03.11.1975
Neðri deild: 12. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

37. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum er stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Með lögum um ráðstafanir í efnahagsmálum, sem samþ. voru á Alþ. 26. apríl s. l., var m. a. ákveðið að lagt skyldi á sérstakt flugvallargjald. Gjald þetta er skattur til ríkissjóðs sem lagður er á farþega sem ferðast með loftförum ýmist frá Íslandi til annarra landa eða milli flugvalla innanlands. Voru á sínum tíma talsverðar deilur um álagningu þessa gjalds og var ég í hópi þeirra þm. sem greiddu atkv. gegn því. Er afstaða mín til umræddrar gjaldtöku í heild óbreytt.

Eftir eðli málsins má skipta þessu flugvallargjaldi í tvo flokka. Annars vegar er gjald það, sem lagt er á farþega, innlenda og erlenda, sem ferðast loftleiðis frá Íslandi til annarra landa. Sú gjaldtaka þjónar tvennum tilgangi: Annars vegar að afla tekna í ríkissjóð, hins vegar væntanlega að gera utanlandsferðir íslendinga dýrari og þá í því skyni að hafa einhver áhrif til þess að hamla gegn utanferðum íslendinga og gjaldeyriseyðslu í því sambandi. Má vissulega færa rök bæði með og móti nauðsyn þess arna og var það gert á sínum tíma, þegar gjald þetta var til umr. hér í hv. d., og mun ég ekki orðlengja það. Hins vegar kemur svo gjaldtaka flugvallargjalds af farþegum í innanlandsflugi. Þar er annað upp á teningnum heldur en þegar gjald þetta er tekið af farþegum í millilandaflugi. Slík gjaldtaka, þ. e. a. s. gjaldtaka flugvallargjalds í innanlandsflugi, getur aðeins og einvörðungu þjónað þeim tilgangi að afla ríkissjóði tekna og ber þá að líta á að hverjum sú skattheimta beinist og hvort ástæða sé til þess að ætla að hún komi réttilega niður.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að höfuðborg landsins, Reykjavík, er sameiginleg þjónustumiðstöð fyrir landið allt. Aðeins þar er hægt að fá ýmsa sérhæfða þjónustu, t. d. í sambandi við heilsugæslu og heilbrigðismál. Þar eru auk þess allar meiri háttar stjórnsýslu-, lána- og fyrirgreiðslustofnanir sem fólk kann að eiga erindi við svo og ýmis önnur fyrirtæki og stofnanir sem landsmenn allir þurfa að leita til. Af þeim sökum þarf fólk, sem býr úti á landsbyggðinni, oft að koma til Reykjavíkur til þess að sinna erindum sem hvergi annars staðar er hægt að reka.

Þá er það einnig alkunna að því fjær Reykjavík sem fólk býr, þeim mun meira verður það að notfæra sér þjónustu flugfélaga í flutningum til og frá Reykjavík. Íbúar nágrannabyggðarlaga Reykjavíkur geta með auðveldum hætti farið landleiðis til þess að sækja sér þjónustu eða aðra fyrirgreiðslu til Reykjavíkur, en hins vegar þurfa þeir, sem lengri leið eiga, að fara flugleiðis. Innheimta flugvallargjalds af farþegum í innanlandsflugi verður því í raun sannnefndur dreifbýlisskattur, því að gjaldið er aukakostnaður fyrir þá sem fjarri Reykjavík búa, en eiga þangað erindi, sem íbúar nágrannabyggðarlaga Reykjavíkur þurfa ekki að inna af höndum í sama skyni.

Verkar flugvallargjaldið því, sem einn aukakostnaðarliðurinn enn ofan á aðra þá kostnaðarliði, svo sem hærra vöruverð, hærra flutningsgjald og annað eftir því, sem íbúar dreifbýlisins þurfa að gjalda vegna búsetu sinnar umfram reykvíkinga og nágranna. Samrýmist þetta heldur illa hinni margumtöluðu byggðastefnu og er auk þess því óréttlætanlegra þar sem felld hefur verið niður innheimta veggjalds af þeim íbúum nágrannabyggðarlaga Reykjavíkur sem ferðast geta eftir fullkomnum hraðbrautum til og frá höfuðborginni. Skýtur það raunar heldur skökku við að skömmu eftir að samgöngugjald þetta, veggjaldið, var fellt niður af þeim sem stysta og greiðasta leið eiga til höfuðborgarinnar, þá skuli annað samgöngugjald, flugvallarskatturinn, hafa verið tekið upp gagnvart þeim landsmönnum sem um lengstan veg eiga að fara til hinnar sameiginlegu þjónustumiðstöðvar sem Reykjavík er. Ég vil í því sambandi sérstaklega minna á það að þegar fjárlög voru til afgreiðslu á s. l. vetri fluttum við nokkrir þm. tillögu um að veggjaldið yrði tekið upp að nýju á hraðbrautarvegum í nágrenni Reykjavíkur. Sú tillaga var felld. Alþ. komst sem sagt að þeirri niðurstöðu að þetta samgöngugjald bæri ekki að leggja á íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur, og þá getur Alþ. alls ekki komist að þeirri niðurstöðu að flugvallargjald, sem er annað samgöngugjald af svipuðu tagi, beri að leggja á þá íbúa landsins sem eiga um ógreiðari veg að fara til Reykjavíkur heldur en næstu nágrannar hennar.

Upphaflega var ráðgert að flugvallargjaldið yrði aðeins innheimt til loka febrúarmánaðar 1976. Í fjárlagafrv. ríkisstj. er hins vegar boðað að gjaldtaka þessi verði framlengd allt næsta ár og hefur ekkert verið um það sagt hvort einhverjar breytingar séu fyrirhugaðar á þeirri gjaldtöku, t. d. með því að fella niður flugvallargjaldið í innanlandsflugi, eins og mér finnst eðlilegt að gert sé. Kemur raunar fram í fjárlagafrv. að það virðist eins og þessa gjaldtöku eigi að framlengja óbreytta þar sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. tekjum sem samsvara því.

Frv. þetta er flutt í þeim tilgangi að sú breyting verði gerð á ákvæðum laga um innheimtu flugvallargjalds að gjaldið verði eftirleiðis aðeins innheimt af þeim farþegum sem fara frá Íslandi til annarra landa, en gjaldtakan verði felld niður í innanlandsflugi. Eins og á hefur verið bent hér að framan er um réttlætismál að ræða í þessu skyni sem er allsendis óskylt því hvort stjórnvöld vilja leggja einhvern hemil á utanlandsferðir íslendinga. Hvort innheimta flugvallargjalds af farþegum í millilandaflugi er rétt og æskileg leið til þess arna er allsendis óskylt því máli sem hér er flutt. Það mál, sem hér er flutt, er eingöngu í því skyni að breyta því að samgönguskattur sé tekinn af íbúum dreifbýlisins á sama tíma og samgönguskattur hefur verið felldur niður af íbúum í næsta nágrenni við Reykjavík sem greiðasta og auðveldasta leið eiga til þeirrar sameiginlegu þjónustumiðstöðvar landsins alls sem Reykjavík er.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að leggja til að málið verði sent til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.