04.03.1976
Neðri deild: 73. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2391 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

172. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í þeirri n. sem fær þetta frv. til meðferðar, þá mun ég ekki hafa mörg orð um frv. nú við 1. umr. þess, en skoða það gaumgæfilega í n. og mun gera mitt til þess að það fái ítarlega meðferð og fái afgreiðslu ef umsagnir, sem berast, reynast jákvæðar og þá afgreiðslu sem talin er skynsamlegust og réttust. Ég vil þó strax taka fram að ég lít svo á að hér sé um að ræða mjög merkilegt frv. sem ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni með að flutt sé, og ég vil jafnframt þakka hæstv. dómsmrh. fyrir ágæta og efnismikla framsöguræðu.

Þetta frv. er merkilegt að því leyti að hér er um að ræða aðskilnað á rannsókn mála og dómsvaldinu. Fram að þessu hafa þessir tveir þættir verið undir einum og sama hattinum, og það hefur verið mat manna að það fyrirkomulag væri óviðunandi og vekti ekki nægilega mikla tiltrú hjá almenningi um að mál fengju réttláta meðferð. Þar að auki hefur verið gagnrýnt hversu seinagangur hafi verið mikill á meðferð slíkra mála.

Hvort hins vegar sé rétt að stofna sérstakt rannsóknarlögregluembætti er annað mál, því að auðvitað kemur til greina að setja rannsóknarlögreglustjóra ríkisins eða þau verkefni, sem hann á að hafa, undir t.d. lögreglustjórann í Reykjavík. Um það hefur oft verið rætt og er eðlilegt að sú leið sé athuguð. Ég tek fram að ég hef ekki mótað mér skoðanir um það á þessu stigi málsins, en vek athygli á því að slíkt kæmi að sjálfsögðu til greina að hafa rannsóknarmálin alfarið hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík.

Hæstv. dómsmrh. vakti hér athygli á því áðan að alls konar afbrot færu mjög vaxandi í þjóðfélaginu. Það hefur líka verið vakin athygli á því af hv. 2. landsk. þm. og tekið undir það sem hæstv. ráðh. sagði, að þessi brot væru að miklu leyti auðgunarbrot, fjársvikamál alls konar. Með því að efla rannsóknarstörf, rannsóknarlögreglustörf, þá eiga þau mál að sjálfsögðu að fá skjótari og betri meðferð, en sú rannsóknarstarfsemi kemur ekki í veg fyrir afbrotin og leysir þess vegna vandann að mjög takmörkuðu leyti hvað það snertir. Það er rétt, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að þar verður að líta lengra og dýpra, m.a. til uppeldismála hjá þjóðinni, og við þurfum að efla allt fyrirbyggjandi starf og móta æskuna strax í skólum þannig að hún beri virðingu fyrir lögum og rétti.

Ég vek líka athygli á því að við höfum haft rannsóknarlögreglu hér á landi um langan tíma og enda þótt þau rannsóknarstörf hafi heyrt undir sakadóm og lögreglustjóra, þá hafa þau að sjálfsögðu verið framkvæmd, þ.e.a.s. rannsóknarstörfin, þessi lögreglustörf, og hefðu getað verið í betra horfi en þau eru nú ef við hefðum eflt viðkomandi deildir löggæslunnar. Það væri þess vegna óþarfi út af fyrir sig að stofna sérstakt embætti rannsóknarlögreglustjóra ríkisins til þess að taka þessi mál fastari tökum en gert hefur verið, því að við getum að sjálfsögðu eflt rannsóknarlögregluna eins og hún er núna. En engu að síður stefnir þetta frv. í rétta átt að því leyti til, eins og ég sagði áðan, að það gerir ráð fyrir aðskilnaði rannsóknar- og dómsvalds.

Vegna þess að hæstv. ráðh. vekur réttilega athygli á hinum auknu afbrotum í þjóðfélaginu, — afbrotum sem eru refsiverð samkv. hegningarlögunum, þá er líka vert og eðlilegt að vakin sé athygli á annars konar brotum eða a.m.k. ásökunum um slíkt, en þar á ég við vaxandi ásakanir, bæði hér í þessu landi og annars staðar þar sem við þekkjum til, um alls kyns spillingu í stjórnkerfinu, um ákvarðanir bæði stjórnmálamanna og embættismanna sem almenningsálitinu finnast orka tvímælis. Þessar ásakanir eru að sjálfsögðu mjög alvarlegar fyrir lýðræðið í þjóðfélaginu, og það er skylda stjórnmálanna að gripa með einhverjum hætti á þessum ásökunum og bregðast við þannig að tiltrú einstaklinganna, borgaranna, minnki ekki á því réttar- og lýðræðiskerfi, sem við viljum búa við. Á s.l. ári hafa m.a. komið upp ásakanir á hendur stjórnmálamönnum, sem eru mjög áberandi í þjóðfélaginu, um afskipti af málum, sem síðan aftur tengjast ýmiss konar öðrum sakamálum, og ásakanir um að hafa misnotað aðstöðu sina með einum eða öðrum hætti. Að sjálfsögðu tek ég ekki undir neinar ásakanir á einstaklinga, hverju nafni sem þær nefnast, og lýsi ekki yfir neinni sekt á hendur neinum fyrr en sú sekt er sönnuð. En ég hef hins vegar tekið undir óskir um að slík mál séu rannsökuð með einhverjum hætti. Þessar ásakanir eru kannske ekki beint um það að framin hafi verið brot samkv. hegningarlögum, heldur eru þau kannske frekar siðferðislegs eðlis. Með því að taka undir óskír um að slík mál séu rannsökuð, þá felst auðvitað ekki í því nein ásökun, heldur af minni hálfu a.m.k. áhyggjur vegna þeirra sem fyrir slíkum ásökunum verða og að menn séu bornir slíkum ámælum að ósekju.

Í þessu sambandi hefur verið bent á ákvæði í stjórnarskránni sem segir til um að Alþ. eða deildir Alþ. geti skipað sérstakar raunsóknarmefndir þegar rannsaka þarf mikilvæg atriði. Ég hef einmitt lítið svo á að þetta ákvæði væri sett til þess að gefa þjóðþinginu möguleika á því að rannsaka mál sem heyra kannske ekki beint undir hegningarlögin í þeim skilningi sem við skiljum það orð.

Nú hafa hins vegar margir verið efins í að skynsamlegt væri fyrir Alþ. að fara út í þá sálma að setja á stofn slíkar rannsóknarnefndir, og á því eru að sjálfsögðu bæði kostir og gallar að efla slíka starfsemi á vegum þingsins. Við þurfum að skoða þetta vel og athuga hvað við getum komist áfram í þessum efnum. Ég minni líka á að við höfum haft til meðferðar hér á undanförnum þingum frv. um upplýsingaskyldu stjórnvalda og ekkert komist áfram með það frv. Það frv. á að þjóna borgurunum þannig að embættismönnum, opinberum starfsmönnum, sé gerð sú skylda að upplýsa ýmislegt sem borgararnir óska eftir, þannig að það sé ekki hulið einhverjum leyndardómi hvað fram fari hjá embættismönnum og í þeirra embættissýslu. Jafnframt höfum við samþykkt till. um að stofna embætti umboðsmanns Alþ., en ekki komist heldur lengra áfram með það mál.

Ég minni á þetta þrennt: rannsóknardeildirnar, upplýsingaskylduna og umboðsmanninn, til þess að undirstrika að ég held að þessi mál öll hafi verið viðleitni Alþ. og þá almennings til þess að standa vörð gegn yfirgangi stjórnmálamanna og embættismanna, að það sé einhver vörn í þessum atriðum fyrir borgarana til þess að ekki sé misnotað vald. Auðvitað á það að vera hlutverk Alþ. að uppræta hvers konar spillingu, hvort sem hún er lagalegs eða siðferðilegs eðlis, og ég álít að það sé eitt mest áriðandi hlutverk Alþ. að gegna þeirri skyldu sinni.

Rannsókn, hvers eðlis sem hún er og hvert sem sem hún beinist, felur það ekki alltaf í sér að sanna sekt á viðkomandi, heldur líka og kannske miklu frekar til þess að sanna sakleysi. Með því að rannsaka mál, með því að kanna mál, upplýsa þau, er oft hægt að sýna fram á sakleysi og sýna fram á að heiðarlega hefur verið staðið að málum.

Ég taldi ástæðu til þess að minnast á þennan þátt rannsóknarmála við þessa umr., þó að það heyri ekki beinlínis undir þetta frv., vegna þess að þetta hefur mjög verið á döfinni í þjóðfélaginu og leitar mjög á almenning. Og það er eðlilegt og skylt fyrir Alþ. að taka á því með sama hætti og þetta frv. gerir ráð fyrir, að taka á og reyna að laga til hvað snertir rannsóknir á málum sem snerta og eru talin vera brot á hegningarlögunum. Það er vissulega ákaflega seinvirkt, það kerfi sem við höfum í dag. Það er illa búið að rannsóknarlögreglunni. Þetta þurfum við að laga. Við þurfum að efla þessa starfsemi, reyna að auka tiltrú almennings á réttarríkinu. Það er rétt, sem fram kom hjá hæstv. dómsmrh., að við viljum ekki búa hér við lögregluríki, heldur réttarríki, en það getur orðið lögregluríki, þegar menn eru ásakaðir eða lokaðir inni og fá síðan aldrei niðurstöðu í sín mál og liggja undir ámælum og ákærum um langan tíma.

Ég held, herra forseti, að ég hafi ekki þetta mál mitt öllu lengra að sinni. Ég fagna þessu frv. og tek fram að ég sem formaður allshn. mun leggja mig fram um að það fái ítarlega meðferð í nefndinni.