08.03.1976
Efri deild: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

190. mál, vinnsla mjólkur í verkföllum

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. til l. á þskj. 399 er að mínu mati mjög athyglisvert og ég vil leyfa mér að færa flm., hv. 1. landsk. þm. þakkir fyrir að hafa tekið þetta upp í frv.- formi. Ég vil hins vegar geta þess, að það er ljóst mál að hér er um að ræða viðkvæmt mál og það er mál sem við höfum ekki þurft að horfast í augu við fyrr en nú í síðasta verkfalli. Venjulega hefur verið komist fram hjá því að bændur landsins hafi þurft að hella niður mjólk. Því hefur verið bjargað þangað til nú, að það var gert í nokkuð ríkum mæli. Mér er ekki fullkomlega ljóst í hvað ríkum mæli það var gert, en ég hygg að muni vera talið að verðmætið geti verið 100–200 millj. kr. Ber því brýna nauðsyn til að finna leið til þess að bjarga frá því að slíkt hendi. Meðal annars er ástæðan fyrir þeim rökstuðningi að þarna sé veitt undanþága að það er ekki um að ræða að það sé verkfall við bændur sem framleiða mjólkina og þeir geta því á engan hátt haft áhrif á það hvenær þessi mál kunna að leysast, það séu aðrir aðilar sem hafi þar áhrif og þess vegna sé ekki hægt að taka þá inn í þessi átök eins og aðra af því að átökin séu ekki við þá. Hins vegar ber að líta á það að með þetta mál verður sem önnur slík mál að fara með mikilli varfærni.

Það er rétt hjá hv. flm. að það, sem hér á að leggja fyrst og fremst áherslu á, er að vinna þessa mjólk í smjör og ost og aðrar vinnsluvörur. Aftur ef á að selja hana sem neyslumjólk meðan á verkföllum stendur, eins og farið var að gera nú, þá þarf að setja um það ákveðnar reglur. Það er miklu meiri vandi að fást við það en að vinna mjólkina til geymslu. Sala á henni mundi svo ekki koma til sem slíkri fyrr en að verkfalli loknu. yfirleitt mun það verða þannig að nægjanlegt sé til af þessum vörum fyrir verkfall, þannig að fólk þurfi ekki að þola skort á þeim þann tíma, og þá er fyrst og fremst verið að bjarga verðmætunum. Nú stendur hins vegar þannig á að það er allt útlit fyrir að það verði ekki til nóg smjör í landinu til að selja hér á innanlandsmarkaði og verði farið fram á það, sem reyndar hefur verið gert með óformlegum hnetti, að flytja inn smjör.

Það segja þeir, sem til þekkja, að það sé langt frá því að mjólkurframleiðsla sé nú orðin eðlileg eftir verkfallið. Nyt hefur dottið niður í kúnum, m.a. vegna þess að bændur höfðu ekki fóðurbæti til að nota meðan á verkfallinu stóð, og sumir hafa af eðlilegum ástæðum dregið úr notkun hans vegna þess að þeir sáu fyrir að þeir voru að framleiða mjólk sem þeir urðu að hella niður.

Ég tek undir það með hv. flm., að matvæli eins og mjólkurvörur hafa alltaf verið litin þeim augum hér á landi að menn vildu ekki hugsa til þess að mjólk yrði hellt niður. Ég held líka að það hafi verið skoðun þeirra, sem fyrir verkföllum stóðu, að til þess þyrfti ekki að koma nú, þó að það gerðist, og það mál hafi ekki verið hugsað svo sem skyldi í upphafi verkfallsins. Þess vegna tel ég að það sé brýn nauðsyn að ákveða með lögum hvernig með skuli fara í þessum tilfellum. Þá þarf náttúrlega jafnframt að gæta þess að um misnotkun geti ekki verið að ræða, — ef um sölu yrði að ræða í undanþágutilfellum, þá yrði þar ekki misnotkun, en alltaf er nokkur hætta á að það geti átt sér stað.

Hins vegar er megintilgangur þessa frv. sá að bjarga þessum verðmætum frá eyðileggingu og það er hægt með því að vinna þau í mjólkurbúum á þann hátt sem hér er tilgreint, svo að því verði afstýrt að neyslumjólk þurfi að heila niður.

Ég vona að sú nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, gæti fullrar sanngirni og varfærni í meðferð málsins vegna viðkvæmni þess, en gæti þess að höfuðtilgangur þess nái fram að ganga, að þessum verðmætum verði bjargað frá eyðileggingu, og hafi þá í huga að hér er um að ræða aðila sem á engan hátt geta haft áhrif á gang mála í slíkum átökum eins og verkföll eru. En það geta bændur ekki því að þeir eru í þessum tilfellum ekki viðsemjendur.

Ég skal ekki þreyta hv. dm. með því að segja fleiri orð um þetta. Ég endurtek að ég er flm. þakklátur fyrir flutning þessa máls og tel það ekki siður virðingarvert þar sem það er maður úr hópi neytenda sem hér er að verki. En þetta mál hefur að sjálfsögðu valdið mér og öðrum, sem að þessum málum vinna, miklum áhyggjum og verið um það rætt hvernig því mætti koma við að slíkt óhapp endurtæki sig ekki. Ég vona því að skilningur hv. þm. verði fyrir því að gera þennan þátt í þjóðarbúskapnum áhrifalausan í verkföllum á þann hátt að bjarga verðmætunum frá eyðileggingu án þess að þurfa að koma inn í þau átök sem þar eiga sér stað.