04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hv. 2. þm. Reykv. Ég tek alveg undir það sem hv. þm. sagði um nauðsyn þess að styðja öryrkja til þátttöku í fræðslu fullorðinna. Mér þykir trúlegt að það sé alveg rétt hjá honum að það sé eðlilegt að einmitt Endurhæfingarráð yrði beinn aðili ekki síður en stjórnir og forsvarsmenn atvinnuveganna og annarra sem um er rætt í frv. Þetta frv. er í rauninni annars vegar rammi og form fyrir fullorðinsfræðsluna í heild og ákvæði um lágmarksstuðning við ýmsa þætti hennar. Mér sýnist það fljótt á lítið mjög eðlilegt að ákvæði um Endurhæfingarráð verði bætt þarna inn í. Einmitt þessi þörf sem einatt verður — vegna heilsubrests meðal annars — á því að afla sér menntunar til þess að takast á hendur ný störf, hún hlýtur að vera alveg sérstaklega almenn meðal öryrkja.

Hv. þm. vek aðeins að endurskoðun löggjafar um framhaldsskólastigið. Í höfuðatriðum er ég honum alveg sammála. Menn vilja sjálfsagt velta því mjög fyrir sér að vísu, áður en horfið er að því að stytta skólaskylduna. En um hitt virðast menn nú vera orðnir sammála yfirleitt, að það sé næsta brýn nauðsyn að auka tengsl skólafólksins á hinni löngu skólagöngu, hvort sem hún er einu ári eða tveimur lengri eða skemmri, — auka tengst þessa fólks við atvinnulífið og við það starf sem unnið er í þjóðfélaginu utan veggja skólanna, já, og um leið má segja utan veggja eða marka heimilanna, eins og nú er komið, því að þau eru ekki lengur þær atvinnustöðvar sem þau áður voru. Ég held hins vegar að í þessum efnum hljótum við að verða að fara okkur gætilega og það af mörgum ástæðum sem ég ætla ekki að fara að eyða tíma í að rekja hér. Það hafa sagt mér ýmsir skólamenn sem fylgjast betur með því, sem skrifað er og talað um skólamál í nálægum löndum heldur en ég hef gert á undanförnum árum, — þeir hafa sagt mér einmitt það sama og fram kom í ræðu hv. þm., að í þeim löndum, þar sem skólaskyldan hefur verið gerð lengst og hléin að sumrinu eru nánast aðeins sumarfrí, þar séu menn mjög alvarlega og í vaxandi mæli að gera sér grein fyrir því að þessi þróun er ekki æskileg. Það er því óhapp sem ætti að vera óþarfi fyrir okkur að láta henda hér, einmitt á þessu landi. En vel má vera að við höfum þegar farið helst til langt í þessu efni.

Það hefur komið fram, bæði í umr. hér og í ábendingum út af þessu frv., sem hafa komið fram utan þings, að það væri æskilegra að tengja fullorðinsfræðsluna og skipan hennar meira og betur við sjálft skólakerfið í landinu heldur en hugsað er í þessu frv. Menn segja: Þarna er stefnt að því að koma upp sérstöku kerfi utan við hið almenna skólakerfi, en það ætti að vera óþarfi. Það er heppilegra að tengja fræðslu fullorðinna enn betur og nánar við sjálft skólakerfið og við þær skólastofnanir sem fyrir eru í landinu. Þetta eru ábendingar sem er eðlilegt að menn gefi gaum að og velti fyrir sér. Og ég hygg að þegar sjást þau drög sem væntanleg eru frá framhaldsskólanefndinni, þá verði einmitt sérstaklega eðlilegt að taka þetta atriði til skoðunar, alveg sérstaklega.

Ég vil svo bara árétta það sem ég ætla að hafi komið fram í framsöguræðu minni, að tilgangur minn með flutningi þessa frv. núna í lítið breyttri mynd frá því sem það áður var lagt fram er ekki sá að fá á þessu yfirgripsmikla máli hraðafgreiðslu í nokkru formi, heldur að hv. Alþ. taki málið til meðferðar og ef unnt þykir eftir ítarlega skoðun nú og áður að þoka fram einstökum þáttum. Og ef fært þykir að afgreiða málið í heild svona í eitthvað líkri mynd og það er lagt fram, þá teldi ég það mikils virði. En jafnvel þó að svo færi ekki, þá álít ég það líka nokkurs virði að þetta mál sé til skoðunar hjá hv. Alþ. og annars staðar samhliða annarri þeirri endurskoðun á menntakerfinu sem fram fer um þessar mundir.