04.03.1976
Neðri deild: 73. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2381 í B-deild Alþingistíðinda. (1987)

172. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fyrir hv. Nd. um rannsóknarlögreglu ríkisins, er samið af n. sem ég skipaði í okt. 1972 til að endurskoða dómstólakerfi landsins á héraðsdómsstiginu og gera till. um hvernig breyta mætti reglum um málsmeðferð í héraði til að afgreiðsla mála yrði hraðari. Í grg. með frv. segir hverjir voru skipaðir í þessa n. og hafa starfað þar, en það eru menn með mjög fjölbreytta reynslu á þessu sviði. Það eru þeir Björn Fr. Björnsson sýslumaður, sem ég hygg, að sé elsti starfandi sýslumaður í embætti hér á landi nú, var auk þess formaður Dómarafélagsins eða Sýslumannafélagsins þegar n. var skipuð. Það er í öðru lagi Sigurgeir Jónsson bæjarfógeti í Kópavogi sem hefur að baki mjög langa reynslu við embættisstörf í einum stærsta kaupstað landsins, en hafði auk þess áður starfað í dómsmrn. Það er í þriðja lagi Björn Sveinbjörnsson hæstaréttardómari, sem er formaður n., en hann hefur að baki langa reynslu bæði í dómarastörfum og sem lögmaður. Og í fjórða lagi er það Þór Vilhjálmsson, nýskipaður hæstaréttardómari, sem hefur að baki allanga reynslu í dómarastörfum við borgardóminn hér í Reykjavík, en hefur auk þess gegnt dósentsembætti og prófessorsembætti um allmörg ár og kennslugrein hans hefur einmitt verið réttarfar. Ég tel því að hjá þessari n. sé saman komin mjög viðtæk þekking og reynsla varðandi það málefni sem n. var falið að fjalla um.

Nefndin hefur unnið mikið undirbúningsstarf að hinu umfangsmikla verkefni sínu og er þess vænst að innan tíðar og hugsanlega á þessu. þingi verði unnt að leggja fram í lagafrv. till. n. um höfuðverkefni hennar, þ.e.a.s. endurbætur á dómskólakerfi landsins á héraðsdómsstiginu. Ég get búist við að um þær till. verði skiptar skoðanir. Umdæmaskipting landsins, sem bundin er við þau embætti sem hér er um að tefla, er orðin ákaflega gömul og á sér djúpar rætur. Ég get þess vegna búist við því að menn verði nokkuð fastheldnir á þá umdæmaskiptingu. Hins vegar segir heilbrigð skynsemi okkur að það er ekki hægt að loka augunum fyrir því að það hafa orðið umfangsmiklar breytingar í þessu þjóðfélagi frá því að þessi umdæmaskipun komst á og að hún er í ýmsum tilfellum þannig að hún svarar ekki til þeirra þarfa sem nú eru fyrir hendi á þessu sviði. Ég hygg að hér verði að reyna að brjóta upp á nýrri leið til að leysa þetta mál. En það er ekki ástæða til að fara að ræða það á þessu stigi þar sem það liggur ekki hér fyrir. Það er þá fyrst tímabært að ræða þær till. þegar þær hafa séð dagsins ljós og verða lagðar fyrir hv. Alþingi.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er aðeins fjallað um afmarkaðan þátt málsmeðferðar í opinberum málum. N. taldi efni þess svo skýrt afmarkað að unnt væri að ljúka fyrr meðferð þessa mikilvæga málefnis með því að greina það frá öðrum verkefnum sem n. vinnur að.

Það má segja að flutningur frv. í þessa átt eigi sér nokkuð langan aðdraganda þótt ekki hafi það áður verið borið fram með því nafni sem það nú hefur, þ.e. um rannsóknarlögreglu ríkisins. Með frv. til l. um meðferð opinberra mála, sem lagt var fyrir Alþ. árið 1948, var stefnt að mjög umfangsmikilli endurnýjun á réttarfari í opinberum málum. Var með því frv. ráðgert að ákæruvaldið skyldi fengið sérstökum embættismanni, saksóknara ríkisins. Einnig var gert ráð fyrir því að sérstakur embættismaður, rannsóknarstjóri, er lyti saksóknara ríkisins, skyldi taka við yfirstjórn rannsóknarlögreglu í Reykjavík, en einnig skyldi hann fjalla um rannsóknir mála annars staðar á landinu þegar saksóknari teldi þess þörf. Þessar till, náðu ekki fram að ganga, fyrst og fremst af kostnaðarástæðum vegna hinnar fyrirhuguðu embættaskipunar. Réttarfarsbálkurinn var síðan lögtekinn 1951, en hin nýja embættaskipan, sem sérstakt frv. fjallaði um, fékk ekki framgang. embætti saksóknara ríkisins fékkst fyrst stofnað 10 árum síðar, árið 1961.

Í lagafrv., sem lagt var fyrir Alþ. 1969–1970 á grundvelli þál. frá 1968, var ráðgert að stofnað yrði embætti rannsóknarstjóra er lyti lögreglustjóra í Reykjavík og skyldi stýra lögreglurannsókn brotamála og fara með stjórn rannsóknarlögreglu. Verkefni við framkvæmd sérstakra þátta löggæslu eða lögreglurannsókna utan Reykjavíkur mátti einnig fela þessum aðilum. Frv. þetta. náði ekki fram að ganga.

Ýmsar ástæður hafa valdið því hve treglega hefur gengið að afla stuðnings við þá nýskipan á stjórn rannsóknarlögreglu sem greint hefur verið frá. Hafa kostnaðarsjónarmið ráðið mestu, þótt fleira hafi komið til. Í grg. þessa frv. er bent á nokkur atriði hinna áformuðu breytinga sem valda því að frv. horfir engan veginn alfarið til aukins kostnaðar. Telja höfundar frv. jafnvel ekki víst að stofnun rannsóknarlögreglu ríkisins í þeirri mynd, sem frv. gerir ráð fyrir, hefði í för með sér aukinn kostnað. Ég skal hins vegar hreinskilnislega játa að ég tel líklegra að af breytingum þessum muni leiða aukinn kostnað, sérstaklega við þá þróun málsmeðferðar sem af breytingunum mun leiða. Ég tel hins vegar ekki áhorfsmál að leita beri lögfestingar á hinum fyrirhuguðu skipulagsbreytingum á rannsóknarmeðferð opinberra mála þar sem með þeim yrði stigið markvert spor í átt til nýtískulegri hátta í réttarfarslegri meðferð opinberra mála og til hagkvæmari og skjótvirkari vinnubragða við rannsóknir mála.

Höfuðþættir frv. eru tveir. Með stofnun rannsóknarlögreglu ríkisins skapast betri möguleikar en áður á að beina sérhæfðum starfskröftum sérfróðra rannsóknarmanna að meðferð þeirra mála sérstaklega, bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu. Mestu varðaði að hinir færustu menn, jafnvel í sérgreindum verkefnum, gætu þegar á frumstigi rannsókna verið til taks, bæði til sjálfstæðrar rannsóknar á vandasömum málum og til stuðnings starfsfélögum við önnur lögreglustjóraembætti.

Mér þykir rétt að benda á það að þegar sagt er í 1. gr. frv. að rannsóknarlögregla ríkisins lúti yfirstjórn dómsmrh., þá er þar að sjálfsögðu átt við embættislega yfirstjórn, en um rannsóknir mála ber rannsóknarlögreglustjóra eins og öðrum lögreglustjórum nú að hlíta fyrirmælum ríkissaksóknara samkv. réttarfarslögum.

Hinn höfuðþáttur frv. þessa er að með því er yfirsakadómarinn í Reykjavík leystur frá því að vera yfirmaður rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík. Er með því stigið markvert spor í átt til þess að skilja að dómsvald og rannsóknarstjórn í opinberum málum og með því enn stigið spor í átt frá hinu forna rannsóknarréttarfari til ákæruréttarfars. Þótt dómarar utan Reykjavíkur yrðu áfram stjórnendur lögreglumanna mundi þátttaka rannsóknalögreglu ríkisins í meðferð hinna veigameiri málsrannsókna einnig þar stuðla að því að dómararnir stæðu nokkru meira en nú er utan við rannsóknarstjórnina.

Eins og ég sagði áðan á mál þetta nokkuð langa forsögu. Er í sjálfu sér eðlilegt að öll slík þróun taki sinn tíma, ekki síst í okkar landi þar sem svo mjög þarf að gæta þess vegna fámennis að reisa sér ekki hurðarás um öxl. Ég tel þó víst að hv. alþm. ættu að geta fallist á að tímabært sé að fljótlega verði enn eitt skref stigið til úrbóta á dómsmálakerfi landsins, og mér býður í grun að miðað við það, hve takmörkuð sú umbreyting þó er, sem hér er fyrirhuguð, muni hún geta valdið meiri straumhvörfum í meðferð opinberra mála en auðvelt er að þreifa á fyrir fram.

Það hefur nokkuð borið á gagnrýni á meðferð dómsmálayfirvalda og lögreglu varðandi rannsókn mála. Það er út af fyrir sig ekki ný bóla. Sjálfsagt er sú gagnrýni í ýmsum tilfellum á rökum reist, en hins vegar getur verið að hún sé stundum nokkuð úr lausu lofti gripin og stundum getur hún e.t.v. stafað af misskilningi og nokkurri vanþekkingu á því hvernig meðferð þessara mála er háttað. Það er auðvitað svo að það er jafnan manna á milli í gangi umtal um það að eitthvert ímyndað eða raunverulegt misferli hafi átt sér stað, einhver ímynduð eða raunveruleg afbrot hafi verið framin. Þá er oft fundið að því að það skorti á frumkvæði af hálfu dómsyfirvalda og lögreglu að skerast hér í leikinn. Ég held að oft geti verið erfitt fyrir dómsyfirvöld og lögreglu að fara eftir slíkum sögusögnum. Ég er hræddur um að það þætti oft og tíðum vera nokkuð mikil hnýsni sem í því fælist um einkahagi manna. Ég efast um að því yrði alltaf vel tekið.

Ég ætla að vona að við hér á Íslandi lífum aldrei þá tíð að hér risi lögregluríki, heldur réttarríki, þó að við verðum þá jafnframt að þola það að nokkur seinagangur geti fylgt afgreiðslu mála. En eins og ég sagði áðan, þá held ég að sú gagnrýni, sem fram er borin, eins og ég sagði líka oft sjálfsagt með rökum, sé einnig oft á vanþekkingu byggð.

Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að almenningur eða jafnvel hv. alþm. geti farið að lesa langar bækur um réttarfar og kynna sér hvernig þessum málum er fyrir komið og hefur verið fyrir komið. En ég get bent mönnum á ákaflega stutta og glögga grein um þetta efni að mínu mati, og það er grein sem Bjarni heitinn Benediktsson skrifaði á sínum tíma um ákæruvaldið í tímaritið Úlfljót, tímarit laganema, árið 1955. Auðvitað hefur sú breyting orðið á síðan sú grein var rituð, að saksóknari er kominn til sögunnar og ákæruvaldið ekki lengur að neinu leyti í höndum dómsmrh. eða dómsmrn. En að breyttu breytanda held ég að sú lýsing, sem þar er gefin í mjög stuttu máli, geti veitt nokkurn fróðleik um það hvernig meðferð þessara mála er og hefur verið oftast. Ég held líka að margar skynsamlegar athugasemdir, sem greinarhöfundur gerir varðandi þetta efni, séu enn í fullu gildi og þær eru m.a. áreiðanlega byggðar á allangri reynslu hans þá sem dómsmrh. Ég býst við því að það, sem hann segir m.a. um ákæruvaldið og saksóknaraembættið í því sambandi, eigi nokkurt erindi til manna og að það hafi sýnt sig að hann sá þar nokkuð rétt, þó að flestir eða allir kannske séu sammála um að með stofnun saksóknaraembættisins hafi verið stigið spor í rétta átt.

En hvað sem um það er, þá er það leiðinleg staðreynd, sem við verðum að horfast í augu við, að afbrotum hefur fjölgað hér á landi síðustu árin. Ég held að til þess liggi ýmsar og mismunandi ástæður. Ég held t.d. að á þeim árum hafi komið til tiltölulega nýtt vandamát sem menn þekktu ekki áður. Það eru fíkniefnin, smygl á þeim og þau afbrot sem unnin eru í sambandi við þau og undir áhrifum þeirra. Þetta var sem betur fer óþekkt áður.

Þá er það einnig svo, að því miður á sjálfsagt vaxandi áfengisþamb okkar íslendinga sinn þátt í ýmsum þeim afbrotum sem unnin eru, ekki síst ofbeldis- og hryðjuverkum og slysum sem þar hljótast einatt af.

Þjóðfélagið hefur líka tekið margvíslegum breytingum á síðustu árum. Það er orðið umfangsmeira. Ýmiss konar viðskiptastarfsemi hefur vaxið, og það er rétt, að í sambandi við það hafa skotið upp kollinum sjálfsagt meiri fjársvikamál en áður og lítt þekktar tegundir af þeim, eins og t d. það óskaplega tékkamisferli sem nú orðið á sér stað í viðskiptum. Nú er reynt að gera ráðstafanir til þess að reisa þar nokkra rönd við, vegna þess að að þeim málum starfar nú sérstök nefnd af hálfu bankanna og viðsk.- og dómsmrn., og er vonandi að það takist að setja þar einhverjar skorður við.

Þessar ástæður og margar fleiri eiga sjálfsagt sinn þátt í því að við verðum að horfa á þessa staðreynd, að ýmiss konar afbrotum hefur farið fjölgandi og ný afbrot hafa komið til sögunnar sem áður voru lítt þekkt. Og þá verðum við líka auðvitað að hafa í huga að við erum komin í meiri þjóðbraut en áður. Það er alþekkt fyrirbæri að sumar tegundir brota eiga sér stað ekki hvað síst í sambandi við flugvelli, alþjóðaflugvelli, t.d. smygl. Og sjálfsagt bætir það ekki aðstöðu Keflavíkurflugvallar í þessu sambandi að hann hefur þá sérstöðu að þar dvelur jafnframt erlent varnarlið.

Þessi orð mín ber náttúrlega ekki að skilja á þá lund að það hafi ekki þekkst afbrot hér á landi fyrr en allra síðustu árin. Það hafa afbrot verið framin á Íslandi sjálfsagt frá því að sögur hófust, en í misjöfnum mæli. T.d. hefur smygl þekkst lengi hér á landi. Ætli það sé nema svo sem áratugur síðan var gert út sérstakt skip til þess að flytja þann varning til landsins, þannig að þó að menn festi sjónir á það nú að um allmikil afbrot sé að ræða, þá er alveg óþarfi að gleyma því, sem á undan var gengið. Og því miður áttu sér líka stað, við skulum segja á s.l. áratug, 1960–1970, manndráp og morð hér á landi — morð, sem því miður upplýstist ekki og er ekki upplýst enn í dag. Þetta er rétt að menn hafi í huga.

En hitt er skiljanlegt, að hv. alþm. séu áhyggjufullir yfir þeirri þróun sem átt hefur sér stað í þessum efnum, og þar breytir engu um þó að hægt sé að rekja rætur þeirrar þróunar með ýmsum hætti, eins og ég hef hér gert. Og e.t.v. væri ekki ofaukið að bæta hér einni ástæðunni eða a.m.k. spurningunni við. Og hún er sú, hvort allt sé í lagi í okkar uppeldismálum, hvort meðferð okkar á ungmennum þessa lands í okkar glæsilegu skólum eigi kannske ekki einhvern þátt í því að þeir lenda því miður of margir á villigötum. Íhugunarefni er það a.m.k. En allt ber hér að einum brunni, að mér sýnist, að hv. alþm. hljóta að vera fullir áhuga að reyna að bæta úr þessu á allan þann hátt sem kostur er. Þess vegna vil ég vona að þeir taki þessu frv. vel. Það er viðleitni í rétta átt. Það er sannfæring mín að það sé stórt spor í rétta átt. Og þegar svo er, þá mega menn ekki stara um of á kostnað sem er því samfara.

Samfara þessu frv. eru borin fram tvö lagafrv. til samræmingar við efni þessa frv. Er annað þeirra um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 74 frá 1974, en hitt um breyt. á l. um skipun dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjóra o.fl., nr. 74 frá 1972. Ég tel ekki ástæðu til að geta þeirra lagafrv. frekar í þessu sambandi, en mun segja um þau aðeins örfá orð hér á eftir, að lokinni umr. um þetta frv.

Ég tel rétt að benda á að þó að ég hafi að sjálfsögðu mikinn áhuga á fljótum framgangi þessa máls, þá muni vera rétt fyrir þá hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að leita umsagnar ýmissa aðila um efni þess, svo sem ríkissaksóknara, lagadeildar Háskólans og annarra sem henni þætti rétt að fjölluðu um málið. Slíkrar formlegrar umsagnar hefur ekki verið leitað af réttarfarsnefndinni né dómsmrn. þó að n. hafi efalaust borið saman ráð sín við ýmsa aðila um einstaka þætti málsins.

Ég vil svo, herra forseti, óska þess að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.