04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., var lagt fram á síðasta þingi, en náði þá ekki fram að ganga. Ástæðan mun hafa verið sú, að mönnum sýndist að hér væri um kostnaðarsöm nýmæli að ræða sem út af fyrir sig væru allrar athygli verð, en meðan margt væri svo ófullkomið í skólakerfi okkar sem raun ber vitni og þá ekki hvað síst á sviði verknáms og iðnfræðslu, þá væri ekki tímabært að ráðast í þann mikla kostnað sem fylgt hefði samþykkt þessa frv.

Nú hefur þetta frv. verið endurflutt, en þó með nokkurri breytingu. Ég vil vekja athygli á þessari breytingu og lýsa því yfir hér að ég tel miklu álitlegra að samþykkja frv. í þeim búningi sem það birtist hér í, vegna þeirrar breytingar sem á því hefur verið gerð. Breytingin felst í viðaukagrein sem er 39. gr. frv., en þar segir:

„Lög þessi öðlast þegar gildi, en komi til framkvæmd þegar fé er veitt á fjörlögum til hinna ýmsu þátta fullorðinsfræðslunnar, er þau kveða á um. Þó skulu ákvæði 30. og 31. gr. l. koma til framkvæmda eigi að síður en á fjárhagsárinu 1977.“

Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að sú meginstefna, sem í frv. felst, verði lögfest, en hins vegar er gengið út frá því að markmiði laganna verði náð í áföngum og að ekki sé ráðist í þann mikla kostnað, sem fylgir framkvæmd laganna, í einni svipan, heldur er lögð áhersla á 30. og 31. gr. Þessar greinar fjalla í fyrsta lagi um fullorðinsfræðslu í formi námsflokka og námshópa, sem ríkið mun styrkja allt að 75% af sannanlegum kostnaði, og svo hins vegar fullorðinsfræðslu í formi bréfaskólakennslu, sem skal hljóta ríkisstyrk sem nemur 75% rekstrarkostnaðar og útgáfukostnaðar, eins og segir í 31. gr. frv.

Ég tel mig hafa fulla vitneskju um að Bréfaskóli Sambands ísl. samvinnufélaga og Alþýðusambands Íslands eigi í mjög miklum fjárhagskröggum um þessar mundir og að allar horfur séu á að þjónusta hans verði skorin niður allverulega ef ekki kemur til opinber tilstyrkur nú þegar, og þar sem ég tel að þar sé um að ræða mjög gæfulega starfsemi og gagnlega, sem síst megi fara nú að skera niður, þá tel ég alveg nauðsynlegt að Alþ. setji nú þegar ákvæði um styrk til þessarar starfsemi, og ákvæði um það efni er einmitt í þessu frv. sem hér er til umr. Það er alveg sérstaklega með þetta í huga sem ég vil óska eftir því við hv. menntmn. að hún taki til athugunar, hvort ekki væri hugsanlegt, að afgreiða frv. með þessari breytingu sem gerð hefur verið á því frá því að það var lagt fram í fyrra.