03.11.1975
Neðri deild: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

34. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Aðalefni þess frv. sem hér er til umr., er að undanþiggja gjafir til stjórnmálaflokka skattskyldu Ég vil taka það fram strax að við Alþb.-menn erum algerlega andvígir þessu aðalefni frv. Það er enginn vafi á því að ef þetta atriði yrði lögleitt, þá jafngildir það því að þeir, sem gefa til stjórnmálaflokka og síðan nytu skattfrelsis af þeim gjöfum, séu að gefa líklega að hálfu leyti tekjur ríkisins. Það mun láta mjög nærri að flestir verði að greiða, þegar allt kemur saman, um það bil helming af skattskyldu fé til ríkissjóðs og á þennan hátt er því í rauninni verið að finna leið til þess að gefa á kostnað ríkissjóðs. Ég tel einnig að það sé ljóst að þessi sérstöku ákvæði, sem hér er fjallað um, mundu yfirleitt ekki ná til lágtekjufólks því að annaðhvort er þar um að ræða að skattskyldar tekjur eru litlar eða engar. Þetta ákvæði næði því aðallega til þeirra sem hafa háar eða miklar tekjur.

Ég tók eftir því að hv. flm. orðaði það svo, þegar hann talaði fyrir þessu frv., að hann væri á móti því að ríkissjóður styrkti stjórnmálaflokka og sagði að hann vildi ekki láta skylda sig á þann óbeina hátt til þess að styrkja Alþb. og nefndi það sem dæmi. En ég get ekki séð annað en að þessi aðferð, sem hann stingur upp á, þræði einmitt þessa götu. Hann ætlar að láta mig og aðra, sem telja sig eiga eins tilkall til ríkissjóðs og hann, standa undir greiðslum t. d. til Sjálfstfl. með því að gefa eftir stórar upphæðir af tekjum ríkissjóðs sem yrðu gefnar á þennan sérstaka hátt t. d. til Sjálfstfl.

Í þessu frv. kemur einnig fram að flm. leggur til að stjórnmálaflokkarnir verði gerðir bókhaldsskyldir. Ég tel ekkert nema gott um það atriði að segja. Mér finnst eðlilegt að þeir séu gerðir framtalsskyldir og bókhaldsskyldir þannig að fullt eftirlit geti verið með fjárreiðum þeirra. En það felst ekki í þessu frv., heldur fylgifrv. og verður auðvitað rætt hér sérstaklega.

Það frv., sem hér er á ferðinni, er flutt að einhverju leyti í sambandi við miklar umr. sem átt hafa sér stað um fjárreiður stjórnmálaflokkanna. Ég álít að það verði ekki tekið á því máli á viðunandi hátt eftir öðrum leiðum en þeim sem við í Alþb. höfum lagt til, en á þskj. 32 flytja 3 þm. Alþb. þáltill. um, að Alþ. skipi 5 manna n. til að rannsaka fjárreiður stjórnmálaflokka svo og fjármál fyrirtækja, fasteigna og blaða sem þeim eru tengd.

Í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram um fjármál stjórnmálaflokka og ég vil ekki taka undir nema lítinn hluta af því sem þar hefur fram komið, en vegna þeirra umr. tel ég að það verði ekki komist til botns í þeim málum nema fara þessa leið: skipa rannsóknanefnd, gera úttekt á málinu, birta það opinherlega hvað út úr slíkri rannsókn kemur. Það er kjarni málsins. Hitt, að svara þessari gagnrýni með því að leggja til að þeir, sem hafa miklar tekjur og eiga að greiða skatta til ríkisins, megi gefa svo og svo mikið af sínu skattskylda fé til stjórnmálaflokkanna og gera þær gjafir skattfrjálsar um leið, það vitanlega svarar ekki á neinn hátt þeirri gagnrýni sem fram hefur komið að undanförnu í sambandi við fjárreiður stjórnmálaflokka.

Ég skal ekki fara út í umr. á breiðum grundvelli um þetta mál. Þetta frv. kemur til þeirrar n. sem ég á sæti í, og þegar það kemur úr n. gefst kostur á því að ræða málið nánar. En ég nota sem sagt tækifærið til þess að lýsa því yfir að við Alþb.- menn erum algerlega andvígir meginstefnu þessa frv. eins og hún kemur fram í 2. gr. frv.