestar, með tilliti til þess að þeir eigi að okkar mati að hafa kannske öllu meiri þroska og ábyrgðartilfinningu undir þessum kringumstæðum heldur en þegar alþm. eða frambjóðendur til Alþ. eru að kljást fyrir kosningar, — hvort prestarnir sjálfir, umsækjendur hverju sinni, gætu ekki beinlínis haft bætandi áhrif í þessu efni og haft samtök um það sín á milli að framkvæmdin yrði með því móti sem þeir gætu fellt sig við, þannig að þessar væringar og gauragangur allur, sem við verðum oft vitni að, hyrfu beinlínis úr sögunni fyrir ákveðnar óskir og tilmæli prestastefnanna sjálfra.

Það hefur verið talað um að lýðræðinu skuli fullnægt, og öll viljum við hlut lýðræðisins sem mestan. Það kann líka að þykja fyllilega eðlilegt að við alþm., sem förum með umboð kjósenda okkar, gerum út um þessi mál, og þannig verður það sjálfsagt í raun að frv. frá Alþ., hvenær sem það verður afgreitt, leiðir málið til lykta. En mér hefur komið í hug, einmitt með lýðræðið í huga, hvort ekki væri eðlilegt í þessu máli að það væri farið viðar til þess að kanna hug fólksins í landinu til þessa máls, hvort ekki væri hugsanlegt að sóknarnefndir í hverri sókn létu beinlínis fara fram skoðanakönnun í sínum söfnuðum. Þetta væri hægt að gera, að ég hygg, með auðveldu móti. Kirkjugestir, hverju sinni sem þeir kæmu til kirkju, mundu einfaldlega leggja inn atkv. sitt, hvort þeir vildu afnema prestkosningar eða ekki. Með þessu móti kæmumst við örugglega nær vilja fólksins. Og ég er alveg sammála þeim ræðumönnum, sem hér hafa talað, um að það horfir dálítið öðruvísi við gagnvart fólki almennt hvort það er að kjósa prest í sóknina sina eða hvort það er að fá nýjan lækni eða jafnvel lögreglustjóra, sýslumann eða aðra opinbera starfsmenn. Mér finnst hlutur prestsins, — og ég hygg, að við séum öll sammála um það, — mér finnst hann allt annar og meiri, ef við hugsum um það samneyti, sem hann á að hafa við sín sóknarbörn, og það hlutverk, sem honum er ætlað. Þess vegna finnst mér þetta leið sem væri eðlilegt að benda á og hafa a.m.k. sem framlag í málið þegar til ákvörðunar kemur.

Það hefur verið talað um hér að það væri óeðlilegt að þarna væri gerður mismunur á prestum, læknum, sýslumönnum og öðrum opinberum starfsmsönnum. Þetta er að vísu rétt. Þá komum við að þessari stóru, almennu spurningu sem hefur verið m.a. rædd hér á Alþ., hvort ekki er tími til kominn að gera breytingu á lögum og reglum um ráðningartíma opinberra starfsmanna, að þeir verði ekki nauðsynlega kosnir eða skipaðir um lífstíð í sín embætti, heldur kæmu þar víss tímamörk til. Ef af þeirri breytingu yrði, sem ég er ákaflega hlynnt, þá væri auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að prestarnir kæmu þar undir líka.

Einhver sagði og átti sjálfsagt að vera í gríni að prestar hér á þéttbýlissvæðunum væru taldir nær Drottni heldur en úti í dreifbýlinu. Ég held nú að erfitt sé að dæma um þetta, enda í gáska sagt. En hitt er víst, að sé það nauðsynlegt að presturinn sjálfur sé nálægt Drottni, þá er það auðvitað fyrst og fremst hlutverk hans að þoka sóknarbörnum sínum eitthvað nær Drottni, hvað sem honum sjálfum líður, þó að sjálfsagt verði hann að ganga þar á undan með góðu fordæmi.

Og ég vil að endingu segja þetta, af því að ég er á þessari stundu ekki viss um að ég vilji afnema prestkosningar, en ég mundi vilja mælast til þess og skjóta því til 1. flm. hvort bann gæti ekki í sinni stétt orðið þess valdandi að framkvæmd prestkosninga breyttist frá því sem nú er. Hugsanlega gæti það gefið okkur alþm. gott fordæmi.