04.03.1976
Neðri deild: 73. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2401 í B-deild Alþingistíðinda. (1994)

172. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil í upphafi máls míns taka það fram að ég fagna mjög þessu frv., sem hæstv. ráðh. hefur lagt fram, og mun að sjálfsögðu fylgja því í öllum meginatriðum, vegna þess að ef af samþykkt þessa frv. verður, þá verður m.a. hægt að koma í veg fyrir það, sem virðist hafa gerst núna að undanförnu, ýmis furðuleg atvik varðandi rannsókn mála þar sem deilur hafa orðið um, hvaða aðili eða hvaða lögsagnarumdæmi eigi að hafa rannsóknina með höndum, og jafnvel komið gagnstæðar yfirlýsingar frá rannsóknaraðilum tveggja ólíkra lögsagnarumdæma um mál af því tagi. Ég held að farið sé inn á rétta braut með því að setja upp rannsóknarlögreglu ríkisins og leysa þar með þann vanda sem þarna hefur skapast.

Hins vegar hafa orðið hér nokkrar umr. um afbrotamál almennt, og í því sambandi langar mig til þess að vekja athygli á tvennu: Í fyrsta lagi þeim mikla vanda sem steðjar að þjóðfélaginu vegna síaukinna afbrota og óknytta barna og unglinga. Í mörgum slíkum tilvikum stendur sá, sem fyrir verður, uppi algerlega varnarlaus og getur hvergi fengið bætt það tjón sem kann að hljótast af slíku. Það vill oft verða þannig að börn og unglingar taka ákveðna menn fyrir, ráðast að eignum þeirra kvöld eftir kvöld og spilla, foreldrar neita að greiða bætur, lögreglan stendur uppi máttvana gegn þessu, viðkomandi sjálfur veit ekki til hvaða ráða hann á að grípa. Mér er kunnugt um einn góðborgara í Reykjavík, lækni einn, sem átti fallegan lystigarð sem aldrei fékk að vera í friði fyrir óknyttum og skemmdarverkum unglinga og barna. Þegar hann var búinn að ganga á milli Heródesar og Pílatusar til þess að reyna að fá leiðréttingu sinna mála, þá fékk hann loksins þau ráð hjá einum helsta forsvarsmanni lögreglunnar í Reykjavík að hann skyldi láta sem hann sæi ekki athæfi barnanna og- vita hvort það mundi ekki enda með því að þau yrðu leið á því að spilla og skemma fyrir honum og sæju hann í friði, vegna þess að lögreglan gæti ekkert í málinu gert og hann gæti hvergi leitað neinna bóta.

Fyrir um það bil 7 árum, þegar ég hóf störf á ritstjórn Alþýðublaðsins, gerði ég mér það til fróðleiks að eiga viðtal við nokkra lögreglumenn héðan úr borginni. Þeir skýrðu mér frá ýmsum atvíkum eins og ég hef hér lýst og sögðu m.a. að þeir óttuðust mjög hvað mundi gerast innan 8–10 ára þegar börn, sem alist hefðu upp við þetta andrúmsloft, væru komin til fullorðinsára og hefðu vanist því frá barnæsku og komist á þá skoðun að í íslensku réttarfari væri raunverulega ekkert afbrot refsivert, vegna þess að sem börn og unglingar hefðu þau sloppið við allar refsingar fyrir þá óknytti sem þessi börn hefðu drýgt. Þessir lögreglumenn sögðu að þeir væru sannfærðir um að ef svo héldi áfram sem nú horfði, þá ætti innan 8–10 ára eftir að skella yfir landið bylgja afbrota og ofbeldisverka ungra manna og kvenna sem hefðu vanist því frá barnæsku að lögin næðu ekki til þess.

Þetta er ég hræddur um að sé að gerast einmitt núna og að þessir lögreglumenn hafi þarna orðið sannspáir, vegna þess að annað alvarlegasta málið í okkar afbrotamálum er, eins og hæstv. ráðh. talaði um áðan, hin óhugnanlegu hryðju- og ofbeldisverk sem hafa stöðugt verið að færast í vöxt, og ég vil vekja athygli á því að þau eru flest drýgð af fólki sem nýlega er komið á sakhæfisaldur. Flest af þessum ofbeldisverkum, eins og árásir á saklaust fólk að næturþeli úti á götum eða jafnvel inni í íbúðum, rán og annað slíkt, eru drýgð af ungu fólki sem er nýlega komið á sakhæfisaldur, — fólki sem frá barnæsku hefur verið á skrám lögreglunnar og hefur vanist því og alist upp við að það sé raunverulega sama hvað það brjóti af sér, þá sé slíkur verknaður ekki talinn refsiverður. Svo þegar þetta fólk kemst til fullorðinsára, þá heldur margt af því að sjálfsögðu áfram sinni iðju, nema hvað hún verður öllu alvarlegri en hún var áður, og þá fyrst á að fara að kenna þessu fólki að til séu á Íslandi refsilög.

Þá er það líka orðið mjög áberandi að almennir borgarar eru orðnir uppfullir af ugg og ótta við þetta ástand, vegna þess að það virðist vera að réttarkerfið í landinu sé þess ekki umkomið að verja saklausa borgara fyrir slíkum ofbeldis- og hermdarverkum. Ég vil í því sambandi lesa litla frétt sem birtist í Dagblaðinu mánudaginn 2. febr. s.l. og varpar nokkru ljósi á hvað hér er að gerast. Þar er sagt frá atburði sem gerðist haustið 1973. Sá, sem þátt tók í því ofbeldisverki sem þar var drýgt, er nafngreindur í fréttinni. Ég ætla samt ekki að nefna nafn hans, en að sögn blaðsins situr sá aðili nú í gæsluvarðhaldi og hefur játað aðild að morði. Frásögn eða frétt Dagblaðsins af þessu máli hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nánari málsatvik varðandi atburðinn við Hlemm haustið 1973 voru þau að þessi tiltekni afbrotamaður og félagi hans töldu að ungi maðurinn, sem hér segir sögu sína, hefði komið upp um stuld þeirra á gítar úr Hljóðfærahúsinu þá um haustið.

Þessir tveir, afbrotamaðurinn og félagi hans, sátu fyrir unga manninum við Tónabæ og neyddu einhverju, sem ungi maðurinn gat ekki nafngreint, til þess að aka sér um bæinn. Tvisvar sinnum þjörmuðu þeir að honum á leiðinni, en er niður að Hlemmi var komið var hann hrakinn út úr bílnum. Sögðu þeir honum að nú ætluðu þeir að drepa hann.

Afbrotamaðurinn og félagi hans börðu nú unga manninn og spörkuðu í hann þar til hann missti meðvitund.

„Ég man ekki hvað gerðist eftir það, en þeir héldu áfram að sparka,“ segir ungi maðurinn. „Það eina, sem ég veit, er að ég vaknaði allur blautur og kaldur og mér tókst einhvern veginn að komast út á Hlemm þar sem einhver fann mig. Uppi á slysavarðstofu kom í ljós að ég var allur mjög brotinn í andliti, brákað nef og kinnbein brotið. Allar tennur voru lausar, en verst hefur mér gengið að ná mér að fullu í baki. Eymslin þar taka sig alltaf upp aftur þrátt fyrir sprautur og nudd.“

Afbrotamaðurinn og félagi haus fengu skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir þetta athæfi og lét afbrotamaðurinn sér það greinilega ekki að kenningu verða. Ungi maðurinn sagði í viðtalinu að hann hefði upp frá þessu alltaf farið á dansleiki eða önnur mannamót í fylgd vina og það hefði einu sinni komið fyrir að þeir hefðu hist síðan atburður þessi gerðist. Var það í Þórskaffi, en þá gátu vinir hans komið í veg fyrir árás afbrotamannsins.

Þá hefur þessi afbrotamaður einnig verið dæmdur fyrir árás á eldri konu hér í bæ, og vitað er um mörg önnur afbrot sem maðurinn er aðili að.

„Þetta er allt dómskerfinu að kenna,“ sagði ungi maðurinn. „Þeir vita það að þeir fá bara skilorðsbundinn dóm og geta því gengið um frjálsir ferða sinna eftir sem áður.““

Það má vel vera, að menn sem lenda í því að fremja afbrot, ódæðis- eða ofbeldisverk á öðrum verði fyrir áfalli ef þeir þurfa að sæta refsingu fyrir. En ég held að almennir borgarar verði fyrir enn þá meira áfalli ef sú lýsing, sem er í þessari frétt Dagblaðsins, er rétt, — ef það er rétt, sem þessi ungi maður heldur fram sem lenti í klónum á þessum vanaafbrotamanni, að fólk, sem kemst í kast við slíka menn, þurfi helst að hafa um sig sveit lífvarða til þess að verja sig hefndum frá þeim upp á síðari tíma. Ef þessi lýsing í frétt Dagblaðsins er rétt, þá er ástandið í hryðjuverka- og ofbeldismálum hér á Íslandi orðið miklum mun alvarlegra en menn hafa haldið.