03.11.1975
Neðri deild: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

34. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson) :

Herra forseti. Ég átti auðvitað von á því, að ekki væru allir sammála um allt sem í þessu frv. er falið, og verð að segja að mér þóttu ræður beggja ræðumanna, sem hér töluðu, vera mestmegnis málefnalegar og eðlilegar. En ég verð þó að leiðrétta smámisskilningi. Um framtalsskylduna er fjallað í því máli sem hér er til umr. nú, en eingöngu bókhaldsskylduna í því máli sem væntanlega kemur hér á dagskrá á eftir. Hitt verð ég líka að segja, að mér finnst vera býsna langsótt að tala um að í frv. mínu felist það í raun og veru að ég vilji að stjórnmálaflokkarnir fari á ríkisframfærslu, eins og annar ræðumaðurinn komst að orði. Það getur ekki verið aukin ríkisframfærsla af neinu tagi þegar verið er að minnka skatta. Það er verið að draga úr skattheimtu.

Raunar sagði sá hv. þm. einnig að hann hefði flutt hér tillögu um að verkafólk í fiskiðnaði fengi frádregnar tekjur af yfirvinnu. Ekki ætlast hann til þess að það fólk verði talið á ríkisframfæri vegna þeirrar ráðstöfunar. Auðvitað er hér verið að tala um að minnka ríkisbákn, að draga úr skattheimtu. Það getur engan veginn verið túlkað þannig að það sé verið að auka ríkisframfærslu. Það vona ég að allir sjái þegar þeir skoða það niður í kjölinn.

Að því er varðar aftur spurninguna um það hverjir mundu gefa fé til stjórnmálaflokka, þá er mín skoðun sú og ég hugsa að flestir komist að þeirri niðurstöðu þegar þeir hugleiða málið öfgalaust, að það sé einmitt tiltölulega tekjulágt fólk sem munar svolítið um að gefa til sinnar hugsjónastarfsemi án þess að þurfa að borga skatta af því fé. Menn, sem gjarnan vildu styrkja sinn flokk um 5 eða 10 þús. kr. á ári og leggja að sér, en eru kannske með tiltölulega litlar tekjur, munar um nokkur þús. sem þeir þurfa að greiða í skatta af þessu fé. Ég held að auðmann muni ekki svo mikið um það hvort hann borgar skatt af fénu sem rennur til stjórnmálastarfsemi. Ég held að hann hugsi ekki eins mikið um það og sá tekjulægri.

Að því er varðar skattfrjáls fyrirtæki, að listinn yfir þau yrði enn þá lengri, þá er talað hér um 5% af skattskyldum tekjum. Þau fyrirtæki, sem ekki greiða neinn tekjuskatt, njóta auðvitað einskis góðs af þessari reglu þótt lögfest yrði, eingöngu þeir einstaklingar, sem hafa tekjur, og fyrirtæki, sem hafa tekjur. Og það má vel vera að þessi prósenta sé ekki endilega sú rétta. Kannske vilja menn lækka hana eða setja einhvers konar þak á þetta, að peningaupphæðin frá hverjum einstaklingi mætti ekki vera hærri en svo og svo mikið, ég er til viðræðu um allt slíkt. En hitt er útúrsnúningur, að það sé verið að setja flokkana á ríkisframfæri með þessum hætti, þvert á móti.

Hér var mikið rætt um að skattfrádrátturinn væri einungis til líknarstarfsemi. Það er nú ekki rétt. Það er til menningarmála og vísindastarfsemi líka. En ég held að það sé engin ástæða til þess að vera gera grín að því að menn megi leggja fé til líknarstarfsemi án þess að borga af því skatt. Mér finnst þessi regla í lögum vera heppileg og eðlileg. Og ég hugsa að allir hér inni a. m. k. séu sammála um nauðsyn þess að stjórnmálaflokkar séu til og eitthvert fé þurfa þeir að hafa til starfsemi sinnar. Er nokkuð óeðlilegt við það að fólkið fái að leggja þetta fé fram án þess að borga sérstaklega skatt af því til ríkisins? Ég held að skattheimta til ríkisins sé það mikil að það mætti gjarnan einhvers staðar lina á, og því þá ekki hér eins og á öðrum sviðum?

En ég skal sem sagt ekki tefja hér tímann með að orðlengja um þetta. Ég fagna ræðum beggja þeirra manna, sem hér hafa tekið til máls. Ég held að það sé mjög heppilegt að umr. um þetta mál fari fram. Og að því er varðar hv. þm. Lúðvík Jósepsson, þá eigum við saman sæti í fjh.- og viðskn. og ég efast ekki um að við munum reyna að ræða þetta mál þar niður í kjölinn og ég vona svo sannarlega að við getum orðið sammála um einhverja heppilega lausn.