04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2369 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. að neinu mauki. Ég tel eðlilegt að þessi till., svo sem aðrar till. hér, fari til n. og fái þinglega meðferð og menn geti þá gert það upp við sig, þegar þar að kemur, hvernig þeir bregðast við henni. Þess vegna ætla ég ekki að gera till. að sérstöku umtalsefni. En mig langar bara til þess að rifja það upp í sambandi við ræðu síðasta hv. ræðumanns að þeir samningar við Efnahagsbandalag Evrópu, sem hann vitnar til, voru gerðir í tíð fyrrv. ríkisstj. og í þeim samningum var margumrædd bókun 6 á allra vitorði, ríkisstj. sem annarra. Það var sem sagt skilyrði frá Efnahagsbandalaginu til þess að tollalækkun á sjávarafurðum kæmi til greina að samkomulag, viðhlítandi samkomulag, held ég að hafi verið orðað, í fiskveiðideilu þeirri, sem þá stóð yfir, hefði náðst.

Það má vel vera að menn séu þeirrar skoðunar að þessum samningum beri að segja upp. En meðan það er ekki gert af Alþ. eða ríkisstj., þá tel ég að ríkisstj., hver sem hún er, verði að standa við þá milliríkjasamninga, sem gerðir hafa verið, þótt í tíð annarrar ríkisstj. hafi verið. Þess vegna var ég samþykkur því fyrir mitt leyti að halda áfram með þessa tollalækkun, að ég taldi það skuldbindingu, og ég verð að leyfa mér að vona að þessi landhelgisdeila taki enda og að við förum þá að njóta lækkaðra tolla í Efnahagsbandalagslöndunum og það geti orðið framkvæmt þannig, sem ég vona a.m.k., tollalækkunin geti orðið á þann veg að hún verði jafnmikil og hún hefði verið ef tollalækkunin hefði allan tímann verið í gildi, en það er náttúrlega mjög mikið atriði fyrir okkur og við verðum að leggja höfuðáherslu á það í áframhaldandi samningum ef einhverjir verða. Ég er ekki svo svartsýnn að halda að landhelgisdeilan standi að eilífu og alls ekki mjög lengi heldur. Ég hef fyllstu trú á því að við séum að hafa þetta landhelgismál í höfn, ef ekki fyrr, þá a.m.k. á Hafréttarráðstefnu, og þá kemur til kasta Efnahagsbandalagsins að standa við þá samninga sem voru undirritaðir af mér fyrir hönd ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar og gerðir höfðu verið af viðskrn. þáv. stjórnar undir forustu hv. þm.Lúðvíks Jósepssonar.

Ég sem sagt treysti því að þegar sá tími rennur upp, sem vonandi verður bráðlega, þá takist ríkisstj. Íslands, hver sem hún verður, að fá samningana við Efnahagsbandalagið þannig framkvæmda að tollalækkanirnar verði þá jafnmiklar og þær hefðu verið miðað við að samningarnir hefðu verið í gildi allan tímann. — Ég vildi aðeins upplýsa þetta, herra forseti.