08.03.1976
Neðri deild: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það eru fyrst örfá orð út af ummælum sem féllu hér í upphafi 1. umr.

Það kom fram í ræðu hv. 5. landsk. þm. samanburður á þátttöku ríkisins í kostnaði við verkmenntaskólana, sem almennt eru kallaðir svo, og aðra skóla, þ. á m. viðskiptaskólana.

Þessi samanburður var ofurlítið villandi að því leyti að verkmenntaskólarnir, við skulum segja iðnskólarnir, eru ekki kostaðir af ríkissjóði nema að hálfu leyti, en síðan að hálfu af sveitarsjóðum. Þessir skólar eru því kostaðir af opinberum aðilum að fullu. Þetta breytir ekki því að það ósamræmi, sem er í þátttöku ríkisins í kostnaði við hina ýmsu skóla framhaldsskólastigsins, er ótækt og verður að leiðréttast strax þegar menn sjá sér færi á eða koma því í verk. En ég vildi vekja athygli á þessu. Aftur á móti viðskiptaskólarnir tveir, sem hér voru aðallega gerðir að umtalsefni og haldið hafa uppi viðskiptafræðslu í landinu fram til þessa, eru einkaskólar og kostaðir af einkaaðilum og reknir af einkaaðilum með styrk úr ríkissjóði.

Það er ekki reginmunur á því í sjálfu sér hvort skóli er kostaður af ríki eða sveitarfélagi að meira eða minna leyti. Gjöldin eru í báðum tilvikum lögð á skattborgarana eftir þar til gerðum reglum. En hitt er svo annað mál, að samræmi þarf að vera í þessu innbyrðis og það er atriði sem hv. alþm. og stjórnvöld verða að snúast við og leiðrétta.

Ég drap aðeins á það þegar ég mælti fyrir frv. að þetta mál og fleiri mál, sem hér liggja fyrir þingi núna, t.d. frv. um fullorðinsfræðsluna, það er eðlilegt að skoða þau í nokkru samræmi við almenna endurskoðun framhaldsskólastigsins. Það breytir svo ekki því að það getur verið nauðsynlegt og e.t.v. reynst óhjákvæmilegt að taka út úr einstaka þætti þessarar endurskoðunar, einstaka málaflokka, og afgr. þá áður, en best væri að afgr. endurskoðun framhaldsskólastigsins í heild. Það getur þó farið svo. Og ég álít að við gætum staðið frammi fyrir því einn góðan veðurdag, einmitt varðandi þennan málaflokk, að það reyndist óhjákvæmilegt að taka þennan þátt nokkru fastari tökum en ríkisvaldið hefur þurft að gera til þessa vegna þess að einkaaðilar hafa staðið sig vel að þessu leyti. Öllum þeim, sem eitthvað hafa fylgst með þeirri óskaplegu aðsókn sem er að þessum tveimur skólum annars vegar og hins vegar gert sér grein fyrir hvað þörfin fyrir viðskiptamenntað fólk hefur vaxið gríðarlega með breyttum atvinnuháttum og aukinni þjónustustarfsemi í þjóðfélaginu, getur ekki komið þetta mál á óvart.

Í ræðu hv. þm. var aðeins vikið að því að nær lægi að hefja aðgerðir á öðrum skólasviðum fremur en þessum, t.d. varðandi verkmenntaþáttinn. Það er mikið rætt og ritað um nauðsyn þess að hefjast þar handa og gera þar betur en gert hefur verið. Mér finnst ástæða til þess af þessu tilefni og út af mörgum fyrirspurnum og athugasemdum, sem oft koma fram einmitt varðandi verkmenntaþáttinn, að rifja upp, í sem allra fæstum orðum samt, hvað við höfum þó á undanförnum missirum, undanförnum árum verið að gera til þess að bæta úr á þessu sviði.

Ég vil fyrst vekja athygli á því að sá tölulegi samanburður, sem oft er gerður á framlögum ríkisins til verkmenntaskóla og annarra skóla, bóknáms, er oft mjög villandi. Það tekur t.d. engu tali álít ég, að telja allan kostnað við grunnskóla til kostnaðar við bóknám. Vitanlega eru í grunnskólanum og í vaxandi mæli kenndar ýmsar verklegar menntir. Og að öðru leyti verður að líta svo á að á grunnskólastigi sé nemandinn búinn undir það almennt að taka til starfa á þeim skólasviðum sem við taka, hvort sem það eru fremur bókmennta- eða verkmenntaskólar. Eins er að mínum dómi alveg fráleitt að telja allan kostnað við Háskólann og t.d. Tækniskóla Íslands til kostnaðar við bóknám. Innan Háskólans starfar verkfræðideildin t.d. En þetta er þó oft gert þegar verið er að bera þessar tölur saman. Ég dreg ekkert úr því að við þurfum að taka til hendi á verkmenntasviðinu, en menn verða þó að reyna að líta á hlutina nokkuð raunhæfum augum.

Ég vil svo varðandi það, sem hefur verið aðhafst á verkmenntasviðinu á undanförnum árum, rifja þetta upp:

Ég vil í fyrstu minna á stofnun Tækniskóla Íslands 1964, en sá skóli hefur alveg tvímælalaust gegnt mjög merkum þætti í menntakerfi okkar. Hann hefur brautskráð á s.l. 5 árum S6 tæknifræðinga, er mér tjáð, en margir nemendur skólans hafa orðið að ljúka tæknifræðinámi sínu erlendis vegna þess að aðeins hefur verið unnt að hafa fyrri hluta námsins hér á landi. Þá hefur skólinn brautskráð 27 rafmagnstækna og 5 véltækna, en tæknanámið þarna er 2li ár. Og það er áætlað að bæta þarna við nýjum brautum fyrir tækna. Má vel minna á það að skólinn hefur útskrifað marga meinatækna á undanförnum árum og þeir gegna auðvitað margir mikilvægum rannsóknarstörfum fyrir sjúkrahús og aðrar stofnanir. Þessi skóli hefur nú fengið til afnota húsnæði sem ég hygg að sé talið ágætt og gefur honum góð vaxtarskilyrði.

Fiskvinnsluskólinn í Hafnarfirði var stofnaður 1971 og hlutverk hans er að mennta fiskiðnaðarmenn, eins og kunnugt er, bæði bóklega og verklega auðvitað, til starfa í fiskiðnaði. Sá skóli hefur brautskráð 35 fiskiðnaðarmenn. Af þeim stunda 12 framhaldsnám og ljúka fisktæknaprófum næsta vor. Þessi skóli býr hins vegar við mjög erfið starfsskilyrði að flestu leyti og þar er brýnna úrbóta þörf.

Árið 1972 var stofnaður nýr hjúkrunarskóli. Hann hefur fengið húsnæði á Suðurlandsbraut 18, sem er að vísu ekki stórt, en það er talið mjög vel við unandi. Þar er líka til húsa námsbraut í hjúkrunarfræðum sem var stofnuð í tengslum við læknadeild Háskóla íslands. Og það má minna á að þar hefur verið efnt til kennslu fyrir röntgentækna, lyfjatækna. Og svo hafa verið stofnaðir sjúkraliðaskólar.

Auðvitað hefur á undanförnum árum þrátt fyrir allt verið unnið töluvert að eflingu iðnskólanna, einkum í Reykjavík og hinum fjölmennari stöðum. En þar er þetta, sem ég áðan aðeins vék að, óskaplegur þrándur í götu, hin óhagstæða löggjöf um skiptingu kostnaðar við hina ýmsu skóla á framhaldsskólastiginu. Það má minna á, að það hefur verið byggt myndarlegt hús fyrir iðnskólann á Akureyri og það er hafin bygging á verknámshúsi á Selfossi sem á að tengja saman iðnskólann og efstu bekki grunnskólans. Þar á Suðurlandi hefur þó tekist að koma á samstöðu með fjórum sýslufélögum. Allt Suðurlandskjördæmið að undanskildum Vestmannaeyjum stendur að þeim skóla. En þetta hefur ekki tekist í öðrum landshlutum svo að ég viti til, að ná þeirri samstöðu sem lög um iðnfræðslu gera ráð fyrir. Þau gera ráð fyrir einum aðalskóla í hverju kjördæmi. Það eykur enn vandræðin í sambandi við uppbyggingu iðnskólanna úti á landi. Það er ekki nóg með það að þeir njóti aðeins helmingsframlags frá ríkissjóði á meðan menntaskólar eru greiddir að fullu o.s.frv., heldur hefur ekki tekist að koma á samstöðu með heimaaðilum um að standa að einum iðnskóla í hverju kjördæmi nema á þessum eina stað. Og sums staðar hefur þetta orðið þannig — og kannske víðast hvar, að einungis það sveitarfélag, þar sem skólinn er til húsa, stendur að kostnaði við hann heima fyrir.

Skipan iðnnána hefur þegar verið hagrætt í mjög verulegum atriðum og er nú hafin og komin í nokkuð góðan gang námsskrárgerð fyrir iðnfræðslustigið. Það verk er hins vegar ákaflega yfirgripsmikið. Viðurkenndar iðngreinar eru eitthvað á milli 50 og 60 talsins og þetta er auðvitað gríðarlega mikið verk. Væri hægt að vinna það hraðar en gert er nú ef meira fé væri til þess veitt. En verkið er þó hafið og eins og ég sagði, það er í fullum gangi.

Verknámsskólar iðnaðarins hafa verið stofnaðir, eru teknir til starfa við nokkra iðnskóla. Þetta eru eins árs skólar sem veita undirstöðumenntun í iðngreinum. Það hafa verið stofnaðar framhaldsdeildir við verknámsskóla Iðnskólans í Reykjavík í útvarpsvirkjun, rafvirkjun og bifvélavirkjun. Fyrstu nemendur þessara skóla hafa þegar lokið iðnnámi þarna úr framhaldsdeildunum.

Í sjónvarpi nú fyrir nokkrum dögum kynnti Óskar Guðmundsson framkvæmdastjóri Iðnfræðsluráðs nýja skipan iðnnáms sem nú er a.m.k. komin á hér í Reykjavík, já, og raunar víðar. Hann gerði það mjög greinilega. Menn telja mikla bót að þeim breytingum sem þar er verið að taka upp.

Þá vil ég enn minna á það að nokkuð víða á landinu hefur verið tekin upp samvinna með skyldum skólum. Menntmrn. hefur unnið að því að samræma nám skyldra brauta svo að auðveldara verði að halda uppi kennslu í sérnámi utan Reykjavíkur. Þannig hefur iðnskólunum í Vestmannaeyjum, á Akranesi, á Ísafirði og í Neskaupstað verið gert fært að annast fjölþættari kennslu og er nú í vetur kennt vélstjórum og stýrimönnum við suma þessa skóla — eða þá a.m.k. öðrum hópnum — ásamt iðnnemunum á fyrstu námsönnunum. í Neskaupstað t.d. annast iðnskólinn nám fyrir stýrimenn. í Vestmannaeyjum er þetta þrennt tengt saman o.s.frv. Og þó að ekki sé unnt að ljúka nema lægri stigum t.d. vélstjóranáms og stýrimannanáms við þessa skóla, þá eru kostir þessarar skipunar, hygg ég, alveg augljósir. Og það eru vissulega fleiri staðir, miklu fleiri staðir sem þegar eru farnir að huga að svona skipulagi.

Þá er enn ástæða til að minna á það að á s.l. skólaári var Flensborgarskóla í Hafnarfirði breytt í fjölbrautaskóla og til starfa tók s.l. haust fjölbrautaskólinn í Breiðholti, fyrsti skólinn sem byggður er upp með fjölbrautasniði frá grunni. Fjölbrautaskólinn í Breiðholti mun í vetur starfa á fjórum aðalsviðum: menntaskólasviði, iðnfræðslusviði, viðskiptasviði og samfélags- og uppeldissviðum. Hvert þessara sviða greinist svo seinna niður í námsbrautir, eins og kunnugt er. Það má enn í sambandi við þetta minna á að það er áformað að þoka Menntaskólanum í Kópavogi yfir á fjölbrautasvið með tíð og tíma. Hann býr nú í leiguhúsnæði sem hann hefur aðeins til tveggja til þriggja ára og lítið hægt að hreyfa sig fyrr en siðar. En þetta er áformað, að taka þar einnig upp verkmenntabrautir. Og varðandi uppbyggingu menntaskóla á Egilsstöðum stefna menn að því sama, þó að þar verði sennilega eins og í Kópavogi með fyrstu víðfangsefnum að taka upp kennslu í menntadeild, en þetta er sem sagt stefnan þar.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta miklu frekar, en ég vil árétta að í grunnskólanum er fyrsti grunnur verkmennta lagður með alhliða þjálfun huga og handar. Auk þess eru svo gerðar í vaxandi mæli tilraunir með nánari tengsli námsins við atvinnulífið. Kennsla í sjóvinnubrögðum fer t.d. fram núna, er mér sagt, í 40 gagnfræðaskólum víðs vegar um landið. Á Akureyri er gerð tilraun með sérstakri kynningu á iðnaði meðal gagnfræðaskólanema, bæði að því er varðar stöðu iðnaðarins almennt í íslensku atvinnulífi og svo menntun fólks til iðnaðarstarfa. Og hliðstæðar tilraunir fara fram í Neskaupstað í sjávarútvegi og Reyðarfirði og því er varðar bifreiðir. Og næsta haust er ráðgert að taka fyrir landbúnaðar- og viðskiptastörf með sama hætti, gera sams konar tilraunir á því sviði og halda þeim áfram sem þegar hafa verið gerðar og tvímælalaust hafa gefist vel.

Starfsfræðslan, sem Vogaskólinn í Reykjavík hafði forustu um að taka upp hér á höfuðborgarsvæðinu, hefur líka gefist vel. Nemendur fara í skipulagðar kynnisferðir út í atvinnulífið eins og það birtist í umhverfinu og fá tækifæri til að fylgjast með einhverja daga og vinna síðan úr því efni, sem þeir þannig afla sér, þegar í skólann kemur. Þetta, þ.e. forustu Vogaskólans hérna í Reykjavík í þessu efni, hefur orðið til þess að þessi starfsemi hefur færst í vöxt og nú er svo komið að það er vissum erfiðleikum bundið að fá aðstöðu fyrir skólanema til þess að líta inn og fylgjast með á þeim stöðum þar sem mest er spurt eftir á þessu sviði.

Ég held að það sé ljóst af þessu, sem ég hef nú aðeins drepið á, að á undanförnum árum hefur ekki verið setið alveg auðum höndum á sviði verkmenntunar, eins og oft er haldið fram þegar þessi mál ber á góma í fjölmiðlum. En það breytir auðvitað engu um það, að þarna eigum við óskaplega mikinn akur óunninn og gífurlega mikil verkefni fram undan. Hv. þdm. mega ekki taka orð mín svo að ég sé að draga úr þörfinni á auknum þunga í aðgerðum á þessu sviði. þó að ég hafi notað þetta tækifæri, sem gafst hér eðlilega þegar verið er að ræða um einn þátt framhaldsskólastigsins, til þess að rifja þetta upp.