08.03.1976
Efri deild: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2411 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

190. mál, vinnsla mjólkur í verkföllum

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Með 14. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur er launþegum tryggður réttur til að berjast fyrir bættum kjörum með því að leggja niður vinnu, hætta að selja vinnuafl sitt, án þess að atvinnurekendur megi í slíkri vinnudeilu láta aðra aðila taka upp störf sem tiltekinn hópur launþega hefur lagt niður. Þennan rétt hefur almenningur í landinu talið ein sín helgustu réttindi, grundvallarréttindi. Jafnvel þótt ýmsar óæskilegar afleiðingar hafi af slíkri lífskjarabaráttu hlotist, svo sem að spillt væri verðmætum um tímabundið skeið, hafa sjálf réttindin til að ráðstafa eigin vinnuafli, réttindin til lögverndaðrar verkfallsbaráttu verði talin til grundvallarmannréttinda hér á landi.

Það er ekki óeðlilegt að ýmsum hefur blætt í augum hið beina tímabundna fjárhagstjón sem stundum hefur hlotist af slíkri verkfallsbaráttu þegar atvinnurekendur hafa fremur kosið að láta koma til vinnustöðvunar en semja um launahækkanir eða aðrar kjarabætur.

Í því frv., sem hér er til umr., er sérstaklega fjallað um það tjón sem hlotist getur af því að við sérstakar aðstæður tekst ekki að nýta alla þá mjólk sem til fellur á meðan verkfall varir í mjólkurbúum. Skal ég síst af öllu gera lítið úr vandkvæðum bænda í því sambandi þegar samtök þeirra sem aðilar að vinnuveitendasambandinu kjósa þann framgang mála fremur en semja við starfsfólk mjólkurvinnslufyrirtækja. En við þær aðstæður tapa fleiri verðmætum en bændur. Það fólk, sem nær ekki samningum um kaup og kjör m.a. við vinnslustöðvar bænda og neyðist til þess að grípa til þess lögverndaða réttar að fella niður vinnu, verður að afsala sér á meðan allri lífsbjörg sinni til að heyja baráttuna fyrir bættum kjörum, eða eins og nú í síðasta verkfalli til þess einungis að reyna að viðhalda kaupmætti launanna. Það er reyndar svo, að sú kjarabarátta, sem krefst fórna af þessu fólki, er um leið kjarabarátta fyrir þá bændur sem fá ekki mjólk sina unna. 40% af afurðaverði landbúnaðarvara eru laun bóndans og þau hækka, að mér skilst sjálfkrafa í réttu hlutfalli við laun þess fólks sem afsalar sér allri sinni lífsbjörg á meðan á kjarabaráttunni stendur, svo að bændurnir færa ekki fórnina til einskis fremur en launafólk ef árangur næst í verkfallsbaráttu.

Ég skal síst gera lítið úr þeim vandkvæðum sem af því hljótast að mjólk er spillt. En með þessu frv. er fjallað um viðkvæmt mál þar sem lagt er til að skerða þau réttindi sem starfsfólki í mjólkurbúum eru sem öðrum landsmönnum tryggð í vinnulöggjöfinni. Og hvað mun á eftir fylgja?

Breytingar á þessari löggjöf í líka átt og hér er stefnt að hafa verið eftirsóknarverðar ýmsum aðilum í þjóðfélaginn, — aðilum sem hafa viljað rétt verkafólks og annarra launþega til þess að berjast fyrir bættum kjörum stórum minni en hann þó er nú. Það er dálítið einkennilegt að sjá hér frv. frá þm. Alþfl. þar sem verið er að gera tilraun til að draga úr rétti launafólks í þessu efni, þar sem verið er jafnvel að opna dyrnar fyrir öðru meira en í þessu frv. felst. Það er einkennilegt að sjá þetta mál bera þannig að þegar haft er í huga að jafnvel forustumenn atvinnurekenda gera sér ljóst að þannig verður ekki staðið að breytingum á ákvæðum vinnulöggjafarinnar. Þeir hafa gert ljóst um alllangt skeið að eigi að endurskoða þessi mál, og á því kann vissulega að vera þörf varðandi einstök atriði, verður þar til grundvallar að leggja samstarf og samkomulag fulltrúa vinnumarkaðarins, launafólks og atvinnurekenda. Þessu til áréttingar vil ég aðeins minna á orð Barða Friðrikssonar skrifstofustjóra Vinnuveitendasambands Íslands sem fram kom í afmælisriti Vinnuveitendasambandsins sem gefið var út í fyrra, en Barði segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Síðan lífeyrissjóðirnir komust á laggirnar hef ég persónulega haft mestan áhuga á breytingum á vinnulöggjöfinni. Þær hafa raunar alltaf verið mitt áhugamál. Ég skal ekki rekja hverjar þær breytingar þurfa að vera að mínum dómi, enda er hægt að sjá það í mörgum ályktunum Vinnuveitendasambands Íslands, einkum frá síðustu árum. Ég vil aðeins segja það, að ég tel að til grundvallar þessum breytingum eigi að liggja samkomulag milli vinnuveitenda og launþega sem síðan öðlist e.t.v. lagagildi.“

Ég held að farsælast væri að tekið yrði á þessu máli, sem hér er til umr., á þann hátt sem forustumenn aðila vinnumarkaðarins hafa verið sammála um, að fyrir þurfi að liggja samkomulag þessara aðila áður en hróflað er við ákvæðum gildandi laga. Þetta tel ég aðalatriðið varðandi þetta frv. Það vantar þennan grundvöll.

Hitt er svo annað, en skiptir minna máli, að eins og þetta frv. er sett fram, þá fullnægir það áreiðanlega ekki því sem hv. flm. stefnir að, þ.e.a.s. að unnið sé úr mjólk í mjólkurbúum þrátt fyrir verkfall starfsmanna þar. Ég fæ ekki séð að hv. flm. nái tilgangi sínum með öðrum hætti en þeim að skylda þjálfað fólk í mjólkurbúum til að starfa áfram þrátt fyrir að það hafi ákveðið á löglegan hátt að leggja niður vinnu. Þessi störf verða án efa ekki unnin með þeim hætti að kveðja til bændur úr sveitum til að vinna sérhæfð störf mjólkurfræðinga og annars þjálfaðs starfsliðs í mjólkurbúum. Ætlun hv. flm. virðist vera sú, að þessi störf verði unnin í verkfalli, og það er einkennilegt að hann skuli ekki orða ákvæði frv. í samræmi við að það þjóni þeim tilgangi, þ.e.a.s. með því að banna verkföll þess sérhæfða starfsliðs. Till. hans er í líkingu við það að hann hygðist t.d. tryggja áframhaldandi siglingar farskipa í verkfalli með því að heimila að hluthafar Eimskipafélags Íslands mættu sigla skipunum þótt þeir hefðu aldrei á sjó komið. En þetta er ekki aðalatriði málsins, eins og ég hef áður lagt áherslu á, heldur hitt, að lagasetningu, sem snertir ákvæði vinnulöggjafarinnar, á að bera að með þeim hætti að undanfari hennar sé samkomulag aðila vinnumarkaðarins,launafólks og atvinnurekenda.