08.03.1976
Neðri deild: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Mér er raunar óskiljanlegt að hæstv. ráðh. skyldi segja þær tölur, sem ég fór með í ræðu minni við fyrri umr. um þetta mál, villandi. Ég bar þar saman framlag ríkisins til iðnskóla og framlag ríkisins til viðskiptamenntunar, eins og það er fyrirhugað í frv., og það er rétt, af því að nokkuð langt er liðið frá því að umr. þessar hófust, að ég endurtaki þessar tölur hér. Til iðnskóla greiðir ríkið í rekstrarkostnað 85–90%, en skv. þessu frv. á ríkið að greiða 100%. Til stofnkostnaðar iðnskóla greiðir ríkið 50%, en skv. þessu frv. er ætlunin að greiða 80% til Verslunarskólans og Samvinnuskólans. Ég vakti athygli á því að hér væri um mjög mikinn kostnaðarmun að ræða, að ríkið hygðist gera allmiklu betur við Verslunarskólann og Samvinnuskólann en við iðnskólana. Þennan samanburð hefur hæstv. ráðh. ekki hrakið, en hann taldi samanburðinn villandi vegna þess að framlagið greiddist í öðru tilfellinu af sveitarfélögum, en hinu tilfellinu einkaaðilum. Mér er gjörsamlega óskiljanlegur þessi hugsunarháttur hæstv. ráðh. og get ekki dregið aðra ályktun af þessum málflutningi en þá, að honum finnist eðlilegt að ríkið greiði einkaaðilum meira en sveitarfélögum. Ég er alls ekki þessarar skoðunar. Ég held að ef á að gera þarna upp á milli, þá eigi þau verkefni, sem sveitarfélögin inna af hendi, að eiga forgangskröfu til almannafjár, en því sé ekki öfugt farið.

Það kom fram í máli hæstv. ráðh. að það hefði verið allmikið gert í skólamálum á framhaldsskólastigi og ýmsu hnikað áleiðis og margs konar samvinna komin á. Þetta er vitaskuld alveg rétt. En af þessu má líka draga aðra ályktun sem liggur í augum uppi eftir ræðu hæstv. ráðh. Hér er raunar um algjört frumkvæði skólanna sjálfra að ræða og öll sú starfsemi, sem fer fram hér og hvar í hinum ýmsu skólum, fer alls ekki fram eftir neinni heildarstefnu. Ég hygg það væri ekki of sterkt til orða tekið að segja að í þessum efnum ríkir heilmikil ringulreið sem erfitt verður að greiða úr þegar selst er niður að semja heildarlöggjöf.

Það er enn eitt sem verður að huga að áður en samþ. er frv. eins og þetta sem hér liggur fyrir. Hvernig á yfirleitt á framhaldsskólastiginu að hafa tengslum skólanáms og atvinnulífs þegar um er að ræða starfsmenntun. Ég hygg að það vanti alveg í þetta frv. ákvæði um slíkt, og það munu vera skiptar skoðanir um hvernig þessu á að toga. Ég er þeirrar skoðunar að það sé vissulega sjálfsagt að nám og reynsla í atvinnulífinu fari fram jafnhliða skólanámi. En ég er þeirrar skoðunar að skólarnir verði sjálfir að hafa fulla stjórn á því hvernig þessu er hagað. Við sáum dæmi um það í vetur í hvert óefni er komið þegar ekki er gengið frá þessum málum. Þegar Fiskvinnsluskólinn ætlaði að senda nemendur sína á rannsóknastofur að venju, þar sem þeir eiga að fá starfsþjálfun, þá voru það atvinnurekendur sem settu skólanum stólinn fyrir dyrnar og settu skilyrði um hvers konar nemendur þeir vildu fá. Þeir vildu ekki konur og þeir settu skilyrði um einkunn. Þetta voru skilyrði sem komu frá atvinnurekendum og skólinn virtist a.m.k. í fyrstu hafa beygt sig undir. Hvernig það mál hefur farið er mér því miður ókunnugt um ennþá. En þetta sýnir að hér vantar skýrar línur til að starfa eftir. Og það eru vissulega mörg slík atriði sem þarf að huga að áður en farið er að fastmóta einn þátt framhaldsmenntunar eins og hér stendur til að gera og koma þar með kannske í veg fyrir að unnt verði að framfylgja þeirri heildarstefnu sem menn munu væntanlega koma sér saman um áður en mjög langt líður.

Ég get endurtekið það líka í samanburði iðnskóla við Verslunarskólann og Samvinnuskólann, að þegar hæstv. ráðh. segir að mjög vel hafi verið gert við iðnskóla á ýmsan hátt, þá má vel benda á Iðnskólann í Reykjavík sem hefur að eigin frumkvæði byrjað á því að fikra sig með námið allt inn í skólann til þess að reyna að afnema hið alræmda meistarakerfi, en til þess að sú uppbygging gæti haldið áfram þurfti skólinn að fá 50 millj. á fjárl. þessa árs til sinnar framkvæmdaáætlunar, en honum voru veittar 9 millj., sem þýðir að þarna er um algjöra stöðvun að ræða.

Það hefði verið fróðlegt að fá það upp hjá hæstv. ráðh., þegar hann ræddi um það sem hann kallaði villandi samanburð hjá mér án þess þó að hrekja það að hér væri ætlað að gera betur við Verslunarskólann og Samvinnuskólann, hvort honum sjálfum þætti eðlilegt að framlög ríkisins, sem ætlað er að veita skv. þessu frv., yrðu eign þessara einkaaðila — allt þetta fjármagn yrði einkaeign þeirra — og hvort honum þyki það eðlilegt að hið opinbera hafi engin áhrif á stjórn þessara skóla úr því á að veita þeim svona mikið fé. Ég saknaði þess að hæstv. ráðh. tæki ofstöðu til þessa máls eða svaraði því, þar sem ég hafði komið inn á það í fyrri ræðu minni.