04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Flm (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Við flytjum á þskj. 398, hv. þm. Ragnar Arnalds, Helgi F. Seljan, Geir Gunnarsson og ég, frv. til l. um sérstakan toll á vörum frá Bretlandi. Ég vil lesa frv.

„1. gr. Af öllum vörum, sem fluttar eru til landsins frá Bretlandi, skal greiða sérstakt gjald er nemi 25% af því verði vörurnar, sem tollur er lagður á sbr. 2. gr.

2. gr. Um álagningu gjaldsins gilda reglur laga um tollskrá o.fl.

3. gr. Gjald þetta renni í Landhelgissjóð.

4. gr. Ríkisstj. er heimilt að fella niður þetta sérstaka gjald er bretar hafa viðurkennt 200 sjómílna efnahagslögsögu íslendinga á orði og á borði.

5. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Nú það skal tekið fram nú þegar, að mér varð á skyssa við endanlega hreinskrift uppkastsins að þessu frv., og hún var sú að setja þar ekki inn sérstaka grein með ákvæði um að ekki mætti leggja verslunarálagningu ofan á þann sérstaka toll sem hér um ræðir og á að renna óskiptur í Landhelgissjóð. Þessi skyssa var því alvarlegri sem aðild a.m.k. eins félaga míns, ef ekki fleiri að flutningi frv. var bundin því skilyrði að kveðið yrði á um þetta, sem ég er einnig sammála. Á þessa aths. ber að líta sem munnlega brtt. sem lögð verður fram skriflega á eftir til leiðréttingar á frv.

Ég ætla að lesa grg. með frv.:

„Ljóst er að landsmenn þurfa á næstu mánuðum að takast á herðar þungar efnahagslegar byrðar til þess að standa straum af eflingu landhelgisgæslunnar, samtímis því sem þeir sæta áníðslu af hálfu breta á ofveidda fiskstofna og hernaðarofbeldi í ofanálag. Þá er hitt ótalið, að við höfum lækkað innflutningstolla á breskum varningi samkvæmt sérstökum samningi við Efnahagsbandalag Evrópu, sem bretar eru aðilar að, og skyldum njóta sams konar kjara varðandi útflutningsvörur okkar til ríkja Efnahagsbandalagsins, sem þó hefur ekki orðið um aðalútflutningsvörur okkar, sjávarafurðir, beinlínis vegna aðgerða breta. Vöruskiptajöfnuður okkar við breta hefur verið svo óhagstæður á liðnum árum að til óskapa má telja. Þannig nam innflutningur okkar frá Bretlandi 8 milljörðum og 7 millj. kr. árið sem leið, en útflutningur okkar þangað aðeins 4.7 milljörðum.

Ef miðað er við innflutning okkar frá Bretlandi í fyrra mundi gjald það, sem ráðgert er í frv. þessu, nema hvorki meira né minna en 2 milljörðum kr. Hins vegar er ljóst að tollur af þessu tagi mundi beina viðskiptum okkar inn á aðra markaði að verulegu leyti, en slíkt hlýtur að teljast æskilegt eins og nú er að okkur búið af breta hálfu. Hefði raunar verið sæmst að dómi fim. að leggja algjört bann við verslunarviðskiptum við Stóra-Bretland, ef ekki hefði leitt af slíkri ráðstöfun vandræði fyrir ýmsa sem lítið hafa til slíks unnið, og þá fyrst og fremst í sambandi við kaup á varahlutum í ýmsar vélar. Aftur á móti þykir eðlilegt, að þeir landsmenn, sem fyrir einhverjar sakir kjósa að halda áfram að kaupa breskar vörur við núverandi aðstæður, verði látnir minnast landhelgisgæslunnar sérstaklega í því sambandi.“

Það kæmi mér ekki á óvart þótt frv. þessu yrði andmælt á þeim forsendum að við séum að svo miklu leyti háðir innflutningi frá Bretlandseyjum, að svo margir þegnar séu beinlínis bundnir vörukaupum þaðan, að ósanngjarnt sé að skattleggja þá sérstaklega til stuðnings landhelgisgæslunni.

Í grg. með frv. segjum við flm., eins og ég las áðan, að það hefði verið að okkar dómi sæmst að leggja algjört bann við innflutningi þaðan, eins og nú er ástatt, en með sérstöku tilliti til þeirra, sem hafa keypt breskar vélar og þurfa varahluti í þær, teljum við að þessi sérstaki tollur sé æskilegri ráðstöfun, en eðlilegt sé aftur á móti að þeir, sem vilja halda áfram að kaupa ferskar vörur, verði látnir minnast landhelgisgæslunnar í því sambandi. Þetta á raunar einnig við um þá sem þurfa beinlinís að kaupa varahluti í breskar vélar. Við eigum í styrjöld við breta. Við höfum átt í stöðugum átökum við þá allar götur frá 19.58, að við færðum fiskveiðilögsöguna út í 12 sjómílur. Til sanns vegar mætti jafnvel færa að við höfum átt í deilum við þá, allsnörpum, allar götur síðan við færðum út í 4 sjómílur frá grunnlinum samkv. lögum frá 1948 og bretar settu höft við íslenskum innflutningi. Það verður að teljast mjög svo óeðlilegt að við skulum ekki hafa beint viðskiptum okkar gagngert til annarra landa allar götur síðan. Það verður að teljast óeðlilegt að íslenskir innflytjendur skuli ekki hafa leitað fanga fremur í öðrum löndum síðasta aldarfjórðunginn, eins og samskiptum okkar við breta hefur verið háttað, og svo að við göngum enn þá lengra í skilgreiningunni á siðferðilegri hlið utanríkisviðskipta okkar og þeirri pólitísku, þá bera tölur Hagstofunnar, sem nefndar eru í grg. með þessu frv., vægast sagt vott um nokkurn slappleik af hálfu almennings á landi hér, ef tekið er tillit til þess atlætis sem við höfum sætt í meira en aldarfjórðung af valdsmönnum Stóra-Bretlands. Ég er þeirrar skoðunar að það sé tími til kominn að allur almenningur fái að gera sér grein fyrir því við vöruval, hverjir eru vinir okkar og hverjir ekki, og láti sér þetta mál að kenningu verða.

Nú er svo komið að allur þorri fólks finnur meira til þess en áður á þessu aldarfjórðungsskeiði hvernig þjóðarhagur og þar með hagur hvers einstaklings er tengdur fiskveiðum. Flest skyniborið fólk gerir sér nú grein fyrir því að eyðilegging fiskíslóðarinnar við landið mundi kalla neyð yfir alþýðu manna. Það má vera að stöku aðili í hópi innflytjenda trúi svo á mátt sinn og megin að hann ímyndi sér að honum prívat og persónulega muni takast að lifa góðu lífi þrátt fyrir þetta. Það má vera, en þó vil ég nú ekki trúa því að nokkur ímyndi sér slíkt. Ég vil ekki heldur trúa því að hagsmunir innflytjenda muni ráða nokkru um afstöðu hv. þm. til þessa máls. Það hefur orðið talsverð breyting á viðhorfi síðan á haustmánuðunum 1959, þegar við stóðum í stríði við bresk herskip innan 12 mílna markanna okkar og sá atburður varð á þingi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að fulltrúar tveggja ónefndra stjórnmálaflokka, sem nú eru tveir ónefndir stjórnmálaflokkar, báru fram till. þar sem lýst var yfir því að landhelgismálið væri kjörum opinberra starfsmanna óviðkomandi og því bæri ekki að gera neinar neinar samþykktir um það á þingi BSRB — og fengu till. samþykkta.

Ég vék áðan sérstaklega að málefnum þeirra manna, sem þurfa að flytja inn varahluti í framleiðsluvélar, í aflvélar eða bifreiðar frá Bretlandi og tilgreindi hagsmuni þeirra sem meginástæðuna fyrir því að við félagar, sem stöndum að þessu lagafrv., leggjum ekki beinlínis til að innflutningur frá Stóra-Bretlandi verði bannaður. Það eru hagsmunir þessara aðila sem hafa keypt breskar vélar, — ég vil ekki nota orðið „glæpst“ til að kaupa breskar vélar, þ. á m. framleiðsluvélar, og þurfa að fá keypta varahluti í þær. Ég er þeirrar skoðunar að einnig þeir, sem eiga breskar vélar, dráttarvélar, aflvélar í bátum og bifreiðum, eigi að greiða þennan sérstaka toll af vörum frá Bretlandi. En samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar nemur innflutningur á varahlutum í hvers konar hreyfla og í bíla sáralitlum hluta af þessum 8 milljörðum sem hér um ræðir. Samkvæmt þessum upplýsingum Hagstofunnar voru fluttir inn varahlutir í hvers konar hreyfla, hreyfla í dráttarvélum, bilum skipum, fyrir 66 millj. kr. árið sem leið frá Bretlandi, og er það sáralítill hluti af 8 milljarða innflutningi. Aðrir varahlutir í bila fluttir inn frá Bretlandi námu 103.4 millj. kr. eða þessir varahlutir samtals 169.4 millj. kr. af 8 milljarða innflutningi.

Ég ítreka það enn, að ég er þeirrar skoðunar að þeir, sem eiga breskar vélar, hafa keypt þær og þurfa á varahlutum að halda í þær, þeir megi þakka fyrir að fá þessa varahluti við núverandi aðstæður með því að greiða 25% toll til Landhelgissjóðs í því sambandi. Aftur á móti þó að tollur væri felldur niður af varahlutum í hreyfla í framleiðsluvélum okkar, gerð yrði undanþága með tolla af þessum varahlutum, þá myndi sú upphæð nema sáralitlu. Eigi að síður gætum við fengið með þessum hætti, miðað við óbreyttan innflutning frá Bretlandi frá því sem hann var í fyrra, allt að því 2 milljarða í Landhelgissjóð.