02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2313 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

178. mál, veiting prestakalla

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er á þeim að heyra sem fastast mæla með þessari till. og framgangi þess skipulags sem hún víkur að að það sé einhver voðalegur bransi, þessi kirkjubransi, og það gildi um hann einhver allt önnur lögmál heldur en um önnur félagsleg samskipti manna. Ég fæst bara ekki til að trúa því að þetta sé svona.

Einn hv. þm., Geirþrúður H. Bernhöft guðfræðingur, orðaði það svo að þessar prestkosningar ýttu undir allt það versta sem í manneskjunni byggi: ósáttfýsi, rógburð og ósamlyndi. Ég skil þetta bara ekki. Ég held að það sé verið að mála ljóta karlinn á vegginn.

Það komu líka fram mótmæli við því að presturinn ætti að vera einhver „altmuligmand“ í söfnuðinum. Ég held enn við þá skoðun, sem ég lét í ljós hér fyrr í dag, að kannske væri þar unnið meginstarf prestsins. Það kann að vera að hann tefjist að einhverju leyti við að boða fagnaðarerindið á því að sinna öðrum störfum. En ég á bágt með að trúa því t.d. að þær séu neitt í hers höndum, sálirnar í Saurbænum, þó að sálnahirðirinn sitji hér um stund suður á Alþ. og vinni þar þjóðnytjastörf. Sagan sýnir okkur einmitt að íslenskir prestar hafa verið í fararbroddi um þjóðnytjastörf, hvort heldur þeir hafa setið hér á Alþ. ellegar þá staðið að „viðgerð hraðfrystihúsanna,“ ellegar þá læknað hunda. Hvert starf, sem unnið er af samviskusemi og ósérhlífni, getur verið þjóðnytjastarf.

Það bryddi í ræðu hv. frummælanda, 2. þm. Vesturl., séra Ingibergs, á mikilli vorkunnsemi við prestinn sem slíkan, það væri farið svo voðalega illa með prestinn að vera að láta kjósa um hann, og eins og Steinn sagði: „skyldi ekki manninum leiðast að láta krossfesta sig.“ Víst er það kannske nokkur mannraun að koma inn á 300 heimili, heilsa upp á fólkið og drekka kaffi hjá því og ná svo ekki kjöri. En þó hygg ég nú að sá prestur, sem tekur þátt í kosningabaráttu, hvort sem hann vinnur eða tapar, öðlist dýrmæta reynslu, hann eignist vini, hann eignist nýja kunningja, og þá er alls ekki til einskis barist. En þó að tekið yrði upp nýtt og breytt skipulag, erum við þá viss um það að enginn prestur verði út undan, erum við þá víss um að allir fái sín óskabrauð og eigum við von á því að það verði „rúm fyrir þá í gistihúsinu“ alla?

Ég hygg að það gildi enn hið forna máltæki, að það verði enginn óbarinn biskup. Og ég hygg að það verði engir óbarðir prestar frekar, ekki endilega eftir nýju skipulagi. Flokkadrættir og klíkuskapur er áreiðanlega siður en svo útilokað með því. Við höfum horft upp á mjög snarpar og illvígar deilur kirkjunnar manna nú að undanförnu. Við gætum sett dæmið upp þannig að hér væri t.d., svo að maður noti þeirra eigin talsmáta, grautartrúarbiskup sem skipaði svo grautartrúarpresta sem svo kysu nýjan grautartrúarbiskup. Ég held að það yrði ekki siglt út fyrir deilur, klíkuskap og óþægilegheit heldur með því.

Ég hef það traust á íslenskri prestastétt að henni sé óhætt að taka þátt í almennri kosningabaráttu. Og allir þeir prestar, sem ég hef kynnst, eru prýðilega færir um það, án þess að fara sér á nokkurn hátt siðferðilega að voða. Það kann að vera að það sé stundum óþægilegt að hafa hemil á ákveðnum stuðningsmönnum, að þeir gerist ekki offari í sínum málflutningi, en þeir eru nú sóknarbörn allt um það.