04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (1967)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Flm. (Stefán Jónsson):

Ég tek hér til máls í þriðja sinn og með því á víst að fylgja að hér verði aðeins um örstutta athugasemd að ræða.

Ég ítreka það enn sem ég sagði áður, að mér dylst það ekki að 25% tollur á breskar vörur mundi að sjálfsögðu beina innkaupum okkar til annarra landa, enda, eins og segir í grg., teljum við flm. slíkt æskilegt eins og nú er í pottinn búið.

Hv. þm. Albert Guðmundsson spurði í fyrri ræðu sinni með hvaða hætti við ætluðumst til þess að við gætum selt vörur okkar í Bretlandi fyrir röska 4 milljarða ef við settum innflutningsbann á breskar vörur hingað til okkar. Sannleikurinn er náttúrlega sá, að þegar hefur verið loku fyrir það skotið að við getum selt ísfiskinn okkar í Bretlandi, okkar aðalverslunarvöru þar, auk þess sem við segjum, eins og stendur í fyrrnefndri grg. sem ég tortryggi hv. þm. um að hafa lesið enn þá, a.m.k. ekki með neinum skilningi, — auk þess sem á það er bent að komið hefur verið í veg fyrir það að við njótum eðlilegra viðskiptakjara í Bretlandi, enda þótt við höfum haldið okkar ákvæði í samningi okkar við Efnahagsbandalagið um lækkun á tollum á vörum þaðan.

Ég varð þess ekki var að hv. þm. Steingrímur Hermannsson bæri okkur flm. á brýn að við vildum gera landhelgismálið að féþúfu, þótt hv. þm. Albert Guðmundsson virtist leggja þann skilning í orð hans. Við viljum alls ekki gera landhelgismálið að féþúfu. Við viljum að við sýnum það í viðskiptum okkar, m.a. í vöruinnkaupum okkar, að okkur sé þetta mál nokkur alvara, og við gerum okkur grein fyrir því hvað hér er í húfi og að hugsanlegir hagsmunir einstakra innflytjenda fái ekki lengur að lama okkur í þessu máli. Féþúfa, sagði Albert Guðmundsson, hv. þm., með fyrirlitningu. Þetta orkaði á mig eins og hann væri að afneita sjálfu föðurlandi sínu.