08.03.1976
Efri deild: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2407 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

190. mál, vinnsla mjólkur í verkföllum

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Fleira forseti. Á þskj. 399 ber ég fram frv. til l. um að bjarga mjólk frá eyðileggingu í vinnslu þegar verkfall er. Frv. er stutt og mun ég lesa það, eins og það liggur fyrir:

„1. gr. Heimilt er forstöðumanni mjólkurbús

að kveðja til starfa nægilegt vinnuafl 31/2 sólarhring eftir að vinnsla mjólkur stöðvast vegna verkfalls, svo að mögulegt sé að bjarga og vinna mjólkina í smjör, ost og undanrennu.

2. gr. Þær afurðir, sem kunna að verða framleiddar undir aðstæðum í verkfalli, skulu seldar í samráði við heilbrigðisyfirvöld á hverjum stað.

3. gr. Hver sá, er hindrar með einhverjum hætti af ásettu ráði vinnslu mjólkur við þær aðstæður, er 1. gr. byggir á, skal sæta seldum minnst 100 þús. kr. og varðhaldi samkvæmt hegningarlögum sé um endurtekið brot að ræða. 4. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að mjólkin hefur um aldaraðir bjargað þúsundum mannslífa á Íslandi frá hungri og dauða. Það eru því óverjandi vinnubrögð og glæpi næst að standa þannig að kjarabaráttu að mjólk sé hellt niður að óþörfu. Þetta er því hörmulegra þegar hungur sverfur að milljónum manna viða um heim. En við hér á landi getum nú fagnað því, að hungurvofan er flosnuð upp og ætti ekki að eiga afturkvæmt, sé rétt á málum haldið hér innanlands. Sú þjóð, sem misst hefur tugþúsundir úr hungri á liðnum öldum, getur ekki verið þekkt fyrir að eyðileggja matvöru, sem þegar er til sem slík, vegna átaka aðila er skilja ekki sinn vitjunartíma. Það má aldrei endurtaka sig að mjólk sé hellt niður á Íslandi. Þess vegna flyt ég þetta frv.

Í 1. gr. þessa frv. er forstöðumanni mjólkurbús heimilað að kveðja til nægilegt starfslið svo að takast megi að koma mjólk í gegnum vinnslu og koma þannig í veg fyrir að henni verði hellt niður. Ekki er unnt að kveða svo á að tiltaka ákveðinn fjölda manna, það verður að fara eftir aðstæðum hverju sinni. Hugsanlegt gæti verið að bændur sjálfir kæmu hér til, þar sem þeir eiga mjólkurbúin í mjög mörgum tilfellum. Það skal undirstrikað, að þessi heimild er ekki fyrir hendi fyrr en 31/2 sólarhring eftir að til stöðvunar kemur, svo þarna er veitt nokkurt svigrúm til að ná sættum í vinnudeilum auk þess tíma sem vonandi hefur verið fyrir hendi áður en til verkfalls kom.

Í 2. gr. er kveðið á um hvernig með skuli fara þær afurðir er kunna að verða framleiddar. Kröfur eru strangar um gæði við eðlilegar aðstæður og réttmætt tel ég að heilbrigðisyfirvöld fái að fylgjast með gæðum á þeim vörum sem kunna að verða framleiddar við þessar erfiðu aðstæður.

Í 3. gr. er fjallað um sektir. Ef á annað borð á að ná þessu fram á að vera sektarhæft að hindra það.

Í 4. gr. tel ég rétt að gildistími sé þegar fyrir hendi svo að mönnum sé ljóst að hverju stefni ef til slíks ástands kemur að yfirvofandi er að mjólkurvinnsla stöðvist og menn þurfi að fara að hella mjólk niður.

Ég vil undirstrika það að hér er um viðkvæmt mál að ræða. Einnig gæti talist nauðsynlegt að kveða á um að það væri heimilt að taka mjólk í vissa bila frá tank á bændabýli að vinnslustöð. Raunar tel ég að það felist í 1. gr. En þetta mun landbn. athuga betur og fjalla um. Ef að menn telja nauðsynlegt að setja inn ákvæði um að lágmarksflutningar séu fyrir hendi, þá tel ég það eðlilegt. En frá mínu sjónarmiði er heimildin til flutnings frá geymslutank í vinnslustað nauðsynleg.

Að svo mæltu, herra forseti, vil ég leggja til að frv. verði vísað til 2. umr, og landbn.