04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mér finnst ekkert óeðlilegt þó að svona frv. komi fram. Þegar við áttum í deilu við þjóðverja kom fram frv. um hækkun á innflutningsgjöldum á þýskar vörur, og þetta er ekki óeðlilegt. En hins vegar verðum við að sjálfsögðu að hugsa hlutina til enda, t.d. hvaða áhrif þessi vöruhækkun hefur á okkur hér innanlands. Hvað þýðir þetta fyrir okkar vísitölu og hvað þýðir þetta á ýmsum öðrum sviðum? Og þá hugsa ég þetta ekki frá sjónarmiði innflytjenda, eins og flm. gat um, heldur frá sjónarmiði neytenda og þetta eru hlutir, sem e.t.v. mætti gera ráð fyrir. Slík gífurleg hækkun á vörum mætti ekki hafa allt of viðtæk áhrif í okkar þjóðfélagi önnur en að gefa okkur peninga í Landhelgissjóð og lýsa óánægju okkar með framferði breta.

En ástæðan til að ég kom hér upp er sú, að mig langar til að vekja athygli n., sem fær þetta mál til meðferðar, á þeirri staðreynd að þær vörur, sem keyptar eru frá þeim ríkjum sem kaupa mest af okkar fiskafurðum og fyrir hagstæðast verð, þær eru ekki samkeppnisfærar við enskar vörur, m.a. vegna þess af þeim eru borgaðir hærri tollar. Lága verðið á flugskýlinu frá Bretlandi byggist mjög líklega á því, að þeir kæmu til með að borga af því lægri tolla en t.d. ef flytja ætti flugskýlið inn frá Bandaríkjunum. Þetta er náttúrlega algjör óhæfa, en vafalaust er þetta í sambandi við samninga okkar við Evrópuríki.

Ég held að nú sé svo langt gengið í þessum efnum að við verðum að taka til fullrar athugunar hvort það er sanngjarnt að þær þjóðir, sem kaupa mest af okkar afurðum og fyrir hagstæðast verð, njóti ekki bestu kjara í innflutningsviðskiptum við okkur.