04.03.1976
Efri deild: 71. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2370 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

155. mál, fullorðinsfræðsla

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég veit ekki hvað það er langur tími sem fer í örstutta atbugasemd, en til mín hefur verið beint spurningum og einnig talsverðum ásökunum sem ég hafði haldið að forseta bæri að víta. Ég vil þó ekki svara þeim ásökunum á annan hátt. (Forseti: Ég vil taka fram að það er í þingsköpum að þegar hv. þm. hefur talað tvisvar, þá hefur hann ekki leyfi til þess að tala oftar nema forseti veiti honum leyfi til að gera örstutta athugasemd.) Já, forseti lætur mig þá vita hvenær hann vill að ég fari úr ræðustólnum. En þegar þm. er borinn þeim ásökunum að hann sé í ræðuhöldum í þessari hv. d. að afneita sínu föðurlandi, þá tel ég það ásökun sem ég lít á sem vítaverða.

Ég ítreka það að ég álít að þessi till. sé vanhugsuð, vegna þess að hún kemur, eins og hún segir sjálf, fram vegna landhelgismálsins eingöngu og á að falla niður þegar bretar hafa viðurkennt 200 sjómílna efnahagslögsögu íslendinga í orði og á borði.

Ég lít enn þá og mun halda áfram að líta á þessa till. sem flutta eingöngu til þess að skapa stigvaxandi deilu við breta. Það kemur mér ekki á óvart úr þessari átt.

Spurningu þeirri, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. beindi til mín, hefur nú verið svarað að mestu leyti á þann hátt sem ég hefði sjálfur gert, þó að vísu í fyllra máli af hæstv. ráðh., en ég vil þó bæta því við sem skoðun minni, að ég hefði ekki greitt því atkv. að lækka hér aðflutningsgjöld á sama tíma sem Efnahagsbandalagið gerir það ekki. Ég hefði viljað láta það haldast í hendur. Það er mín persónulega afstaða, en ekki sú afstaða sem ríkisstj. tók, þrátt fyrir það að ég hafi ekki greitt atkv. gegn því á sínum tíma vegna þess að ríkisstj. taldi sig bundna, eins og hæstv. ráðh. skýrði frá, af samþykkt fyrrv. ríkisstj., því miður.