02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

170. mál, Landhelgisgæslan

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 2. þm. Reykn. leyft mér að flytja á þskj. 354 till. til þál. um eflingu Landhelgisgæslunnar. Till. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Í sambandi við áætlun um eflingu Landhelgisgæslunnar samþ. Alþ. að skora á ríkisstj. að athugað verði sérstaklega um leigu eða kaup á einu eða tveimur hraðskreiðum skipum erlendis frá til gæslustarfa.“

Eftir að íslendingar hafa slitið stjórnmálasambandi við breta hefur deilan við þá færst mjög á nýtt stig og harðnað verulega, eins og kunnugt er. Segja má að þorskastríðið svokallaða sé einn sérkennilegasti sjóhernaður sem háður hefur verið. Báðir aðilar beita vopnuðum skipum þótt bretar hafi þar langsamlega yfirburði, en vonandi kemur ekki til að skoti verði hleypt af. Íslendingar hljóta að meta aðstöðu sína í samræmi við þetta og einbeita sér að því að finna leiðir til að koma í veg fyrir ólöglegar veiðar þeirra innan 200 mílna markanna, jafnt á hinum friðuðu svæðum sem annars staðar, með þeim tækjum, sem þeir hafa yfir að ráða, og þeim tækjum, sem þeir kunna að geta aflað sér og líklegust geta talist til árangurs.

Íslenska þjóðin veit öll og viðurkennir að starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafi unnið þrekvirki við að verja landhelgina og tefja fyrir og draga úr veiðum breta innan fiskveiðimarkanna. Hafa störf Landhelgisgæslunnar vakið alveg sérstaklega athygli vegna þess að öllum, sem til þekkja, er ljós hinn geysilegi styrkleikamunur sem er á herskipum breta, sem á Íslandsmið hafa verið send, og skipum Landhelgisgæslunnar. Verður ekki annað séð en aðeins vanti herslumuninn á að íslensku varðskipin hafi tök á að koma í veg fyrir veiðar breta á Íslandsmiðum með þeim takmarkaða skipastól sem gæslan hefur yfir að ráða. Er því mjög eðlilegt að íslendingar íhugi mjög vel með hvaða hætti aðstaða Landhelgisgæslunnar verði bætt svo að hún geti náð því marki, sem að er stefnt, að koma alveg í veg fyrir veiðar breta innan 200 mílna markanna.

Í fyrsta lagi kemur til greina að fjölga skipum gæslunnar með leigu á innlendum skipum sem til þess þykja henta. Sá galli verður að teljast á þessari leið að ekki er hér úr að velja nema skipum sem hafa minni ganghraða en bestu skip gæslunnar og mun minni ganghraða en bresku freigáturnar. Vitað er að bretar geta mætt slíkri aukningu á skipastól gæslunnar með því að senda enn fleiri herskip, sem þeir eiga nóg af, hingað á Íslandsmið og geta þeir þannig jafnað leikinn á ný með fleiri skipum frá sér, því að engin ástæða er til að ætla að þeir horfi neitt í kostnað í þessu sambandi ef þeir ætla að halda átökunum áfram. Vel má vera að sú leið gæti orðið til að torvelda bretum veiðarnar ef þeir íslenskir togarar, sem nú kunna að vera í verkföllum, yrðu sendir á veiðisvæðin til þess að hamla þar á móti yfirgangi bresku togaranna.

Önnur leið, sem einnig hefur verið mikið rædd, er sú till. sem hér er til umr. og gerir ráð fyrir aðfengið verði á leigu eða keypt erlendis frá eitt eða tvö hraðskreið skip til aukningar skipastól Landhelgisgæslunnar. Stærð og gerð slíkra skipa yrði að sjálfsögðu að ákvarðast í samráði við ráðamenn Landhelgisgæslunnar. Af þeirri reynslu, sem þegar er fengin, er auðsætt að það vopn, sem íslendingar geta beitt með mestum árangri, eru klippur varðskipanna. Telja flm. till. að ef hægt væri að útvega hraðskreið skip, og eiga flm. þá við skip sem gengju nokkru meira en bresku herskipin eða a.m.k. 35–40 sjómílur og hentuðu vel í þessu sambandi, þá mætti ná enn meiri árangri en áður með klippum varðskipanna og gæti það orðið til þess að skipstjórnarmenn á hinum bresku togurum hreinlega treystu sér ekki til að stunda veiðar hér á Íslandsmiðum við þær aðstæður. Það er þetta sem liggur á bak við flutning till. okkar hv. 2. þm. Reykn. um að sérstaklega verði athugað með leigu eða kaup á hraðskreiðum skipum erlendis frá í sambandi við eflingu Landhelgisgæslunnar.

Ég tel ekki að það þurfi langar umr. í sambandi við þessa till. því að málið var rætt hér allítarlega í síðustu viku utan dagskrárumr., en síðan þá og síðan till. var lögð fram hefur ýmislegt gerst sem þó er athyglisvert. Má þar í fyrsta lagi benda á fréttir erlendis frá um löndun breta á smáfiski, veiddum á hinum friðuðu svæðum, sem þeir hafa ekki getað selt til manneldis, en hafa látið í gúanó. Það hlýtur að vakna sú spurning hvort ekki sé rétt fyrir hæstv. ríkisstj. Íslands að koma einmitt þessu atriði mjög á framfæri við fjölmiðla erlendis. Þá má einnig geta fregna erlendis frá sem kannske má taka sem hugmynd frekar en að um raunhæfa áætlun sé að ræða, en það er fregnin um að tilteknir aðilar í Danmörku séu um þessar mundir að safna líði og ætli sér að manna eitt varðskip dönsku strandgæslunnar á Íslandsmið íslendingum til stuðnings. Auðvitað liggur á bak við þetta mjög góð hugmynd, en ég vona þó að það hendi ekki íslendinga að þar blandi sér aðrir í leikinn, en þeirra eigin landhelgisgæsla.

Ég tók eftir því í fréttum fyrir nokkru að hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson lýsti því yfir á fundi Norðurlandaráðs að ekki mundu verða teknar upp viðræður við breta fyrr en að lokinni Hafréttarráðstefnu, þ.e.a.s. þegar er komið fram í miðjan maímánuð. Það er því sjáanlegt að fram undan er örugglega tveggja mánaða barátta fyrir landhelgisgæslu okkar á þeim stöðum þar sem bretar sækja á um veiðar á Íslandsmiðum innan 200 mílna markanna. Það hlýtur því að koma mjög til athugunar hvort málin séu ekki komin á það stig að sérstaklega verði athugað einnig hvort ekki verði að létta eitthvað á starfsmönnum varðskipanna með því að skipta þar tíðar um áhafnir en gert hefur verið og aðstaða hefur verið til. Ég hygg að íslendingar allir hafi mjög fylgst með hinu ágæta starfi landhelgisgæslunnar. Þetta hlýtur því að verða mjög athugað, þar sem fyrirsjáanlegt er að enn þá komi deilan við breta til með að standa a.m.k. í mánuði áður en farið verður hugsanlega að ræða við breta um þessi mál frekar, sbr. yfirlýsingu hæstv. forsrh. Hlýtur þá að koma til sérstakrar skoðunar hvort ekki sé þörf á aðfjölga mönnum í sambandi við landhelgisgæsluna.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. En, herra forseti, ég tel að aðeins beri að skoða till. þá, sem hér er til umr., sem viljayfirlýsingu Alþ. í sambandi við áætlun ríkisstj. um eflingu Landhelgisgæslunnar og hef ég því ekki gert till. um að henni verði vísað til n., þar sem hér er aðeins um viljayfirlýsingu Alþ. að ræða, ef samþ. verður, varðandi eitt tiltekið atriði í sambandi við störf landhelgisgæslunnar og eflingu hennar, en vil leggja það á vald hæstv.forseta að ákveða hvort nauðsynlegt sé að till. verði vísað til nefndar.