03.03.1976
Efri deild: 70. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

182. mál, saltverksmiðja á Reykjanesi

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður tók fram í lok sinnar tölu einmitt það sem ég ætlaði að benda sérstaklega á, að mér finnst varla gæta samræmis í heiti frv. og því sem segir í 1. gr. En síðasti ræðumaður orðaði þetta réttilega, að hér er um lokaskref í þessum tilraunum að ræða að reisa tilrannaverksmiðju. En frv. heitir frv. til laga um saltverksmiðju á Reykjanesi. Hins vegar segir 1. gr.: „er hafi það markmið að kanna aðstæður til að reisa“. Hér er því ekki um neina saltverksmiðju að ræða í þeim skilningi sem mér finnst frv. bera í nafni sínu. Þess vegna finnst mér að frv. eigi að heita frv. til l. um tilraunasaltverksmiðju. Það er það sem það fjallar um að mínum skilningi. Þetta er þess vegna einn áfangi í löngum undirbúningi í rannsóknum sem stefna hingað til í rétta átt, að það komi að því að við reisum saltverksmiðju og það stóra verksmiðju. Samkv. þeim gögnum, sem fyrir liggja, verður hún meira en saltverksmiðja. Hún verður verksmiðja er skilar ýmsum öðrum þáttum í framleiðslu sem ég fer ekki hér út í, en til falla í ákveðnu hlutfalli þegar saltið er unnið og m.a. gefa okkur vonir um að mikið verðmæti skapist í því sambandi.

Um þátt ríkisins er fjallað í 4. gr. og í líð 4 segir svo: „Að veita félaginu heimildir til hagnýtingar á jarðhitaréttindum og vinnsluréttindum á Reykjanesi í eigu ríkisins.“ Nú leikur mér forvitni á að vita hvað ríkið á þarna stórt land og hvað ríkið á þarna mikil hitaréttindi og er þegar um þetta fjallað á milli einhverra eigenda eða á ríkið þetta svæði sem borað hefur verið á, ég er því ekki nógu kunnugur? En ég vil gjarnan fá upplýsingar um þetta strax því að ég á ekki sæti í iðnn., en fari svo að ríkið þurfi að semja um þessi réttindi, þá sýnist mér að talan 60 millj. muni duga skammt, ef framfylgja á þeirri stefnu sem upp kom í Svartsengi, því að ég ætla að orkubitinn hér verði allstór og þurfi stærri tölu til að kyngja heldur en þessar 60 millj. Ég vil jafnframt undirstrika skoðun okkar í Alþfl. að svona orka, sem sótt er niður jafnvel á annan km, er auðvitað eign landsmanna og engra annarra, ekki nokkurra annarra manna. Eða hvað mundu menn segja ef í 100 m fjarlægð færi að spú eldgígur sem er ekki langt frá borholum þarna og heitir Eldborg? Hver skyldi þá hemja þá orku og borga hana eða tjón af þeim eldsvoða ef upp kæmi? Þess vegna er best að allir beri sameiginlega ábyrgð og sameiginlegt tjón, sameiginlegan ávinning og sameiginlegan ábata, ef úr verður, sem ég vænti eindregið að megi vel til takast um, að saltverksmiðja komi sem fyrst. Því er ég meðmæltur frv. sem slíku, og er þakkarvert að það kom fram, en ég vildi aðeins vekja athygli á þessum þáttum efnis þess.