02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2338 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

160. mál, virkjun Skaftár og Hverfisfljóts

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Í málefnasamningi núv. ríkisstj. er kveðið á um að framkvæmdir í orkumálum skuli sitja fyrir við ráðstöfun á því fjármagni, sem verður til fjárfestingar á þessu kjörtímabili, og horfur eru á að svo verði eitthvað lengur. Það er því mikilvægt, — ekki síst þegar svo miklu af takmörkuðu fjármagni þjóðarinnar er varið í þessu skyni, — að allar framkvæmdir verði undirbúnar sem best og jafnan verði reynt að velja hagkvæmustu leiðina. En því miður virðist slíkt ekki alltaf hafa verið gert, þar sem þörfin fyrir að hefja framkvæmdir hefur stundum verið talin svo brýn að nægur tími hefur ekki gefist til undirbúnings verkefnunum. En til þess að þannig fari ekki í þessu máli, sem hér er á dagskrá, hef ég leyft mér að flytja á þskj. 341 till. til þál. um rannsókn á möguleikum til virkjunar Skaftár og Hverfisfljóts.

Skaftá mun fljótt hafa verið nefnd í yfirlitsáætlun um stórvirkjanir á Íslandi vegna vatnsmagns hennar, en nokkrir erfiðleikar voru taldir á að fá nægilega mikið nýtanlegt fall á einum stað. Þess vegna beindist athygli þeirra, sem athuguðu þetta, að þeim möguleika að veita Skaftá vestur í Tungnaá, þar sem þá var að hefjast undirbúningur að virkjun Þjórsár og Tungnaár, og auka á þann hátt orku þeirra virkjana sem þar rísa. Í þessu skyni var efsti hlutinn af vatnasviði Skaftár mældur og kortlagður, en niðurstaðan af þessum rannsóknum sýndi að ekki var hagkvæmt eða ekki unnt að veita Skaftá í Tungnaá. Þegar það lá fyrir fóru starfsmenn Orkustofnunar að athuga nánar aðra virkjunarmöguleika og í samvinnu við þá hefur Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens nú gert drög að virkjunaráætlun fyrir Skaftá og Hverfisfljót. Þar er gert ráð fyrir að stífla útfallið á Langasjó og fá þannig mikla vatnsmiðlun þar sem möguleikar eru á a.m.k. 15 m vatnsborðsmismun. Síðan verði upptakakvíslar Skaftár stíflaðar og þeim veitt í Hverfisfljót. Hverfisfljót verði síðan stíflað og það virkjað með 350–450 m fallhæð að stöðvarhúsi neðanjarðar með frárennslisgöngum annaðhvort niður á Síðu eða Fljótshverfi. Orka slíkrar virkjunar er talin geta orðið 300–400 mw.

Hér er vitanlega aðeins um lauslega áætlun að ræða, þar sem eftir er að mæla og kortleggja stóran hluta svæðisins og fer ég því ekki að lýsa nánar þessum virkjunarhugmyndum. Hins vegar gefur þetta þó glöggt til kynna að þarna er um mikla möguleika að ræða. En auk þess sem rannsaka þarf aðstæður til virkjunar miklu nánar, þá þarf einnig að athuga hvort vatnsveitur, sem henni fylgdu, hefðu skaðlegar afleiðingar eða röskuðu gróðurfari í héraðinu. Gróðurlendi ætti ekki að neinu ráði að fara undir vatn, þar sem uppistöðulón yrði í svo mikilli hæð að þar er um lítt gróið land að ræða.

Það er augljóst að hér er um svo stóra framkvæmd að ræða að í hana verður ekki ráðist án mikils undirbúnings. En þar sem hér eru e.t.v. einhverjir hagkvæmustu virkjunarmöguleikar okkar íslendinga, þá tel ég nauðsynlegt að kanna þetta til hlítar og fá það staðfest. Þegar það liggur fyrir þarf vitanlega að gera áætlanir um á hvern hátt er hagkvæmast að nýta þessa miklu orku. Í því sambandi verði fyrst og fremst athugað hvernig hægt væri að styrkja byggðina í þessum landshluta, en eins og öllum er kunnugt er atvinnulíf á austurhluta Suðurlands mjög einhæft þar sem eingöngu er um landbúnað að ræða. Það væri því æskilegt ef þarna gæti risið þjóðhagslega hagkvæmt fyrirtæki og lyftistöng fyrir strjálbýlt hérað, og þess vegna vænti ég þess að sem fyrst verði hægt að halda áfram þessum rannsóknum.

Að lokinni þessari umr. óska ég eftir að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.