02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2318 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

134. mál, endurvinnsluiðnaður

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. um endurvinnsluiðnað. Till. er flutt til þess að vekja athygli á verkefni sem þörf er á að sinna. Verði till. samþ. liggur vilji Alþ. fyrir um það að rannsókn skuli fara fram á því hvort endurvinnsluiðnaður geti orðið arðvænlegur og átt rétt á sér hérlendis.

Till. sú, sem hér um ræðir, á þskj. 294, er þannig:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fram fara ítarlega athugun á því, hvort endurvinnsluiðnaður í ýmsum greinum gæti orðið arðvænlegur hér á landi, dregið úr gjaldeyriseyðslu og veitt mörgum örugga atvinnu.“

Hér á landi fellur mikið til af úrgangi og afgöngum sem mætti nýta. Skortur er að verða á ýmsum undirstöðuefnum í heiminum. Í kjölfar þess hefur komið ört hækkandi verðlag sem valdið hefur mikilli röskun og erfiðleikum. Eitt höfuðvandamál heimsins á þessum tímum er hin mikla eyðsla hráefnisbirgða jarðar og stóraukinn kostnaður við að ná til þeirra. Hér skulu nefnd nokkur dæmi um ástlaða endingu hráefnisforðabúrs jarðarinnar af ýmsum mikilsverðum hráefnum: alúminíum 30 ár, eir 20 ár, járn 90 ár, blý 20 ár, nikkel 50 ár, tin 15 ár, zink 16 ár og olía 30 ár. Það sem hér hefur verið sagt, kemur fram í riti sem alþjóðasamtök endurvinnsluiðnaðarins gefa út. Aðalmarkmið þeirra samtaka er að vinna skipulega að því að endurunnið hráefni verði sem viðast fyrir hendi. Með því er unnið að því að nauðsynleg undirstöðuefni, sem ört gengur á, endist lengur og að miklum verðmætum verði bjargað.

Fyrirtæki innan nefndra samtaka vinna að söfnun og vinnslu á eftirtöldum efnum: brotajárni og stáli, hvers konar málmum, pappír, tuskum, plasti, gúmmíi, gleri og fleiri efnum sem finnast og til falla. Grundvallaratriði endurvinnslu er stöðug endurnýjun á uppruna mikilvægra hráefna. Hráefni í endurvinnslu þýðir minni orkunotkun. Hráefni í endurvinnslu þýðir minni mengunarvandamál og þjóna hugsjón náttúruverndar. Endurvinnsla þýðir aukna verðmætaöflun og lengri endingartíma hráefnisforða á jörðinni.

Hér á landi hefur farið lítið fyrir endurvinnslu. Má þó ætla að fyrr á tímum hafi verið betur haldið á en nú. Um síðustu aldamót keyptu nokkrir járnsmiðir strandað skin. Ætlunin var að fá nothæft járn til smíða. Einnig munu þeir hafa selt til útflutnings 10–15 tonn af brotajárni. E.t.v. var þetta fyrsta salan til útlanda á brotajárni frá Íslandi.

Innflutningur á járni til landsins fram eftir öldum var mjög lítill og aðeins 40—50 tonn árlega um 1800.

Á liðnum tíma fer lítið fyrir söfnun járns og málma þar til fyrir 25 árum að fyrirtæki í Reykjavík, Sindri hf., byrjaði reglulega söfnun og síðar sundurgreiningu og vinnslu. Hefur þessi starfsemi aukist verulega í seinni tíð. Liggur nú fyrir áætlun um söfnun og vinnslu brotajárns og málma fyrir allt landið. Framkvæmd þessarar áætlunar er þegar hafin að nokkru leyti. Mestur hluti þess hráefnis, sem þannig safnast, er seldur til útflutnings, en nokkuð er selt innanlands til járnsteypufyrirtækja. Með flokkun og sundurgreiningu þess, sem safnast af brotajárni og málmum, hefur fengist mun hærra verð en áður var, þegar hráefnið var selt óflokkað. Hefur Sindri hf. haft virðingarverða forgöngu í þessu máli að undanförnu. Ýmsir fleiri aðilar hafa fengist við járn- og málmsöfnun um árabil, en í litlum mæli sé miðað við þann aðila sem áður er nefndur.

Skilgreining á hugtakinu endurvinnsla er sú að breyta úrgangsefni í vinnsluhæft hráefni og enn fremur fullvinnsla iðnaðarframleiðslu úr þeim efnum. Það er nauðsynlegt að áfram verði unnið að söfnun járns, málma og annarra hráefna sem gæti orðið undirstaða að mikilli verðmætaaukningu og nýjum atvinnugreinum í landinu.

Íslendingar eru fátækir af hráefnum til iðnaðar. Það liggur í augum uppi að hér á landi muni endurvinnsluiðnaður gegna margþættu hlutverki, m.a. spara erlendan gjaldeyri og auka atvinnumöguleika fjölda fólks. Hráefnin eru upphaflega keypt erlendis frá og ætti því að vera enn þýðingarmeira fyrir íslendinga en aðrar þjóðir, sem hafa undirstöðuefnin í landinu, að safna saman og nýta það sem hæft er til endurvinnslu.

Í landi allsnægtanna, Svíþjóð, og viðar er margs konar endurvinnsluiðnaður kominn á hátt stig. Má m.a. nefna pappír, brotajárn, gúmmí o.fl. Við endurvinnslu járns og málma þarf miklu minni orku heldur en við frumvinnslu. Með stórauknum orkukostnaði í seinni tíð mun sá þáttur í framleiðslunni gera hlut endurvinnslunnar enn betri í samanburði við frumvinnsluna.

Áhugi manna hér á landi fyrir ýmiss konar iðnaðarframleiðslu hefur farið vaxandi undanfarin ár. Skilningur á möguleikum í endurvinnsluiðnaði eykst með fræðslu og upplýsingum á því sviði sem er nú orðin þýðingarmikil atvinnugrein í nágrannalöndunum og viðar. Áhugi manna hér á landi hefur komið m.a. fram í því að stofnuð hafa verið félög áhugamanna um endurvinnsluiðnað. Stálfélagið hf. er dæmi um þetta. Það var stofnað fyrir fáum árum af 60 áhugamönnum til þess að athuga grundvöll fyrir því að stofnsett yrði hér á landi fyrirtæki sem safnaði og bræddi allt brotajárn sem til félli árlega. Ætlunin er að valsa úr því steypustyrktarstál og spara þannig gjaldeyri sem eytt er vegna innflutnings á steypustyrktarjárni sem nú er mjög dýrt. Gert er ráð fyrir að árlega falli til allt að 15 þús. tonn af brotajárni og aukist á næstu árum í 20 þús. tonn.

Stærstu brotajárnsgjafar eru smíðaefni, plötur, prófílar, vinnuvélar, skip og bifreiðar. Stálfélagíð hf. hefur látið gera áætlun um stofn- og rekstrarkostnað fyrir járnbræðslu. Ekki er enn vitað, hvenær eða hvort af framkvæmdum verður. Vegna mikilla verðbreytinga og af öðrum ástæðum mun fyrri áætlun verða endurskoðuð.

Svíar hafa mikið af undirstöðuefnum til iðnaðar í landinu. Eigi að síður leggja þeir mikið kapp á endurvinnsluiðnað. Árið 1974 var endurvinnsla á pappír í Svíþjóð 500 þús. smálestir eða ca. 28% af hráefnisþörf pappírsiðnaðarins í Svíþjóð það ár. Endurvinnsla járns í Svíþjóð 1974 var 800 þús. tonn. Innflutningur var það ár ca. 337 þús. tonn, en nærri 50% hráefnis, sem svíar nota til stálframleiðslu sinnar, er brotajárn. Svíar leggja mikið kapp á að ná til endurvinnslu enn stærri hluta af því úrgangsefni sem til fellur. Kemur það skýrt fram í nýrri orku- og iðnaðaráætlun svía sem lögð var fram á síðasta ári.

Hér á landi var eitt sinn gerð tilraun til rekstrar pappaverksmiðju með úrgangspappír sem hráefni. Rekstur þessi lagðist niður þar sem hann skilaði ekki arði. Nokkuð hefur þó verið endurunnið af pappír í landinu og það selt sem hráefni úr landi. Glerúrgangur var nýttur hér fyrir nokkrum árum til framleiðslu á flöskum, en sá iðnaður lagðist niður. Tuskur hafa eitthvað verið nýttar, en þó að óverulegu leyti. Framleiðsla á rúðugleri byrjaði hér fyrir nokkrum árum. Meiningin var að endurvinna gler í þeirri verksmiðju þótt reiknað væri með innfluttu hráefni að verulegu leyti.

Tilraunir til endurvinnsluiðnaðar, sem hér hefur verið minnst á, heppnuðust ekki eins og vonir stóðu til. En síðan hefur margt breyst í framleiðslutækni og verðlagi. Gæti því verið grundvöllur fyrir arðbærum endurvinnsluiðnaði hér á landi nú við breyttar forsendur þótt það hafi naumast verið fyrir tveimur áratugum eða meira. Nauðsynlegt er að byggja á þeirri reynslu sem fengin er. Nýta verður fyllstu tækniþekkingu og hagræðingu í rekstri til þess að vel megi fara. Með endurvinnslu í huga verður að halda til haga öllu sem nýtilegt er og til fellur.

Athugun, sem gerð hefur verið í Bandaríkjunum, sýnir að sorp úr heimahúsum inniheldur eftirtalin efni: pappír 59%, blikk, stál og ál 16%, gler 6%, plast 6% og annað 13%. Þetta ásamt öðru, sem til fellur, er tiltölulega dýrt hráefni. Talið er að a.m.k. 500 kg af ofangreindum efnum í sorpi falli til á mann yfir árið. Fer ekki á milli mála að miklum verðmætum er á glæ kastað meðan endurvinnslu er ekki hrundið af stað til þess að nýta úrgangsefnin.

Auk þess, sem hér hefur verið nefnt, eru mikil verðmæti í ýmsu öðru sem kastað er, t.d. í sláturhúsum og vinnslustöðvum. Má m.a. nefna horn, bein og innyfli sem ekki eru enn að fullu nýtt. Úr hornum og beinum er unnin verðmæt framleiðsla erlendis. Er vissulega ástæða til þess að gera fullnaðarathugun á því máli hér á landi.

Pappírinn er fyrirferðarmestur í sorpinu. Virðist vera verðugt verkefni að hefja endurvinnslu á umbúðapappír og pappa hér á landi. Íslendingar eiga ekki trjávið til pappírsgerðar eins og svíar sem endurvinna þó blaðapappír og annan pappírsúrgang. Úrgangspappír er verðmætt hráefni sem þarf að nýta hér á landi ekki síður en í Svíþjóð og öðrum þjóðlöndum. Í alþjóðlegu riti er frá því skýrt að eitt tonn af góðum pappír jafngildi 15 grænum trjám 30 ára gömlum eða 0.4 hekturum af skógi. Þetta virðist vera ótrúlegt þegar um það er lesið, en það mun eigi að síður vera sannleikur, enda sagt frá því í viðurkenndu alþjóðlegu riti. Allur sá pappír, sem fer árlega til ónýtis hér á landi, er á við mörg tré og stóran skóg.

Síðan till. á þskj. 294, sem nú er til umr., var lögð fram hafa margir komið að máli við mig og talið að með tillöguflutningnum sé vakin athygli á nauðsynlegu og mikilvægu máli. Áhugamaður um iðnað, sem einnig er uppfinningamaður, hefur skrifað mér um endurvinnslu málma og segir hann m.a.:

„Hér á landi falla til tugir og hundruð tonna af góðum málmi: eir, stál, kopar, blý, zink, ál, hvítmálmur. Ég undirritaður hef nokkur síðustu árin rannsakað möguleika verksmiðjuiðnaðar hér úr þessum málmum og verða því ekki gerð veruleg skil að þessu sinni, enda aðrar hliðar þessara mála mikið rannsóknarefni. Eitt af því, sem ég hef í athugun, er framleiðsla rafmagnsvíra úr úrgangi. Hér á landi eru tvær verksmiðjur sem líklega gætu annast þetta og mundu tækjakaup, sem bæta þyrfti við aðra þeirra, nema 4–5 millj. kr. Við þetta mundu sparast tugir millj. kr. í gjaldeyri og auk þess skapast mikil atvinna. Þessa athugun mína gæti ég lagt fram eftir nokkurra vikna frekari rannsókn. Benda má enn fremur á hliðstæða nýtingu annarra málma. S.l. 3 ár hef ég gert tilraunir með varahluti í bíla úr blýi. Þessum tilraunum lýk ég eftir nokkrar vikur. Ég hef kynnt mér sölu á þessu erlendis og allt það sem þarf til þess að framleiðslan sé samkeppnishæf á erlendum mörkuðum. Ég reikna með því að geta þannig flutt út blý sem fullkomlega samkeppnishæfa vöru, enda er hér um patent að ræða.“

Þetta er stuttur kafli úr bréfi áhugamannsins sem vill gera allt sem í hans valdi stendur til þess að nýta þau verðmæti sem fyrir hendi eru til hagsældar fyrir þjóðina.

Borgarstjórn Reykjavíkur gerði svofellda ályktun samhljóða á fundi borgarstjórnar 19. f. mán.:

„Borgarstjórn beinir þeim tilmælum til Alþ. að samþykkja till. til þál. frá Ingólfi Jónssyni um endurvinnsluiðnað. Jafnframt beinir borgarstjórn þeim tilmælum til ríkisstj. að hraðað verði þeirri athugun, sem till. gerir ráð fyrir, og að Reykjavíkurborg gefist kostur á að fylgjast með athuguninni.“

Það er ánægjulegt að borgarstjórn Reykjavíkur virðist hafa góðan skilning á því málefni sem hér um ræðir.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að rannsaka til hlítar það sem hér hefur verið drepið á. Safna þarf skýrslum um það sem árlega fellur til af þeim efnum sem helst koma til greina í endurvinnslu. Gera þarf áætlun um stofn- og rekstrarkostnað fyrir endurvinnsluverksmiðjur og gera sér fulla grein fyrir því hvaða vonir má binda við þennan nýja iðnað. Með till. þeirri til þál., sem hér um ræðir, er lagt til að ríkisstj. láti fara fram ítarlega athugun á því hvort tiltækilegt sé að hefja endurvinnsluiðnað hér á landi. Virðist vera eðlilegt að fela Iðnþróunarstofnun Íslands að framkvæma umrædda athugun, fremur en skipa sérstaka n. í því skyni.

Að lokum vil ég leggja til að umr. um till. verði frestað. En þar sem gera verður ráð fyrir að úthugsun sú, sem till. gerir ráð fyrir að fram fari, geti haft nokkurn kostnað í för með sér, legg ég til að málinu verði vísað til fjvn.