03.11.1975
Neðri deild: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

34. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil gjarnan taka það fram að ég er efnislega séð því sammála sem fram kom í ræðu hv. 8. landsk. þm. og kveð mér ekki hljóðs til að bæta neinu við það. En mér þótti samt rétt að vekja athygli á því að ég lít þannig á að stjórnmálaflokkar séu bókhaldsskyldir samkv. tiltölulega nýsettum bókhaldslögum, lögum frá 1968. Þeir voru það ekki samkvæmt lögunum frá 1911 sem voru orðin mjög gömul og raunar mjög stuttorð, mjög fáorð og ófullkomin. Það hafði dregist allt of lengi að setja ný bókhaldslög sem var þó gert 1968, en í 2. gr. er nákvæm upptalning á því hverjir séu bókhaldsskyldir, 5. tölul. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Félög, sjóðir og stofnanir sem hafa á hendi fjáröflun,“ — það gera stjórnmálaflokkarnir auðvitað — „fjárvörslu“ — það gera þeir líka — „eða rekstur“ — og það gera þeir líka að nokkrum hluta, — „svo sem lífeyrissjóðir, stéttarfélög, íþróttafélög, líknarstofnanir, minningar- og styrktarsjóðir“. Það er rétt hjá hv. flm. þessa frv. að hér eru stjórnmálaflokkar ekki nefndir og ég tel það síður en svo til skaða að kveða skýrt á um það, því að ég er honum algerlega sammála um að auðvitað eiga þeir að vera bókhaldsskyldir. Ég tel þá vera það og þeir hafi átt samkvæmt þessum lögum að hafa fullkomið bókhald, tvöfalt bókhald eða tvíhliða bókhald a. m. k. síðan 1968. En sem sagt, þeim mun skýrari sem ákvæðin eru, þeim mun betra, og þess vegna hef ég síður en svo nokkuð á móti því að þetta frv. nái fram að ganga. Framtalsskyldir eiga flokkarnir að sjálfsögðu einnig að vera.